Á öskudaginn stóð ég með syni mínum í ónefndri verslun í Smáralind. Dóttir mín hafði neitað að syngja fyrir sælgæti og móðirin – ég – var send í staðinn. Niðurlægingin náði hámarki þegar afgreiðslukonan spurði son minn hvaða lag hann vildi syngja og Bíttu í það súra með Bogomil Font varð fyrir valinu. Sonur minn horfði stíft á mig með fallegu bláu augunum sínum og sagði svo: „Mamma, byrjaðu!“
Og ég fór að söngla eða öllu heldur raula einu línuna sem ég mundi í laginu: „Bíttu í það súra.“ Sonur minn tók aðeins undir, mjög lágt að vísu, og einhvern veginn tónuðum við lagið ekki mjög vel.
En sælgætið fengum við og dóttir mín líka þrátt fyrir að hún hafi staðið í hæfilegri fjarlægð.
Og hvar hófst þetta fjöruga ævintýri barnauppeldisins? Jú, þegar ég hitti æskuástina á Tinder, 2016.
Ég hef oft velt fyrir mér aðdraganda þess að við eignuðumst tvö börn saman því sambandið var frekar óhefðbundið og einkenndist af ringulreið. Hvorugt okkar virtist geta stillt sig af til að auðvelda líf hvort annars en þrátt fyrir það löðuðumst við svo svakalega hvort að öðru að það gat ekki verið annað en skrifað í skýin að við myndum skapa tvö fullkomin eintök saman.
Ég tók ansi áhugavert viðtal við Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, dósent í efnafræði við Háskóla Íslands, og hann sagði að ef hugsað væri um „chemistry“ milli tveggja einstaklinga út frá líffræðilegri þróun þá væri markmiðið að viðhalda genamenginu. Þess vegna leitaði fólk að einhverjum sem gæti hjálpað sem best við það. Tók hann sérstaklega dæmi um líkamsbyggingu og andlitsfall sem vísbendingu um getu til að eignast heilbrigð börn. Fólkið með réttu hlutföllin yrði því oft ómeðvitað meira aðlaðandi.
Og það var það sem mér fannst um barnsföður minn, fyrir utan gáfurnar og húmorinn og allt það.
Ég gleymi því ekki þegar ég var í meðgöngujóga á fyrstu meðgöngunni og þar var haldið paranámskeið sem átti að vera undirbúningur fyrir fæðinguna. Ég var svo heppin að fá góða vinkonu mína með mér. Á námskeiðinu var talað um að konan ætti að fara í sleik við makann í aðdraganda fæðingarinnar, því það gerði að verkum að líkaminn slakaði betur á og sú ró næði alla leið niður í móðurlífið. Þannig yrði fæðingin auðveldari.
Ég hugsaði með mér að ekki myndi ég fara í sleik við móður mína sem yrði viðstödd fæðinguna sökum veikinda barnsföður míns. Og hver yrði örvunin þá?
Jú, mamma strauk á mér bakið í þær 36 klukkustundir sem ég var í fæðingunni. Ég efast um að ég hefði nennt að vera – eða getað verið – í sleik allan þennan tíma, ætli ég hefði ekki endað á að bíta tunguna úr barnsföður mínum.
Ekkert er fullkomið, svo mikið er víst, en allt er gott.
Þegar ég var með hvítvoðunginn heima, ein, því eins og ég sagði var samband okkar barnsföður míns aldrei hefðbundið, þá átti ég til að fylgjast með á samfélagsmiðlum hvernig allir þessir „fullkomnu“ áhrifavaldar dedúuðu við heimilisverkin, skáru niður grænmeti og ávexti í stílhreinu eldhúsi og fóru í fjölskyldufrí. Ég blindaðist næstum af öllum pastellitunum í myndskeiðunum og fór svo að mauka fyrir dóttur mína í hálfónýtri matvinnsluvél – ekki með pastelliti í bakgrunni.
Ég beit á jaxlinn, stundum svo fast að mig verkjaði í tennurnar. Aðstæður mínar voru aðrar en þeirra.
En það er eitt sem ég og allir aðrir hafa óháð aðstæðum, fjárráðum og fjölskylduhögum: Það er tíminn. Öll getum við gefið börnunum okkar tíma, sama í hvaða mynd hann er. Og vitið þið, það þarf enga flugeldasýningu.
Ég hef ruslað börnunum með mér út um allt og ef ég er með athyglina í lagi og í góðu jafnvægi, geri hlutina skemmtilega, þá skiptir engu máli hvort við erum á leið með drasl í sorpu, rennum á bílnum í gegnum bílaþvottastöð þar sem „kolkrabbarnir“ slengjast utan í bílinn eða erum á sólarströnd á Spáni. Þau þurfa bara að finna að foreldrið – ég – sé á staðnum og sé með þeim í þeirra magnþrungnu og spennandi veröld.
Og þarna í Smáralind varð sonur minn svo glaður því ég var þátttakandi í spennunni sem fylgdi því að syngja á öskudaginn.
Ég hætti því að „bíta í það súra“ og fór að einblína á að ég hefði gefið börnunum mikilvægan tíma og athygli, þarna, sem og í öllu því fjöri sem við höfum brallað síðustu ár.