Hjónin og fótboltadrottningarnar, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Erin Katrina Mcleod, eignuðust son 19. október síðastliðinn. Ekki er búið að skíra þann stutta sem er nefndur Gunnhildarson í þjóðskrá.
Gunnhildur fann ástina 2019 og sagði frá því í einlægu viðtali við Sunnudagsmoggann hvernig lífið hafi stækkað.
„Ég kynntist henni árið 2019 þegar besta vinkona mín, sem spilar með kanadíska landsliðinu, kom okkur saman. Erin var þá í Svíþjóð og ég í Utah þannig að það var ótrúlega langt á milli okkar, en allt í einu fékk ég skilaboð frá Erin. Alveg frá fyrstu kynnum náðum við svo vel saman og hún skellti sér í heimsókn til mín. Eftir það varð ekki aftur snúið,“ sagði Gunnhildur í viðtalinu.
„Við gátum talað endalaust saman, erum með sömu áhugamál og sömu gildin í lífinu,“ segir Gunnhildur en þess má geta að með kanadíska landsliðinu hefur Erin unnið ólympíugull og -brons og farið á fjögur heimsmeistaramót.
Hjónin giftu sig á Flórída í byrjun árs 2023.
„Það var litla systir mín, Ilmur, sem gifti okkur. Hún stal algjörlega senunni, hún er fædd í þetta hlutverk,“ sagði Gunnhildur í Sunnudagsmogganum.
Smartland óskar hjónunum til hamingju með litla Gunnhildarson!