Gunnar Smári lifir dauðann af

Gunnar Smári Jónbjörnsson er hér ásamt Lilju Kjartansdóttur og dóttur …
Gunnar Smári Jónbjörnsson er hér ásamt Lilju Kjartansdóttur og dóttur þeirra. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar Smári Jónbjörnsson er gestur Lydíu Óskar Ómarsdóttur og Gullu Bjarnadóttur í hlaðvarpinu Í alvöru talað! Hann er sjúkraþjálfari, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, málari og einkaþjálfari sem hreyfir sig mikið og hefur iðulega mikið að gera. Þrátt fyrir þetta veiktist hann alvarlega og mjög óvænt fyrir um ári síðan. Það tók hann langan tíma að vinna úr veikindunum en í dag er brjóst hans fullt af þakklæti til þeirra sem hjálpuðu honum. 

„Ég var þreyttur en það hefur aldrei verið neitt að mér. Ég er mjög lánsamur með það. Alltaf verið íþróttamaður og notað hreyfingu til þess að jafna mig á hlutum. Þegar ég varð sjúkraþjálfari fékk ég meiri þekkingu á líkamanum og gat alltaf fundið á líkamanum þegar ég hafði farið út fyrir mörkin mín og var of þreyttur. Ég gat alltaf brugðist við og gert við mig, hef alltaf hlustað á líkamann minn. Ég get verið mjög drífandi og duglegur, en ég kann líka að stoppa,“ segir hann. 

Gunnar Smári hneig niður á heimili sínu, var fluttur á spítala þar sem hann þurfti að fara í opna hjartaaðgerð í nóvember 2023.

„Á morgunæfingu hafði ég fundið að ég var andstuttur og öðruvísi en ég var vanur. Vinnudagurinn var langur og þá fann ég ekkert. Þegar við Lilja vorum nýlögst upp í rúm um kvöldið fann ég eitthvað skrítið í brjóstinu, rauk upp og sagði: „Hvað var þetta?“ og bað Lilju um að hringja á sjúkrabíl. Ég ætlaði fram á bað að fá mér að drekka en datt þá út,“ segir Gunnar Smári. 

Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna halda úti hlaðvarpinu Í …
Lydía Ósk Ómarsdóttir og Gulla Bjarna halda úti hlaðvarpinu Í alvöru talað.

Man ekki neitt

Hann man ekkert meira frá þessu kvöldi. Stuttu síðar komu þrír sjúkrabílar og einn lögreglubíll á heimili Gunnar Smára. Ástandið var metið alvarlegt og var talið að hann hefði fengið hjartaáfall. Hann var sendur í hjartaþræðingu en þar kom í ljós að það var eitthvað óeðlilegt við ósæðina hjá hjartanu. 

„Þegar Lilja og foreldrar mínir koma inn á Hringbraut hitta þau hjartaskurðlækninn í anddyrinu sem segir að Gunnar þyrfti í aðgerð á hjarta og að hann ætli að gera sitt besta og biður þau um að óska sér góðs gengis,“ segir Gunnar Smári.

Í aðgerðinni kom í ljós að það sem var að hrjá Gunnar Smára var ósæðaflysjun þar sem ósæðin við hjartað hafði stækkað og var orðin jafnstór og handbolti. Í aðgerðinni fór Gunnar Smári í hjartastopp og þurfti endurlífgun.

„Aðgerðin tók átta klukkutíma og gekk vel. Lilja fékk að koma til mín þegar ég var kominn á gjörgæsludeild. Úr því þetta gerðist svona hratt var ákveðið að loka ekki skurðinum á bringunni svo ég lá með gapandi bringu í nokkra daga. Mér er svo haldið sofandi í viku,“ segir hann. 

Áfall að veikjast alvarlega

Gunnar Smári segir að það hafi verið áfall fyrir hann og fjölskylduna að hann skyldi veikjast. Hann lá í mánuð inni á spítala og fór svo í endurhæfingu á Grensás. 

„Ég man eftir mér fyrst þegar var verið að undirbúa mig fyrir flutning á Grensás. Ég vakna eins og maður vaknar á morgnana og er þá í bláleitu herbergi og skil ekkert hvað er í gangi. Ég sé skurðinn á bringunni og spyr pabba, sem var hjá mér, hvað sé í gangi. Hann svarar því að það sé verið að flytja hann. En ég þurfti miklu meiri upplýsingar því ég vissi ekki neitt hvað hefði gerst,“ segir Gunnar Smári og segir að fólkinu hans hafi fundist hann líkur sjálfum sér. 

„Bróðir minn hafði svo gaman af hömlulausa Gunnari Smára. Ég var á mörkunum að vera dónalegur við fólk og ég lét alls konar óviðeigandi hluti flakka,“ segir hann og játar að hann viti ekki hvers vegna hann muni ekki neitt frá þessum tíma. Hann veltir því fyrir sér hvort það sé vegna sterkra verkjalyfja eða skemmda á heilanum sem hann fékk eftir veikindin.

Við tók löng endurhæfing á Grensás og Reykjalundi þar sem hann lærði að ganga aftur, að þjálfa fínhreyfingar og að elda mat. Hann segist vera mjög þakklátur fyrir fólkið sitt, læknana, hjúkrunarfræðingana, sjúkraþjálfarana, sálfræðingana og alla þá sem komu að endurhæfingu hans.

Gunnari Smára finnst mikilvægt að tala um hversu flókin endurhæfing er eftir svona veikindi og hvað batinn snýst um mikið meira en bara líkamlega heilsu. Hann upplifði skemmdir og breytingar á heilanum eftir veikindin sem komu meðal annars fram í ákveðnu hömluleysi bæði í tali, en einnig í kauphegðun hans.

„Ég keypti alls konar drasl á internetinu. Verstu kaupin voru risastór kassi sem kom frá Bretlandi og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég hefði keypt. Þá hafði ég keypt gamlan lager af vintage skyrtum sem allar voru illa lyktandi og í mismunandi stærðum. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera við allar þessar skyrtur,“ segir hann og hlær.

Hér er Gunnar Smári í baðkarinu sem hann gróf í …
Hér er Gunnar Smári í baðkarinu sem hann gróf í garðinum hjá sér á Akranesi í kórónuveirufaraldrinum. Ljósmynd/Aðsend

Gróf baðkar í garðinum

Í miðjum kórónuveirufaraldri kom Gunnar Smári í viðtal á mbl.is og sagði frá baðkarinu sem hann gróf í garðinum. 

„Ég er að opna sjúkraþjálf­un á Akra­nesi og fékk þetta baðkar gef­ins úr því húsi sem ég er að stand­setja. Mig langaði svo í kalt kar í garðinn minn til að fara í eft­ir æf­ing­ar og þarna náði ég að selja kær­ust­unni hug­mynd­ina, en hún var mikið á móti því. Ég náði að selja henni hug­mynd­ina með því að segja henni að þetta væri ekki bara kalt kar held­ur væri hægt að setja heitt vatn í karið líka,“ sagði Gunnar Smári í viðtalinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda