Beinagrindurnar ennþá flestar á sínum stað í skápnum

Sigurður Eyberg Jóhannesson, leikstjóri heimildamyndarinnar Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt.
Sigurður Eyberg Jóhannesson, leikstjóri heimildamyndarinnar Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt. Sigurður Eyberg Jóhannesson

Þegar Sigurður Eyberg Jóhannesson var við nám umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands var hann látinn mæla vistsporið sitt, sem honum til mikillar hrellingar reyndist vera fimmfalt stærra en sjálfbærnimörkin leyfa. „Þetta gerði mig forvitinn um hvað ég þyrfti að gera til að lifa innan markanna. Ég varð svo spenntur fyrir hugmyndinni að ég ákvað að láta reyna á þetta, gera vísindalega tilraun um hvort ég gæti lifað sjálfbæru lífi – og þá var einhvernveginn alveg tilvalið að kvikmynda ferlið um leið,“ segir Sigurður Eyberg, leikstjóri heimildamyndarinnar Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt.

Myndin verður frumsýnd í næsta mánuði, en að sýningu lokinni munu Sigurður, borgarstjórinn sjálfur Dagur B. Eggertsson, dr. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, og fleiri góðir gestir taka þátt í pallborðsumræðum um efni myndarinnar.

Erfitt að koma lærdómnum í orð

Sigurður segir að myndin fjalli um tilraun hans til að lifa sjálfbærara lífi, eða innan marka sjálfbærni líkt og þau eru skilgreind samkvæmt vistsporinu (e. ecological footprint). „Hugmyndin er sem sagt sú að ef allt mannkyn myndi lifa innan þessara marka þá værum við ekki að ganga á auðlindir jarðar eins og við erum því miður að gera í dag. Í myndinni fylgjumst við með hvernig ég byrja á að mæla vistsporið mitt, sem reyndist vera fimmfalt stærra en sjálfbærnimörkin mæla fyrir um, og reyni svo að breyta lífsstílnum til að færa hann inn fyrir mörkin. Þannig að við sjáum vel hvaða þættir vega þyngst, hverju er auðveldast að breyta, hvaða áhrif það hefur á lífið og svo framvegis. Spurningin er svo bara hvort þetta sé hægt, og hvort mér hafi tekist að komast niður fyrir mörkin,“ segir Sigurður, sem játar að ferlið hafi verið afar lærdómsríkt þó að erfitt sé að lýsa því.

„Helsti lærdómurinn var nokkuð merkilegur, en það er mjög erfitt að koma honum í orð án þess að hljóma kjánalega. En þar sem ég hef nú haft atvinnu af því að vera kjánalegur þá er ég alveg til í að reyna. Sko, það sem gerist þegar maður fer að hugsa alla sína neyslu út frá hinu stærra samhengi um þolmörk náttúrunnar er að maður nálgast einhverskonar Zen ástand,“ játar Sigurður og spyr hvort hann sé farinn að hljóma kjánalega. „Með þessu meina ég það að maður kúplar sig svolítið út úr hraða og yfirborðsmennsku samfélagsins, eða firringunni, og tengist á svolítið undarlegan en afar raunverulegan hátt náttúrunni. Þessi tenging við náttúruna er svo auðvitað tenging við sjálfan þig, þinn innri mann eða dýpra sjálf, forfeðurna og afkomendurna – ófædda eða fædda sem og aðra og þér alls óskylda menn og í raun allt líf á jörðinni,“ játar Sigurður og veltir fyrir sér hvort þetta „meiki einhvern sens“ líkt og hann orðar það sjálfur. „Þetta er í raun sama jafnvægi og menn ná sem stunda einhverskonar íhugun, jóga eða eitthvað slíkt, reikna ég með.“

„Þessi niðurstaða er svolítið skemmtileg í ljósi þess að ég held að stundum þegar þessi mál ber á góma þá fari sumir í baklás og halda að þeir þurfi á einhvern hátt að hætta að lifa eða lifa minna eða smærra eða á einhvern hátt draga úr lífsgæðum sínum. En þessi upplifun mín segir mér að það er einmitt hið gagnstæða sem gerist, menn lifa meira og auka lífsgæðin svo þetta er í raun nær því að byrja að lifa heldur en hitt.“

Hvað er umhverfissóði?

Sigurður segir ekki hlaupið að því að svara því hvort hann hafi verið umhverfissóði, enda leggi ekki allir sama skilning í orðið.

„Sko, hvað er umhverfissóði? Það er erfitt að svara spurningunni nema við séum viss um að við skilgreinum hugtakið með sama hætti. Í mínum huga er vandinn meira samfélagslegur. Að mínu mati  þurfum við að breyta samfélaginu á þann hátt að það kalli ekki á að við göngum nær auðlindunum en náttúran þolir. Sjálfur hef ég aldrei verið neyslufrekur en á móti kemur að ég hef flogið talsvert og geri enn og það er líklega ekkert verra en það – miðað við orkugjafann sem notaður er á flugvélarnar og hina grafalvarlegu stöðu í loftslagsmálum vegna gróðurhúsaáhrifa.“

Ekkert mál að minnka vistsporið

Aðspurður segir Sigurður ekkert mál að minnka vistsporið sitt, enda sé það ekki flókið í sjálfu sér. „Já, auðvitað tókst mér að minnka vistsporið, það er auðvelt. Spurning er svo hvað tókst mér að minnka það mikið? Og jú, eftir svona tilraun held ég að menn fari aldrei alveg til baka, það er ákveðin viðhorfsbreyting sem á sér stað sem gengur ekki til baka,“ játar Sigurður, sem segist ekki hafa verið feiminn við að opinbera sig fyrir framan tökuvélarnar. „Nei, nei. Enda fannst mér þetta engar stórkostlegar opinberanir. Beinagrindurnar eru ennþá flestar á sínum stað í skápunum. Viðrum þær í næstu mynd kannski,“ játar Sigurður kíminn að endingu.

Frumsýning myndarinnar fer fram í Háskólabíói síðasta vetrardag, 20. apríl, klukkan 15.00. Viðburðurinn er hluti af 10 ára afmælishátíð náms í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og verða eins og áður sagði pallborðsumræður að sýningu lokinni, ásamt veitingum í boði námsins. Aðgangseyrir er enginn og allir eru velkomnir.

Frekari upplýsingar um viðburðinn má finna á Facebook, en þeir sem eru forvitnir geta einnig heimsótt heimasíðu Mannsins sem minnkaði vistsporið sitt. Þá stendur teymið einnig fyrir söfnun á Karolina Fund til að fjármagna útkomu heimildamyndarinnar á mynddiska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda