Ekki vera svona pirraður

Elmar Hallgríms Hallgrímsson.
Elmar Hallgríms Hallgrímsson. mbl.is/Golli

„Þetta er setning sem ég fæ stundum að heyra enda kemur þessi pirringspúki stundum upp og bankar all hressilega í öxlina á mér. Þetta er ekki æskilegur gestur en þegar hann kemur þá getur verið erfitt losna við hann. En af hverju kemur pirringurinn upp? Þessi tilfinning að vera pirraður er ekki heillandi. Þá verður þráðurinn stuttur og lítið þarf að koma til svo maður hreyti einhverju illa hugsuðu frá sér. Auðvitað getur margt spilað þarna inn og t.d. getur lítill svefn eða mikið álag ýtt undir að púkinn kíki við. En þær afsakanir eru ekki alltaf til staðar,“ segir Elmar Hallgríms Hallgrímsson, lektor við Viðskiptafræðideild HÍ, lögfræðingur og Dale Carnegie þjálfari, í sínum nýjasta pistli:

Eitt af markmiðum mínum fyrir árið 2016 er að fækka heimsóknum pirringspúkans. Ég ákvað því að velja ákveðnar aðstæður þar sem hann hefur oft kíkt við og plata hann svo hann haldi að ég sé ekki heima. Stundum hefur hann komið við þegar ég fer í ísbúðina mína. Ég hreinlega elska að fá mér ís, sérstaklega gamla mjólkurísinn hjá Ísbúð Vesturbæjar og oft tríta ég mig með súkkulaðidýfu og kókós. Það sem hefur hins vegar pirrað mig er að standa í röðinni algjörlega tilbúinn í ísinn minn þegar svokallaða bragðarefafólkið sem er á undan mér byrjar. Þetta skrítna bragðarefafólk virðist skorta allt tímaskyn og valkvíði hrjáir það oft á háu stigi. Pirringspúkinn hreinlega elskar þetta hins vegar og er hávær á öxlinni á mér. Hann býr til fýlusvip í andlitinu á mér og ýtir undir neikvæðar hugsanir.

Þú ert ekki velkominn pirringspúki hugsaði ég með mér þegar ég var nýlega staddur í biðröðinni í ísbúðinni og á undan mér var bragðarefafólk og við erum að tala um að fjögur stykki af bragðaref voru framundan. Í stað þess að fara í gamla horfið með tilheyrandi neikvæðni og pirring þá ákvað ég að taka nýjan pól í hæðina og vera jákvæður og pirringslaus. Ég bjó því til smá leik og fór að giska á hvað bragðarefafólkið myndi fá sér í sinn bragðaref, væri það t.d. jarðaber, þristur eða snickers sem yrði fyrir valinu?

Að stýra viðhorfi sínu er mikilvægt. Að sjá aðstæður sem áskoranir og tækifæri í stað þess að upplifa þær sem vandamál og erfiðleika. Að nálgast viðfangsefni með jákvæðum hætti þannig að það sé einfaldlega verkefni sem þarf að leysa úr í stað þess að fyllast neikvæðni og jafnvel pirringi. Mér tókst það með bragaðarefafólkið og er bara nokkuð stoltur af því. Næst er það pylsufólkið sem einhverra hluta vegna er alltaf á undan mér í röðinni á bensínstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda