Þeir sem eiga vini í vinnunni glaðari

Brynja Bragadóttir.
Brynja Bragadóttir.

„Skiptir máli að eiga góðan vin í vinnunni? Samkvæmt rannsóknum frá Gallup í Bandaríkjunum þá er svarið við þessari spurningu já. Rannsóknir þessar sýna að fólk sem á góðan vin í vinnunni er sjö sinnum líklegra til að vera ánægt í starfi en fólk sem ekki á slíkan vin,“ segir Brynja Bragadóttir, vinnu- og heilsusálfræðingur hjá Greiningu og lausnum. Hún segir að fólk sé í eðli sínu félagsverur.

„Við höfum öll þörf fyrir að vera í tengslum við annað fólk, líkt og við höfum þörf fyrir að nærast og hvílast. Það er því rökrétt að ætla að því betur sem við tengjumst vinnufélögunum, því ánægðari og afkastameiri verðum við. En það er fleira sem góð tengsl á vinnustað gefa okkur. Til dæmis verður öll hópavinna skemmtilegri og fleiri hugmyndir verða til. Þá gefa góð tengsl okkur mikilvægt frelsi. Í stað þess að eyða tíma og orku í að takast á við samskiptavandamál, þá getum við eytt tímanum og orkunni í uppbyggilega hluti,“ segir hún.   

En hvað einkennir góð tengsl?

„Fyrsta atriðið er traust.  Óhætt er að segja að þessi þáttur sé grunnurinn að góðum tengslum. Þegar þú  treystir vinnufélögum þínum, þá myndar þú sterkari tengsl við þá, átt auðveldara með að tala við þá, vinna með þeim o.s.frv. Annað atriðið er gagnkvæm virðing. Þegar þú berð virðingu fyrir vinnufélögunum, þá ertu líklegri til að hlusta á þá og taka mið af því sem þeir segja. Hið sama gildir um vinnufélagana. Ef þeir bera virðingu fyrir þér, þá eru þeir líklegri til að hlusta á þig. Þriðja atriðið er ábyrgð. Hér er átt við það að einstaklingur taki ábyrgð á því sem hann segir og gerir.  Fjórða atriðið er víðsýni. Með víðsýni er átt við þann eiginleika að vera opinn gagnvart hugmyndum og skoðunum annarra. Víðsýni felur einnig í sér vilja taka til greina hugmyndir annarra, t.d. í ákvarðanatöku. Fimmta atriðið er góð samskiptafærni. Við eyðum miklum tíma á hverjum degi í samskipti. Því færari sem við erum í samskiptum, því betri tengsl myndum við við aðra. Tvenns konar færni skiptir sérstaklega miklu máli hér, þ.e. að geta verið opin og heiðarleg í samskiptum við aðra.“

Hér er listi frá Brynju um hvernig við getum styrkt tengsl okkar við aðra:

Þróaðu samskiptafærni þína. Spurðu sjálfan þig spurninga og finndu þannig út hversu góður þú ert í samskiptum. Dæmi um spurningar: „Hvernig gengur mér að vinna með öðrum?“, „Hvernig gengur mér að tala við aðra?“ og „Hvernig gengur mér að taka á ágreiningi?“.

Gefðu þér tíma til að tengjast öðrum. Taktu ákveðinn tíma frá á hverjum degi fyrir samskipti. Þetta þarf ekki að vera langur tími, kannski 20 mínútur sem þú getur jafnvel dreift yfir daginn. Kíktu t.d. í stuttar heimsóknir til vina/vinnufélaga eða svaraðu pósti/skilaboðum frá þeim. 

Þróaðu eigin tilfinningagreind. Tilfinningagreind snýst m.a. um það að þekkja eigin tilfinningar og skilja hvað þær eru að segja þér. Tilfinningagreind hjálpar þér líka til að skilja tilfinningar og þarfir annarra.

Sýndu þakklæti. Sýndu þakklæti í hvert sinn sem einhver gerir eitthvað fyrir þig. Það vilja allir finna að aðstoð þeirra sé metin að verðleikum.

Hrósaðu líka vinnufélögunum þegar þeir gera eitthvað vel. Það er engin tilviljun að stundum er talað um hrós sem „H-vítamínið“. Það hafa allir þörf fyrir það!

Einbeittu þér að því að vera jákvæður. Jákvæðni smitar út frá sér, hefur góð áhrif á aðra.  

Settu öðrum mörk. Við viljum öll eiga vini en stundum gerist það að vinirnir hafa neikvæð áhrif á okkar, t.d. ef þeir vilja stjórna okkar tíma. Ef slíkt gerist, þá er mikilvægt að setja skýr mörk – það er þitt að ákveða hvernig þú ráðstafar þínum eigin tíma. 

Forðastu baktal. Það er ekkert sem hefur verri áhrif á tengsl en baktal. Ef þú lendir í ágreiningi við vinnufélaga, þá skaltu tala við hann beint, ekki á bak við hann. Baktal um vinnufélagann gerir aðstæður aðeins verri, auk þess sem vantraust getur skapast milli þín og hans. 

Æfðu þig í því að nota virka hlustun. Hlustaðu á aðra af athygli. Einbeittu þér að því að hlusta meira en að tala. Ef þú gerir þetta tvennt, þá verður þú fljótt þekktur á vinnustaðnum sem „félaginn sem gott er að tala við“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda