Svona eykur þú sjálfstraustið

Brynja Bragadóttir.
Brynja Bragadóttir.

„Sjálfsálit (e. self-esteem) snýst um það hvernig við sjáum/upplifum okkur sjálf, það hvort við sjáum okkur í jákvæðu eða neikvæðu ljósi,“ segir Brynja Bragadóttir sálfræðingur og NLP markþjálfi í sínum nýjasta pistli.

„Hver er munurinn á sjálfsáliti og sjálfstrausti? Sjálfsálit snýst um það hvernig við sjáum/upplifum okkur sjálf. Sjálfstraust tengist svo aftur hegðun. Orðið sjálfstraust (e. self-confidence) fjallar um það að trúa á eigin getu.

Það að hafa gott sjálfsálit er m.ö.o. nauðsynleg forsenda þess að hafa gott sjálfstraust.

Gott sjálfsálit er ekki eitthvað sem er meðfætt – við getum öll öðlast gott sjálfsálit.  Ein  grundvallarforsenda NLP (Neuro-Linguistic-Programming) er sú að það sem aðrir geta gert, það getur þú lært („what others can do, you can learn“ ).

Í þessari grein verður farið yfir nokkur atriði sem fólk með gott sjálfsálit gerir – atriði sem þú getur tileinkað þér.“

En fyrst eru hér nokkrar spurningar:

  1. Hversu auðvelt átt þú með að taka hrósi?
  2. Getur þú nefnt fimm atriði sem þér líkar við sjálfa(n) þig án þess að hika?
  3. Hvernig bregst þú við ef þú ert beðin(n) um að gera eitthvað sem þú hefur ekki gert áður?
  4. Hvað segir þú við sjálfa(n) þig þegar þú færð erfitt eða krefjandi verkefni?

Skrifaðu svör þín á blað. Gefa svörin til kynna að þú hugsir jákvætt eða neikvætt um sjálfa(n) þig?

Það sem þú getur gert til að bæta sjálfsálitið

Að læra að taka hrósi. Einfaldasta leiðin til að bæta sjálfsálitið er að læra að taka hrósi – að segja „takk“ þegar einhver segir jákvæða hluti við þig. Taktu vel eftir því þegar einhver hrósar þér, hlustaðu á orðin innra með þér og/eða segðu þau við sjálfa(n) þig.

Að læra að líka vel við sjálfa(n) þig. Finndu blað og penna og skrifaðu niður allt sem þér líkar við sjálfa(n) þig. Gefðu þér ca. viku til að skrifa svona lista. Gott er að tengja listann við „lógísku þrepin“ sem eru þessi: Gildi þín og sannfæringar; hæfileikar þínir; hegðun þín; umhverfi þitt.

Að prófa eitthvað nýtt. Ef þér finnst erfitt að prófa eitthvað nýtt (t.d. gera eitthvað nýtt), skrifaðu niður það versta sem gæti gerst. Þegar þú hefur skrifað atriðið, spurðu sjálfa(n) þig: „Hversu líklegt er að þetta gerist?“ Svarið mun oft vera „ekki mjög líklegt“ eða „alls ekki líklegt“. Jafnvel, ef það versta myndi gerast, þá gætir þú spurt sjálfa(n) þig: „Hvernig myndi ég takast á við það?“. Hér getur þú  spurt sjálfa(n) þig hvernig einhver þú þekkir (einhver sem þú hefur trú á) myndi takast á við það. Í framhaldi gætir þú spurt þig: „Gæti ég ekki gert hið sama?“.

Að læra að tala jákvætt við sjálfa(n) þig. Í NLP hefur verið sýnt fram á hversu áhrifamikið innra tal (e. internal dialogue) getur verið. Ef þú segir við sjálfa(n) þig að þú megir ekki gera mistök, minnir sjálfa(n) þig á síðasta skipti sem þú gerðir mistök eða segir við sjálfan þig að þú sért vonlaus, þá ertu að auka á vandamálið. Hvernig myndir þú tala við einhvern annan, t.d. góðan vin? Hvað myndir þú segja? Skrifaðu þessi orð niður (þau líklega jákvæð) og segðu þau við sjálfa(n) þig. Hvernig líður þér að hlusta á þessi orð? 

Þessi aðferð (að fylgjast með og breyta innra tali) er mjög áhrifarík leið til að bæta sjálfsálitið. Með því að nota hana reglulega ásamt hinum aðferðunum getur þú bætt sjálfsálit þitt og sjálfstraust til muna.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda