Ömurlegasta afmælisgjöf í heimi

Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt.
Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ekki vil ég vera vanþakklát en því miður þá ræð ég bara engan veginn við mig núna. Málið er að í síðustu viku fékk ég eina þá ömurlegustu afmælisgjöf sem ég hef á ævi minni fengið. Ég er viss um að gefandinn hafði einungis gott í huga þegar hann valdi þetta handa mér en gjöfin féll síður en svo í kramið hjá afmælisbarninu – þótt hún sé kannski gagnleg. Og til að bæta gráu ofan á svart þá get ég ekki einu sinni skipt þessu,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar, Frábær eftir fertugt, í sínum nýjasta pistli.

Í byrjun janúar fagnaði Jóna Ósk fimmtugsafmæli sínu.

„Ég er sko heldur betur orðin fullorðin og ætti því að vera búin að læra að vera þakklát fyrir allar óskir og gjafir sem mér berast. Og ég held að ég sé það yfirleitt en sumt er einfaldlega of skrýtið eða of óheppilegt til að maður sé ánægður og þakklátur. Já sumt er aðeins til þess fallið að stuða mann og gera mann óánægðan. Nákvæmlega þannig var þessi gjöf.

Vinir og vandamenn hafa margir hverjir verið yndislegir og fært mér fallegar gjafir og kveðjur. Sumir lögðu sig virkilega fram um að gleðja þetta fullorðna afmælisbarn og fyrir það er ég svo sannarlega þakklát. Enda er allt það sem fær mig til að brosa vel til þess fallið að hækka hamingjustuðul minn. Ég er nefnilega nokkuð upptekin af því að halda þessum stuðli mínum háum því þannig get ég víst fagnað hverju stórafmælinu á fætur öðru. Því sannað þykir að þeir sem eru hamingjusamir lifa lengur.“

Jóna Ósk hoppaði hæð sína þegar lítill hvítur kassi merktur henni barst inn um bréfalúguna.

„Á kassanum stóð stórum bláum stöfum „Til hamingju með afmælið“. Spennandi að fá svona afmælisgjöf inn um lúguna. Brosið fraus þó hratt þegar ég sá bláu stafina neðst á kassanum. Var þessi pakki virkilega til mín? Af hverju er Blái naglinn að senda mér pakka?

Vonbrigðin þegar ég opnaði kassann voru mikil. Þar blasti hún við mér þessi ömurlega gjöf. Sú allra allra ömurlegasta – og það eru engar ýkjur! Í kassanum var nefnilega heimapróf til að prófa fyrir ósýnilegu blóði í saur. Já og risastór nagli. Ég fékk sem sagt kúkapróf í stórafmælisgjöf og lái mér hver sem vill að vera ekki í skýjunum með það. Það tekur alltaf aðeins á að eiga stórafmæli og fara yfir á næsta tug. Ég hef t.d. verið minnt á það að ég sé komin í seinni hálfleik. En þessi afmælisgjöf hreinlega drap niður alla gleði og mér leið eins og ég hefði fengið naglann í líkkistuna mína.“

Hún segir að það sé ekki góð hugmynd að fólk fái slíka sendingu á afmælinu sínu.

„Eins mikið og ég er þakklát fyrir svona fólk sem stendur á bak við Bláa naglann þá verð ég segja að tímasetningin hjá þeim er ömurleg. Ekki senda fólki svona pakka þegar það stendur á slíkum tímamótum! Ef ég hefði til dæmis fengið þennan pakka þremur mánuðum seinna hefði mér eflaust liðið allt öðruvísi. Þegar pakkinn datt inn um lúguna, nokkrum dögum eftir afmælisdaginn var ég nýbúin að fagna því að fá að eldast, gleðjast með vinum mínum og hafa gaman. En síðast en ekki síst hafði mér tekist nokkuð vel upp með að sættast við þessa nýju aldurstölu mína.

Eflaust mun ég að lokum nota þetta kúkapróf, sem á að hjálpa til við greiningu á ristilkrabbameini. En það verður sko ekki fyrr en ég verð búin að jafna mig á þessari gjöf og því að Bláa naglanum tókst algjörlega að drepa niður þá stemningu sem hafði myndast hjá mér við þessi stóru tímamót. Ég var nefnilega ansi kát og sátt með þetta allt saman áður en Naglinn datt í hús.“

Jóna Ósk Pétursdóttir.
Jóna Ósk Pétursdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda