Fékk samúðarbumbu á meðgöngum eiginkonunnar

Lárus elskar föðurhlutverkið.
Lárus elskar föðurhlutverkið. mbl.is/Eyþór

Lárus Blöndal Guðjónsson, best þekktur undir listamannsnafninu Lalli töframaður, er algjör sprelligosi og einn dáðasti skemmtikraftur landsins, enda uppátækjasamur, forvitinn og fyndinn. Hann hefur heillað börn jafnt sem fullorðna með ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum síðustu ár. 

Lárus er mikill fjölskyldumaður og býr með fjölskyldu sinni í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann á tvo unga syni með eiginkonu sinni, Heiðrúnu Örnu Friðriksdóttur, og er einnig stjúpfaðir tveggja barna sem eiginkona hans átti fyrir. 

Töframaðurinn er með mörg járn í eldinum um þessar mundir og bíður nú spenntur eftir að frumsýna nýjustu barnasýningu sína, Nýjustu töfrar og vísindi, á sviði Tjarnarbíós þann 15. september næstkomandi. 

Það hjálpaði að vera Lalli töframaður

Hvernig kynntist þú eiginkonu þinni?

„Við kynntumst á netinu, byrjuðum að spjalla saman og fórum að hittast í framhaldi af því. Eftir einhverja mánuði fórum við saman í Krónuna að versla í matinn og það var þar sem ég áttaði mig á því að þetta væri það sem mig langaði að gera til æviloka. Þá er ég ekki að tala um að kaupa í matinn heldur að fá að vera með Heiðrúnu.“

Hvernig gekk að kynnast börnum hennar í byrjun sambandsins?

„Það gekk alveg ótrúlega vel, þau eru svo frábær og skemmtileg. Svo þegar mamma þeirra sagði þeim að hún væri komin með kærasta og að það væri Lalli töframaður þá hjálpaði það alveg til.“

Var einhver hræðsla sem fylgdi því að byrja með konu með börn?

„Það er auðvitað rosaleg ábyrgð og stór pakki að koma inn í líf tveggja barna, en við urðum strax góðir vinir. Þau eru hluti af eiginkonu minni og gera hana að því sem hún er og það er einmitt það sem ég elska svo mikið.“

Fjölskyldan var glæsileg á brúðkaupsdaginn.
Fjölskyldan var glæsileg á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Aðsend

Fékk samúðarbumbu

Synir Lárusar og Heiðrúnar, Óliver Elvis og Kári Lennon, komu í heiminn með tæplega tveggja ára millibili. Lárus var konu sinni stoð og stytta yfir meðgöngutímabilið og bætti á sig nokkrum kílóum í leiðinni.

Meðgangan hefur mikil áhrif á konur, líkamlega og andlega, en fannst þú einhverjar breytingar á þér á meðgöngunni?

„Sko, ég bætti á mig alveg þó nokkrum kílóum og fékk það sem ég kalla „samúðarbumbu“. Ég fann þó aðallega fyrir því hvað ég elskaði hana Heiðrúnu mikið.“

Hvernig gengu fæðingarnar?

„Fyrri fæðingin gekk í stuttu máli mjög illa. Hún tók langan tíma og það var svo ekki fyrr en í lokin að það kom í ljós að hann Óliver okkar sneri öðruvísi en þau héldu. Það þurfti því að nota sogklukku til að koma okkar manni almennilega í heiminn. Þetta tók að sjálfsögðu mjög mikið á hana Heiðrúnu líkamlega en þó aðallega andlega.

Svo þegar það styttist í að hann Kári, yngsti strákurinn okkar, kæmi í heiminn þá sat þetta eðlilega ennþá í henni, það er hvernig seinasta fæðing hafði farið, en hún fékk mikla hjálp við að vinna úr þessu með því tala við gott fólk innan spítalans. Fæðingin hans Kára gekk vel.“

Hvernig var að vera á hliðarlínunni í fæðingunum?

„Það var alveg ótrúlega erfitt en ég reyndi eins og ég gat að hjálpa og þá aðallega með því að halda ró og styðja við Heiðrúnu.“

Hvernig leið þér þegar þú fékkst börnin í fangið í fyrsta sinn?

„Það var alveg hreint ótrúlegt og þessi tilfinning var eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður og í raun vissi ég ekki að þessi tilfinning væri til. Það að svona lítið kríli geri það að verkum að maður fái einfaldlega illt í hjartað af ást er alveg ótrúlegt.“

Lárus veit fátt betra en að vera heima í faðmi …
Lárus veit fátt betra en að vera heima í faðmi fjölskyldunnar. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er besta hlutverk sem ég hef fengið í lífinu“

Lárus hefur leikið þó nokkur hlutverk á síðustu árum en segir ekkert hlutverk toppa föðurhlutverkið. 

Hvað hefur komið þér mest á óvart við föðurhlutverkið?

„Ég komst að því að það er ómögulegt að undirbúa sig fram í tímann. Í raun vissi ég ekki neitt og eins og fleiri þá gerði ég mér enga grein fyrir hvað felst í að eiga barn. Vissulega var ég alveg undirbúinn og allt það, en svo tekur náttúran í rauninni bara við. Ég elska börnin mín af öllu hjarta og með því að elska svona mikið þá koma lausnirnar bara að sjálfu sér.“

Langaði þig alltaf til að verða pabbi?

„Alveg 100%

Þetta er það besta sem ég veit. Það er kannski skrýtið að segja það en bara það að geta aldrei sofið út á morgnana af því að börnin manns vilja að þú rífir þig á lappir eldsnemma alla morgna til að byrja daginn með þeim er alveg hreint dásamlegt.“

Hvað er það erfiðasta við föðurhlutverkið?

„Ekkert, ekki neitt. Þetta er besta hlutverk sem ég hef fengið í lífinu. Þó svo það sé krefjandi að halda dampi í vinnunni og ná að gera allt sem gera þarf þá skiptir það engu máli því það að geta verið með börnunum er einfaldlega það besta sem ég get hugsað mér.“

Hvað er það besta við að vera pabbi?

„Öll ástin! Hjartað í mér stækkaði um mörg númer þegar ég varð faðir, það breyttist allt. Fókusinn færðist af mér og yfir á þau. Börnin mín skipta mig mestu máli í lífinu.“

Hvernig pabbi ertu?

„Ég tel mig vera mjög skemmtilegan pabba, þegar á heildina er litið. Þó svo að 17 ára unglingsdóttirin hlæi kannski ekki að öllum pabbabröndurunum mínum þá skynja ég nú samt að hún sé þakklát fyrir að sé ég allavega að reyna að vera fyndinn.“

Það er alltaf gleði og gaman.
Það er alltaf gleði og gaman. Ljósmynd/Aðsend

Það er alltaf gaman

Gleðin er alltaf allsríkjandi á heimili Lárusar og Heiðrúnar. Hjónin nýta hvert tækifæri til þess að bregða á glens og leggja áherslu á afslappað og ástríkt andrúmsloft.

Notar þú húmor mikið í uppeldinu?

„Já, það er mikið um grín og gleði í uppeldinu hjá okkur. Börnum langar helst alltaf að hafa gaman og þar er ég þeim hjartanlega sammála. Lífið á að vera skemmtilegt og ég reyni eins og ég get að hafa það þannig.“

Hvað leggur þú helst áherslu á í uppeldinu?

„Aðalatriðið er að vera góð hvort við annað, það skiptir mig miklu máli. Ef við lærum að vera góð við aðra þá fyrst getum við lært að vera góð við okkur sjálf og byrjað að líða vel.“

Hvað finnst ykkur skemmtilegast að gera saman?

„Fyrir utan það að fara í sund, út að leika og spila fótbolta þá finnst okkur fjölskyldunni mjög gaman að ferðast. Heiðrún er alveg ferðaóð og þegar hún t.d. spyr hvort hún eigi að panta flugmiða svo við getum farið með börnin í mánaðarlangt flakk um Bandaríkin, þá segi ég bara það sem ég lærði í meðgöngujóga: „Já, ástin mín.“

Þetta er mjög skemmtileg og fræðandi sýning

Hvað ertu að bauka þessa dagana?

„Vinnulega séð er mikið í gangi. Ég er með mörg járn í eldinum og ber þar helst að nefna nýja leiksýningu sem ég frumsýni í Tjarnarbíói þann 15. september. Sýningin ber heitið Nýjustu töfrar og vísindi og er barnasýning þar sem ég, eða Lalli töframaður, velti fyrir mér hvort það sé einhver raunverulegur munur á töfrum og vísindum.

Þetta er mjög skemmtileg og fræðandi leiksýning sem ég mæli hiklaust með að fólk komi og sjái því hún er ekki bara skemmtileg fyrir börnin heldur er hún líka frábær skemmtun fyrir okkur fullorðna fólkið.“

Lalli töframaður hlakkar til að taka á móti á sýninguna …
Lalli töframaður hlakkar til að taka á móti á sýninguna Nýjustu töfrar & vísindi í Tjarnarbíói. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Ég hef á tilfinningunni að þetta eigi eftir að vera mjög góður vetur. Börnin eru byrjuð í skólarútínum sínum og það er byrjað að færast smá ró á heimilið eftir mikið og skemmtilegt sumarfrí.

Með vetrinum koma allar árshátíðarnar og jólahlaðborðin þar sem ég er mikið að veislustýra og gleðja, svo er enski fótboltinn líka byrjaður sem gleður okkur feðga mjög mikið, þannig að þessi vetur lítur bara mjög vel út.“

Hvað ætlar þú að gera til þess að hann verði sem bestur?

  1. Vera tímanlega með jólagjafirnar.
  2. Kaupa nýtt teppi svo það verði kósí að koma heim eftir kalda útiveru í snjónum og hlýja sér undir teppinu og horfa á teiknimyndir
  3. Halda áfram að gleðja fólk með töfrasýningum, gríni og hamingju.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda