Tók málin í eigin hendur og skapaði sér verkefni

Leikkonan og jógakennarinn María Dalberg beið ekki eftir því að …
Leikkonan og jógakennarinn María Dalberg beið ekki eftir því að fá draumahlutverkið upp í hendurnar. Ljósmyndari Laufey Elíasdóttir

María Dalberg lærði leiklist í London, þar sem hún bjó í átta ár. Hana dreymdi um að leika heima, en áttaði sig fljótlega á því að hún gat ekki beðið við símann og ætlast til þess að fá draumahlutverkið upp í hendurnar. Þess vegna ákvað hún að taka málin í sínar hendur og skapa sér verkefni upp á eigin spýtur.

Þrátt fyrir miklar annir gaf María Dalberg sér tíma til að sitja fyrir svörum Smartlands.

Hvers vegna ákvaðst þú að setja leikritið Sími látins manns upp, hvað er það við verkið sem heillar þig?

„Ég flutti heim til Íslands eftir átta ár í London og langaði til að kynna mig sem leikkonu hér heima. Ég áttaði mig þó fljótlega á því að bransinn virkar ekki þannig að maður bíður bara við símann eftir að fá hlutverk, sérstaklega ekki ef maður hefur lært erlendis. Mig langaði til að kýla á að setja sjálf upp leikverk á Íslandi, svo úr varð að ég stofnaði leikhópinn Blink og fór að grúska í leikritum sem mig langaði að setja upp. Ég stóð á miklum tímamótum í lífi mínu þegar ég flutti heim, ég var nýskilin eftir margra ára samband og var að kveðja London, heimilið mitt til átta ára. Því var ég mjög leitandi og enn þá með mikla útlandaþrá og ákvað að fara ein til New York í nokkra mánuði, fara í jógaskóla á Manhattan og finna sjálfa mig svolítið upp á nýtt.  Ásamt því að vera að stúdera jóga var ég að grúska í bandarískum leikskáldum og hreifst af verkum Söruh Ruhl, sem er þekkt leikskáld sem býr í New York. Hún hefur skrifað mörg frábær verðlaunaverk en ég heillaðist algjörlega af verkinu hennar Dead Man’s Cell Phone eða Sími látins manns. Ég tengdi mikið við aðalpersónu verksins og við þetta stanslausa áreiti sem við búum við í nútímasamfélagi.“

„Verkið fjallar um hina einmana Nínu, sem ég leik, en hún finnur síma látins manns, tekur hann að sér, heldur áfram að svara í hann og lendir í ýmsum ævintýrum. Hún kynnist fjölskyldumeðlimum hans og vinnufélögum og kemst að ýmsu um látna manninn. Þetta er líka falleg þroskasaga einmana konu sem finnur á endanum stóru ástina í lífi sínu og áttar sig á að það sem hún hélt að hún þyrfti í líf sitt var ekki raunin, heldur þurfti hún einmitt alveg andstæðuna til að vera hamingjusöm. Þetta er verk sem á við í hvaða nútímasamfélagi sem er og við getum öll tengt við þessa sögu á einn eða annan hátt.“

Þú ert ekki einungis leikkona, heldur starfar þú líka sem jógakennari. Hvernig fer það tvennt saman?

„Það getur verið mjög stressandi að vera leikkona og líka að framleiða, það fylgir þessu mikil vinna og álag og því er jóga frábært mótvægi til að halda sér á jörðinni. Jóga hefur hreinlega bjargað lífi mínu og núna get ég ekki án þess verið. Ég kenni jóga á morgnana og iðka líka sjálf á morgnana, það hjálpar mér að róa hugann og jarðtengja mig áður en ég fer inn í daginn og tekst á við öll verkefni dagsins.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið þitt, eða öllu heldur störfin?

„Mér finnst skemmtilegast að í báðum störfum fæ ég rými til að vera skapandi og gefandi. Það er líka ótrúlega gefandi að geta miðlað jóga, sem hefur hjálpað mér svo mikið, til fólks og þannig hjálpa öðrum að líða vel. Ég hitti alls konar fólk sem er að díla við alls konar hluti og það er magnað að geta hjálpað þeim að tengja betur við sjálft sig og líða vel. Þegar fólk er þakklátt gefur það mér rosalega mikið. Ég hitti svo mikið af frábæru fólki bæði í jógastúdíóinu og í leikhúsinu. Mér finnst mikil forréttindi að vera í vinnum þar sem ég fæ að gefa af mér og taka á móti. Þetta eru bæði nærandi störf sem haldast vel í hendur.“

María Dalberg og Halldóra Rut Baldursdóttir í hlutverkum sínum.
María Dalberg og Halldóra Rut Baldursdóttir í hlutverkum sínum. Ljósmyndari Óli Magg

Hvað finnst þér gaman að gera í frístundum þínum, það er þegar þú ert hvorki á sviði né á mottunni?

„Ég set það í forgang að eyða frítíma mínum með kærastanum mínum og syni hans, strákunum mínum. Þessa dagana förum við oft í sund, út að hjóla eða hoppa á trampolíninu. Mér finnst líka mjög endurnærandi að hitta góðar vinkonur í hádegismat og taka gott trúnó. En svo finnst mér algjörlega nauðsynlegt að taka svokallað „mí tæm“ því ég hef stundum mjög mikla þörf fyrir að fá að vera ein og eiga tíma með sjálfri mér til að hlaða batteríin.“

Hvað gera jógakennarar til að slaka á, annað en stunda jóga?

„Það er ábyggilega mismunandi, en mér finnst mikil slökun í því að fara í sund, göngutúra í náttúrunni og nudd.“

Áttu þér eftirlætis stað, innanlands eða utan?

„Mér finnst alveg dásamlegt að ferðast um landið okkar fagra, sérstaklega yfir sumartímann. Flatey er í miklu uppáhaldi hjá mér og svo er alltaf gott að fara í sveitina til mömmu og pabba í Útey rétt við Laugarvatn, þar sem mamma dekrar við mig, eldar góðan mat og ég ligg eins og unglingur með fæturna upp í loftið. Ég fór í jógaferð til Tælands í janúar með jógastöðinni minni Sólir sem var þvílíkt ævintýri sem ég væri til í að endurtaka.“

Hvers vegna ættu allir að skella sér í leikhús til að berja sýninguna augum?

„Þetta er falleg saga sem er bæði fyndin, rómantísk og súrrealísk. Þetta er mannleg saga sem fjallar um hluti sem við getum öll tengt við, þessa þrá að vilja tengjast og finna ástina og hamingjuna. Þetta er saga sem minnir okkur á hvað það er sem skiptir okkur í raun mestu máli í lífinu.“

Hvað er næst á döfinni hjá leikflokknum BLINK?

„Við erum byrjuð að velta vöngum yfir næsta verkefni. Þetta er bara svo skemmtilegur hópur, þótt ég segi sjálf frá.  Við höfum svo gaman að því að vinna saman því að það er svo auðvelt og við smellum svo vel saman. Það kemur pottþétt eitthvað skemmtilegt frá okkur í kjölfarið af þessu verkefni.“

Miða á Síma látins manns má fá á Miði.is

Leikritið segir frá ævintýrum Nínu, sem tekur að sér að …
Leikritið segir frá ævintýrum Nínu, sem tekur að sér að svara í síma látins manns. Ljósmyndari Óli Magg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda