Enn í svolitlu spennufalli

Hildur María Leifsdóttir bar sigur úr býtum í keppninni Miss …
Hildur María Leifsdóttir bar sigur úr býtum í keppninni Miss Universe Iceland. Ljósmynd úr einkasafni

Hildur María Leifsdóttir bar sigur úr býtum í keppninni Miss Universe Iceland, sem fram fór um helgina. Hildur, sem starfar sem flugfreyja hjá Icelandair auk þess sem hún spilar handbolta með meistaraflokki ÍR, segir að sigurinn leggist vel í hana þótt hún sé enn í svolitlu spennufalli.

„Ég er enn þá að koma mér niður á jörðina. Það er búið að vera svo mikið að gera að ég hef eiginlega ekki náð að hugsa út í þetta. Ég er bara mjög spennt yfir þessu öllu saman.“

Hildur María segir að mikill undirbúningur liggi að baki keppninni, enda þurfi að mörgu að huga.

„Það var rosa mikil vinna á bak við þetta. Við höfðum þó yndislegt fólk til taks sem sá hrikalega vel um okkur. Til að byrja með voru æfingar einu sinni í viku, en síðasta mánuðinn hittumst við á hverju kvöldi, lærðum dansinn og settum allt „showið“ saman. Ég fór til Bali tveimur vikum fyrir keppni og kom heim rétt fyrir keppni. Þannig að það var svolítið stress fyrir mig. En það gekk hrikalega vel,“ segir Hildur María hress í bragði.

Eins og áður sagði spilar Hildur handbolta með meistaraflokki ÍR, en gerir hún eitthvað annað til að halda sér í formi?

„Ég reyni af og til að fara í ræktina og lyfta til þess að vera með smá vöðva. Ég er búin að vera í handbolta alla tíð og það heldur mér í formi. Ég er ekki á neinu sérstöku mataræði. Handboltinn sér um þetta,“ segir Hildur, og játar að hún hafi verið of þreytt til að fagna sigrinum duglega.

„Ég hitti fjölskylduna og vini, og allar stelpurnar, og við fórum aðeins út. En síðan gat ég ekki beðið eftir að fara heim að sofa því ég var svo uppgefin eftir þessa helgi.“

Þó að keppnin sé yfirstaðin gefst ekki mikill tími til afslöppunar. Í fyrramálið heldur Hildur María til Bandaríkjanna þar sem hún mun undirbúa sig fyrir aðalkeppnina, en hún fer fram á Filippseyjum í byrjun næsta árs.

„Ég er varla búin að ná að verða neitt spennt því þetta er allt enn þá svo nýtt. Mér finnst ótrúlegt að ég fái að vera fulltrúi Íslands og fái að fara út. Það verður algert ævintýri og ég er spennt að fá að fara til Filippseyja til að taka þátt í þessu öllu saman,“ segir Hildur María að endingu og játar að hún sé enn þá í svolitlu spennufalli.

Hildur María segist enn vera að koma sér niður á …
Hildur María segist enn vera að koma sér niður á jörðina eftir ævintýri helgarinnar. Ljósmyndari / Sigurjón Arnarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda