„Við þessi gömlu bjóðum kannski í matarboð með tjáknum af einhverju sem merkir kynsvall, án þess að hafa hugmynd um það,“ segir Anna Steinsen um misskilning sem getur orðið vegna ólíkrar merkingar tjákna milli kynslóða.
„Langvinsælasta umræðuefnið á fyrirlestrum mínum um samskipti milli ólíkra kynslóða er tjáknin, eða það sem á ensku heitir emoji. Þessar litlu myndir sem fólk sendir sín á milli með textaskilaboðum og merkja ekki það sama í huga fólks, eftir aldri,“ segir Anna Steinsen hjá mennta- og þjálfunarfyrirtækinu Kvan, sem býður fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum m.a. upp á skemmtilega og upplýsandi fyrirlestra.
„Fólk sem tilheyrir miðaldrakynslóðinni missir hökuna niður í gólf þegar það áttar sig á hvað tjáknin standa fyrir hjá yngri kynslóðinni, en þau sem tilheyra yngri kynslóðinni eru aftur á móti mjög fegin að ég tali um þetta á vinnustöðum, af því að þau eru ekkert endilega að nefna þetta sjálf. Þau gefa reyndar miðaldra afslátt, þeim gömlu sem ekki vita hvað þau gjöra,“ segir Anna og bætir við að þeim sem eru tvítug finnist fimmtugt fólk frekar gamalt.
„Einna mestum usla í samskiptum veldur tjáknið þumall upp, því hjá ungu fólki stendur slíkur fingur fyrir nánast „farðu til fjandans“. Það er alveg glatað að senda slíkan fingur á yngra fólk, en þegar ég tala um ungt fólk þá á ég við fólk á aldrinum frá um það bil fimmtán ára til þrjátíu og fimm ára, þau sem kennd eru við Z-kynslóð og aldamótakynslóð. Ef ég tilheyrði þessari yngri kynslóð og myndi senda kærasta mínum á sama reki svona þumal í skilaboðasamskiptum og líka skammstöfunina ok, þá myndi sá kærasti vita upp á hár að hann væri ekki í góðum málum. Slík skilaboð eru nánast á við löðrung. Yfirleitt nota miðaldra karlmenn og eldri karlmenn mest þumalinn, en við miðaldra konur erum farnar að nota hjarta-tjákn og annað slíkt meira en þumal. Afkvæmi af yngri kynslóð taka nánast út fyrir að fá þumal frá pöbbum sínum, en samt vita þau að þeir meina vel, og gefa því miðaldraafslátt. Ég tek samt fram að miðaldraafslátturinn er ekki vinsæll, hann veldur miklu óþoli.“
Tjáknið venjulegan broskarl segir Anna að sé algerlega búið að gjaldfella.
„Hann er eiginlega verri en enginn í huga fólks af yngri kynslóð. Hjá þeim er broskarlinn algerlega ömurlegur, hann stendur fyrir „passive-aggressive“, eins og þegar einhver brosir en þú sérð samt að viðkomandi er alls ekki ánægður. Broskarlinn stendur því fyrir gervibros einhvers sem er draugfúll, einhvers konar „takk fyrir ekkert“, segir Anna og tekur fram að það sem geri þetta allt enn flóknara sé að yngri kynslóðin noti tjákn líka í kaldhæðni, sem þau eldri viti ekki af.
„Blikk-karlinn er til dæmis stundum notaður í kaldhæðni og þykir auk þess perralegur, alveg glataður. Ef ég fimmtug manneskjan sendi 25 ára manni blikk-karl þá getur sá blikk-karl verið túlkaður sem kaldhæðinn perri, móttakandi fær hroll og segir oj, honum líður jafnvel eins og ég hafi talað niður til hans, sé að segja: „takk elsku litli karlinn minn“. Þegar við sem erum miðaldra sendum öðrum miðaldra tjákn eins og broskarla, ok, eða blikk-karla, þá er það ekkert vandamál, en hjá yngra fólki hafa leikreglurnar heldur betur breyst og það gleymdist að láta okkur sem erum eldri vita,“ segir Anna og hlær.
„Til dæmis er stranglega bannað að skammstafa ókei og skrifa ok, en það er í lagi að skrifa ókei eða ókey, og þá jafnvel með broskarli. Verst af öllu finnst þeim sem eru af þúsaldarkynslóðinni ef einhver sendir einungis K, sleppir O, í merkingunni ókei, í því felst mikil höfnun og áhugaleysi. Viðkomandi er að segja að hann eða hún nenni ekki að tala við þann sem fékk skilaboðin. Við sem erum eldri kunnum þetta ekkert, við skrifum aldrei K í merkingunni ókei.“
Punktar segir Anna að séu líka orðnir mjög merkingarþrungnir í skilaboðaheiminum.
„Ef þú skrifar takk og punkt á eftir, þá upplifir fólk eins og þú sért nánast að öskra á það. Ef fólk skrifar skilaboð sem innihalda nokkrar setningar og hafa punkt á eftir hverri setningu, þá upplifa þau yngri að sá sem skrifar sé brjálaður, virkilega reiður og sé að lesa yfir hausamótunum á þeim. Ungt fólk notar ekki punkta þegar það skrifar á samfélagsmiðlum, það notar frekar greinaskil, skrifar eina setningu og engan punkt á eftir henni, svo næstu setningu fyrir neðan í næstu línu. Þeim finnst punktar standa fyrir einhverja hörku og nota þá þess vegna ekki,“ segir Anna og bætir við að þrír punktar á eftir setningu, til merkis um að hún sé opin, sé arfleifð frá því við lærðum á ritvél í gamla daga.
„Z-kynslóðin lærði þetta ekki og þau vita ekki hvað þetta þýðir, þau verða bara óörugg ef þau fá setningar í skilaboðum með þremur eða fleiri punktum fyrir aftan, túlka það gjarnan sem kaldhæðni. Að mati okkar eldri er einhver viðkvæmni í túlkun allra þessara tjákna hjá þeim yngri, en þetta er raunveruleikinn fyrir þeim.“
Anna segir skondið að tjákn sem eru myndir af grænmeti og eða ávöxtum standi fyrir ýmislegt kynferðislegt hjá yngri kynslóðinni.
„Eggaldin er typpi, ferskja er rass, kirsuber eru brjóst, ananas er sving, takkó er píka, líka kisa, og hugsanlega líka kökusneið. Við þessi gömlu erum kannski nýbúin að bjóða í matarboð með tjáknum af einhverju sem merkir kynsvall án þess að hafa hugmynd um það. Þegar kynslóðir mætast á spjallrásum þá getur yngri móttakandi túlkað það með allt öðrum hætti en við vildum eða höfum hugmynd um. Tjákn er í raun tungumál sem hefur breyst mjög mikið frá því við byrjuðum að nota það. Auðvitað er þetta mjög kómískt og fyrirlestrar mínir ganga út á að gera grín að þessu, því misskilningurinn í kringum þetta getur verið skondinn. Sextugur karl er kannski að gera sitt allra besta og heldur að hann sé að senda frábæran póst eða skilaboð með þumalputtatjáknum á sér yngri menn í vinnunni, en þeim finnst það kannski mjög óþægilegt. Sextugir karlar eru ekki til í að tileinka sér að senda þrítugum karlmönnum hjarta á vinnustöðum í stað þumals, þeir deyja innra með sér. Stundum segja eldri karlmenn sem sækja mína fyrirlestra: hvaða djöfuls vitleysa er þetta, af hverju þurfum við alltaf að koma til móts við þá sem eru yngri? Og þá svara ég að við þurfum ekkert að breytast, heldur taka umræðuna. Segja til dæmis: ég er sextugur maður, ég mun senda ykkur þumla, en það merkir að ég er ánægður með ykkur, það er mín miðaldra leið til að segja að ég sé sáttur. Um leið og við útskýrum þá vita allir betur hvað merkir hvað fyrir hverjum. Við verðum líka að taka tillit til þess að yngri kynslóðin ofhugsar margt og ofgreinir, og það er ekkert rangt við það, þannig eru þau bara. Við þurfum að segja upphátt milli kynslóða ef okkar skilaboð með tjáknum merkja annað í okkar huga en þeirra, því ekki viljum við óvart vera meiðandi. Best er að allir viti hvað er í gangi í stað þess að vera að senda óvart óviðeigandi skilaboð með eggaldini og blikk-karli,“ segir Anna og hlær.