Bjarni Benediktsson forsætisráðherra deildi gleðifréttum í færslu á Facebook-reikningi sínum en hann varð afi í annað sinn í vikunni.
Er það elsta dóttir Bjarna, Margrét Bjarnadóttir, og unnusti hennar Ísak Ernir Kristinsson, sem eignuðust sitt annað barn og fyrstu dóttur á þriðjudaginn.
Sagði forsætisráðherrann stóra viku að baki og nefndi þar heimsókn Úkraínuforseta og norrænna forsætisráðherra, vel heppnað Norðurlandaráðsþing, ríkisstjórnarfundi, fjölmiðlaviðtöl, kappræður, foreldraviðtal og umræður um afurðasjóð Grindvíkinga á Alþingi.
„Ekkert af þessu skiptir þó miklu máli í samanburði við þær dásamlegu fréttir sem við fengum síðdegis á þriðjudag,“ skrifar Bjarni.
„Þá eignaðist Margrét dóttir okkar heilbrigða og fallega litla stúlku. Þar með er ég orðinn tvöfaldur afi, hvorki meira né minna! Ég hlakka til að taka þátt í uppeldinu og fylgjast með henni vaxa og dafna.“
Fjölskylduvefur mbl.is óskar fjölskyldunni innilega til hamingju!