Vel stæðir, einhleypir karlmenn í Japan (og víðar ef vel tekst til) ættu fljótlega að geta andað léttar, gangi vísindamönnum þar í landi vel með nýtt verkefni.
Vísindamennirnir vinna þessa dagana að því að þróa pillur sem hjálpa mönnum að standast fallegar konur sem girnast veski þeirra.
Ekki fylgir sögunni hvernig mönnum fannst þessi „kvilli“ brýnastur við að eiga, af öllum þeim ólæknanlegu sjúkdómum og einkennum sem fyrirfinnast án lækninga í heiminum. Á faraldsfræðingurinn Ken Sepkowitz engin svör við þessu heldur en hann greindi frá málinu í grein á vef Daily Beast/Newsweek.
Í stuttu máli fólst rannsóknin í að þátttakendum var ýmist gefið sýklalyfið minocylcline eða lyfleysu sem leit eins út. Þátttakendurnir voru síðan látnir hafa fé, sem þeir máttu gefa eins mikið af til persónu sem þeir völdu af myndum sem þeim voru sýndar og átti að vera í næsta herbergi. Leiddi rannsóknin í ljós að þeir sem höfðu fengið lyfleysuna gáfu stóran hluta peninganna fögrum konum og það án vandkvæða. Þeir sem höfðu fengið lyfið héldu hins vegar fastar um veskið og það þótt gullfalleg kvendi reyndu að freista þeirra af ljósmyndunum einum saman.
Hvort verður af framleiðslu pillunnar einn daginn eður ei, kemur í ljós. Hver veit nema hún slái þá í gegn um allan heim!!
Er hins vegar ekki frá því að maður velti fyrir sér hvað verði reynt að tækla næst, t.d. pillur gegn fáfræði eða slæmri dómgreind. Vandi er um slíkt að spá...