Yfirmenn leggja oftar í einelti á vinnustöðum

Brynja Bragadóttir.
Brynja Bragadóttir.

Brynja Bragadóttir, doktor í vinnu- og heilsusálfræði hjá Greiningu og lausnum, segir að einelti sé alvarlegt vandamál á vinnustað og geti komið upp í öllum félagslegum aðstæðum.

„Þegar einelti á sér stað á vinnustað, þá hefur það áhrif á marga, einkum þolendur og þá sem verða vitni að því. Rannsóknir sýna að 4-6% fólks á íslenskum vinnumarkaði verði fyrir einelti á vinnustað. Þetta hlýtur að teljast heldur hátt hlutfall, t.d. miðað við að um 1-2% vinnandi fólks verða fyrir kynferðislegri áreitni. En hvað er einelti? Hvað er átt við þegar talað er um einelti á vinnustað?

Í reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað er að finna eftirfarandi skilgreiningu: „Síendurtekin hegðun sem er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.“ Þessi skilgreining er mest notuð á Íslandi í dag, en ýmsar aðrar skilgreiningar eru til. Það sem allar skilgreiningar eiga sameiginlegt er að fjallað er um endurtekna hegðun sem hefur neikvæð áhrif á þann sem fyrir henni verður,“ segir Brynja. 

Andlegt einelti algengast

„Þó svo að einelti geti verið líkamlegt, þá er það langoftast andlegt (síendurtekin gagnrýni, niðrandi athugasemdir, félagsleg útilokun o.fl.). Þá er oftast um að ræða hegðun sem veldur þolanda andlegum skaða (kvíða, skertu sjálfstrausti o.s.frv.). Þar sem einelti er oftast andlegt getur verið erfitt að greina það. Stundum geta liðið margir mánuðir og jafnvel ár þar til einhver (annar en þolandi) verður þess var.“

Brynja segir að þeir sem stundi einelti geti verið í hvaða stöðu sem er á vinnustaðnum. Yfirmenn leggi jafnmikið í einelti og samstarfsfélagar og undirmenn þolenda.

„Rannsóknir sýna þó að gerendur séu oftast yfirmenn. Þá sýna rannsóknir að konur stundi frekar í einelti en karlar. Annað sem rannsóknir hafa sýnt er að þeir sem lenda í einelti eru oft hæfir og duglegir starfsmenn. Líkt og með gerendur, þá eru þolendur eineltis oftar konur en karlar.“

Hver eru áhrif eineltis? „Áhrif eineltis á heilsu og líðan þolenda eru vel þekkt. Dæmi um líkamleg áhrif eru lystarleysi eða ofát, erfiðleikar með svefn eða of mikil svefnþörf, höfuðverkir, magaverkir og önnur líkamleg streitueinkenni. Einnig getur einelti haft áhrif á fíknir, svo sem áfengis- og lyfjafíkn. Dæmi um andleg áhrif eru reiði, gremja og  hjálparleysi. Þessi áhrif sem gera oft fljótt vart við sig (skömmu eftir að eineltið fer af stað). Áhrif sem komið geta seinna (þegar eineltið hefur varað í einhvern tíma) eru t.d. kvíði, skert sjálfstraust og þunglyndi. Þá má ekki gleyma neikvæðum áhrifum eineltis á vinnustaðinn. Dæmi um slík áhrif eru versnandi starfsandi og dvínandi framleiðni eða afköst.“

Hvernig veistu hvort þú ert lagður/lögð í einelti? „Vert er að taka fram að einelti er ekki alltaf meðvitað. Engu að síður eru áhrifin oft alvarleg og því mikilvægt að taka á því komi það upp á vinnustaðnum. Ef þú getur svarað annarri af eftirfarandi spurningum játandi, þá er mögulegt að þú sért þolandi eineltis:  

  • Myndi flest skynsamt fólk skilgreina hegðunina sem óásættanlega?
  • Eyðir þú miklum tíma í að verja hegðun þína og/eða leita eftir stuðningi frá samstarfsfélögum?

Hafir þú svarað ofangreindum spurningum játandi, hvað getur þú gert?“

Hvernig áttu að bregðast við og hvað getur þú gert? Ef vinnustaðurinn þinn er með stefnu gegn einelti þá skaltu fylgja henni (leiðbeiningum um það hvernig þolendur skulu bregðast við). Ef vinnustaðurinn er ekki með stefnu, þá getur þú ef til vill tekið eftirfarandi skref:

  • Látið gerandann vita af því að hegðun hans sé óásættanleg. Til þess að þetta ráð skili árangri, fylgdu þá eftirfarandi skrefum:
  • Lýstu hegðuninni fyrir gerandanum. Útskýrðu hvers vegna hún er óásættanleg og hvaða áhrif hún hefur á þig.
  • Einblíndu á hegðunina, ekki persónuna. Forðastu ásakanir eins og „þú ert alltaf að gagnrýna mig“. Haltu þig við hegðunina og þau áhrif sem hún hefur  (t.d. „þegar þú gagnrýnir mig fyrir framan viðskiptavini, þá finnst mér eins og þeir missi trúna á mér“).
  • Segðu gerandanum frá því að hegðunin verði að stöðvast. Ef þér finnst erfitt að taka þetta skref, fáðu þá vin til að vera til staðar.
  • Ef þér finnst óþægilegt að tala við gerandann, þá getur þú líka skrifað honum bréf. Mundu þá að geyma afrit af bréfinu.
  • Ef eineltið heldur áfram, segðu þá yfirmanni þínum frá því. Ef gerandinn er yfirmaður þinn, láttu þá hans yfirmann vita eða tilkynntu málið til starfsmannadeildar. Ef erindi þitt er ekki tekið alvarlega, hikaðu þá ekki við að leita út fyrir fyrirtækið (t.d. til þíns stéttarfélags).  
  • Haltu dagbók yfir atburði. Skrifaðu niður hvenær atburður átti sér stað, klukkan hvað, hver var viðstaddur, hvað nákvæmlega gerðist og hvaða áhrif það hafði á þig. Dagbók af þessu tagi getur komið sér vel seinna (t.d. ef gera þarf formlega rannsókn á málinu).
  • Geymdu afrit af öllum bréfum, tölvupóstum og minnisblöðum sem þú færð frá gerandanum. Slík gögn gætu líka komið að góðum notum (t.d. ef málið er rannsakað).
  • Geymdu líka afrit af frammistöðumati eða umsögnum sem sýna fram á að þú sért góður starfsmaður. Haltu áfram að sinna vinnunni þinni vel. 
  • Gættu þess að vera aldrei ein(n) með gerandanum (t.d. í lokuðu herbergi).

Hvað áttu að gera ef þú verður vitni að einelti? „Einelti hefur ekki aðeins áhrif á þolandann, heldur á alla á vinnustaðnum. Ef þú verður vitni að einelti, láttu þolandann vita að þú sért til staðar fyrir hann. Gerðu honum/henni ljóst að þú viljir hjálpa honum. Hvettu hann til að grípa til aðgerða. Einnig getur hjálpað að segja honum frá greinum (eins og þessari) um einelti á vinnustað.

Mest er um vert að þolandinn finni að hann sé ekki einn!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda