Uppáhaldsflík Arnars Rósenkranz trommara í Of Monsters and Men er úlpan Arnarhóll frá 66 Norður.
„Ég er eiginlega alltaf í þessari úlpu. Enda fíla ég hvað hún er síð og voðalega kósí yfir rassinn. Hún er hlý en ekki of hlý, þannig að það er líka hægt að vera í þykkri peysu undir henni,“ segir Arnar Rósenkranz Hilmarsson, trommari í Of Monsters and Men.
„Mér finnst líka gott að vera í henni þegar ég fer út að ganga með hundana mína í Garðabæ. Það eru þrír Golden Retriever, þeir Merkúr, Dýri og Esja. Á undanförnum mánuðum höfum við í Of Monsters and Men spilað í um 50 löndum í fimm heimsálfum þannig að úlpan hefur verið víðar en bara í Garðabæ. Það er einhver góður rónafílingur í þessari úlpu sem fær mann til að slappa af, enda heitir hún Arnarhóll. Þetta er bara frábær úlpa,“ segir Arnar og brosir.