Mist Edvardsdóttir, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Vals, greindist með krabbamein í eitlum fyrr á þessu ári og er á leið í lyfjameðferð. Mist er aðeins 23 ára gömul og tekur veikindunum með miklu jafnaðargeði. Hún segist vera langt frá því að vera einhver Pollýanna í daglegu lífi en segir að hún haldi að þegar fólk lendi í miklum áföllum verði það bara að vera jákvætt, því annars verði baráttan mun þyngri.
Það var í febrúar á þessu ári sem Mist tók eftir stórum kúlum báðum megin á hálsinum.
„Það var eitt kvöldið snemma í febrúar þegar ég var að bursta tennurnar að ég tek eftir stórum kúlum báðum megin á hálsinum. Ég hafði verið með smá hálsbólgu á þessum tíma og hélt bara að eitlarnir væru bólgnir vegna þess. Þessar eitlastækkanir löguðust síðan ekkert með tímanum svo ég fór og hitti nokkra lækna, var send í blóðprufur og fleira sem ekkert kom út úr. Það var svo í lok maí að ég var orðin viss um að það væri eitthvað að mér, enda alls konar lítil einkenni komin fram. Ég var reyndar sjálf búin að greina mig með skjaldkirtilstruflun en eftir ómskoðun, tölvusneiðmynd og sýnatökur var mér tilkynnt að ég væri með Hodgkins-eitlakrabbamein,“ sagði Mist.
Þrátt fyrir þetta áfall er Mist jákvæð.
„Ég er nú langt frá því að vera einhver Pollýanna í hinu daglega lífi en ég held að þegar maður lendir í miklum áföllum verði maður einfaldlega bara að vera jákvæður. Ef maður leyfir sér sjálfsvorkunn og ætlar að vera eitthvað betri við sig en áður verður baráttan svo miklu þyngri. Þegar ég fékk fyrst fréttirnar hugsaði ég með mér að ég myndi bara klára fótboltatímabilið og seinka lyfjagjöfinni fram í byrjun október en eftir að hafa rætt við lækna og áttað mig á alvarleika málsins og að lyfjagjöfin yrði að hefjast strax varð frekar þungt yfir mér. Ég leyfði mér að pirrast og væla yfir því þann daginn en svo verður maður bara að taka sig saman í andlitinu og byrja að undirbúa verkefnið sem er fram undan. Það er hægt að lenda í mörgu verra en þessu.“
Mist byrjaði að æfa fótbolta þegar hún var fjögurra ára gömul, en þá var systir hennar að þjálfa hjá Aftureldingu og leyfði henni að koma með á æfingu. „Ætli árangur minn sé ekki helst því að þakka hvað mér finnst skemmtilegt í fótbolta og skemmtilegt að æfa. Ef maður hefur metnað og vilja til að ná langt gerir maður það. Svo er ég úr mikilli íþróttafjölskyldu og hef alist upp í íþróttaumhverfi, sem hjálpar tvímælalaust.“
Lumar þú á góðum ráðum fyrir ungar stúlkur sem vilja ná langt í fótbolta?
„Aukaæfingar eru málið, koma sér upp góðu umhverfi sem hjálpar manni að taka framförum. Bara það að vera úti að leika sér í fótbolta með vinunum mun hjálpa gríðarlega í framtíðinni. Svo gerir það gæfumuninn að horfa á fótbolta, leikmenn sem horfa mikið á fótbolta skilja og lesa leikinn betur en aðrir.“
Er eitthvað sem þér finnst að mætti betur fara í kvennaknattspyrnunni eins og hún er í dag?
„Það er þá helst bara gamla, góða jafnréttið. Hvort sem það snýr að málum innan félaganna eða utanaðkomandi þáttum eins og umfjöllun ákveðinna fjölmiðla. Það er fátt eins pirrandi og að upplifa hlut sinn skertan vegna kyns.“
Spurð hver hennar helsta fyrirmynd væri sagðist hún ekki beint eiga fyrirmyndir í lífinu, en að hún liti mikið upp til foreldra sinna og systkina, enda er hún yngst í stórum systkinahópi. „En í fótboltanum er það einna helst Laufey Ólafsdóttir, frábær leikmaður og frábær manneskja.“
Hver er draumurinn? „Ég ætla mér að fara aftur út í atvinnumennsku þegar ég er laus við krabbameinið. Mig langar að spila í sterkustu deildunum og vinna titla. Þegar ég hætti vil ég geta litið til baka á flottan feril með landsliði og félagsliði og endað sátt.“