Kaupa, leigja eða deila bíl?

Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching.
Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

„Margir eru þeirrar skoðunar að það sé hreinlega ekki hægt að búa á Íslandi án þess að eiga bíl. Í stormi og hríð er auðvelt að vera þessu sammála, sem endurspeglast hvað best í tölum frá Samgöngustofu en í lok ársins 2016 voru 277.360 ökutæki í umferð á Íslandi,“ segir Edda Jónsdóttir, leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching, í sínum nýjasta pistli: 

Þess vegna er tilefni til að taka bílamálin til umræðu í þessum pistli. Byrjum á að beina sjónum að fjárhagslega þættinum og veltum fyrir okkur hver sé hagkvæmasti kosturinn – að kaupa, leigja eða jafnvel deila bíl?

Hvað kostar bílalán?

Eins og flestir vita flokkast bílar almennt ekki sem góð fjárfesting. Þeir lækka í verði milli ára og því þarf að taka afföllin til greina. En á móti kemur að það kostar að jafnaði minna að reka nýlegri bíla þar sem þeir bila sjaldnar auk þess sem margar nýjar bílategundir eru sparneytnari og jafnvel umhverfisvænni en eldri bílar.

En nýir bílar kosta meira og því bregða margir á það ráð að taka bílalán til að fjármagna kaupin. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðum fyrirtækja sem bjóða bílalán er unnt að fá bílalán upp að 90% af kaupverði nýrra bíla til allt að 7 ára. Ef ætlunin er að festa kaup á notuðum bíl er einnig hægt að fá 90% lán allt að 5 árum ef um nýlegan bíl er að ræða.*

Eitt fyrirtæki býður til dæmis 8,15% óverðtryggða vexti í tilfellum þar sem fjármögnunarhlutfall er hærra en 80% af kaupverði bílsins. Svo leggst við mánaðarlegur kostnaður eins og til dæmis greiðslugjald auk þess sem lántökugjaldið er 3%.

Tökum dæmi um nýlegan eða nýjan bíl sem fæst fyrir 2 milljónir króna. Hyggist maður taka 90% lán til fimm ára, greiðir maður 200 þúsund krónur út. Lántökugjaldið er 54.000 krónur og lánsfjárhæðin því alls 1.856.000 krónur. Þinglýsingargjaldið er kr. 2.000. Heildarlántökukostnaðurinn er 471.177 krónur auk þess sem fólk greiðir mánaðarlegt greiðslugjald. Mánaðargreiðslan miðað við lægsta mögulega greiðslugjald er þá 37.886 krónur. Svo bætist við kostnaður sem hlýst af bifreiðagjöldum, tryggingum, eldsneyti, hjólbörðum og viðhaldi annars konar.

Hvað kostar að leigja bíl?

Eftir því sem ég kemst næst eftir nokkra eftirgrennslan er kaupleiga, rekstrarleiga, langtímaleiga og vetrarleiga á bílum í boði fyrir þá sem það kjósa. Svo virðist sem kaup og kjör séu einstaklingsbundin og miðist að einhverju leyti við mat á greiðslugetu. Á síðu eins bílaumboðs sá ég þó að miðað er við að mánaðarlegt gjald í rekstrarleigu fyrir bíl sem metinn er á 2 milljónir króna að nývirði sé 50.000 krónur.

Bílar í deilihagkerfinu

Í mörgum borgum Evrópu og víðar um heim hefur deilihagkerfið rutt sér til rúms og ýmsir möguleikar kynntir til sögunnar þegar bílanotkun er annars vegar. Sem dæmi má nefna nágranna-bíla þar sem eigendur einkabíla geta skráð bíla sína til leigu með svipuðum hætti og tíðkast með íbúðahúsnæði. Eigendur geta því þénað á því að leigja út bílinn sem stæði ef til vill ónotaður annars, meðan fólk vinnur langan vinnudag til að mynda. Kostirnir fyrir notendur þjónustunnar eru helst þeir að geta leigt bíl í skamman tíma, jafnvel eina klukkustund, fyrir hagstætt verð.

Annars konar fyrirkomulag er einnig í boði víða eins og til dæmis nokkurs konar bílakaupfélög þar sem notendur kaupa hlutabréf í félagi sem á og rekur bílaflota sem gjarnan er lagt í bílastæði inni í íbúðarhverfum hvarvetna um borgina. Í flestum tilfellum er um að ræða fólksbíla af ýmsum stærðum auk þess sem sendibílar og jafnvel minni flutningabílar eru í boði.

Sem hluthafi í bílakaupfélagi færðu sent kort á stærð við greiðslukort sem þú notar til að bera upp við nema á bílnum sem þú hefur pantað í gegnum vefsíðu bílakaupfélagsins. Lykillinn að bílnum er geymdur í hanskahólfinu ásamt þartilgerðri bók þar sem þú skrásetur fjölda ekinna kílómetra og tímann sem þú notar bílinn. Eldsneytiskort er einnig að finna í bílnum en eldsneyti er innifalið í gjaldinu sem þú greiðir fyrir hverja notkun. Mánaðarlega færðu sendan reikning fyrir notkun mánuðinn á undan. Vísir að sambærilegri þjónustu er nú í boði á Íslandi.

Þitt val hefur áhrif

Hvort sem þú hefur verið í hópi þeirra sem kaupa sér bíl, greiða hann út í hönd og aka honum þar til vélin bræðir úr sér eða þú kýst að aka um á nýjum bíl og velur því rekstrarfyrirkomulag sem kostar meira, þá er þess virði að setjast yfir málin með vasareikninn sér við hlið. Auk þess er vert að taka umhverfisþáttinn til greina þar sem við sem einstaklingar berum ábyrgð á þeirri mengun sem hlýst af lífstíl okkar.

Ef til vill er þess virði að skoða nýja möguleika. Hvers vegna ekki að hjóla í vinnuna yfir sumartímann og skoða þá valkosti sem sprottið hafa með nýstárlegri hugsun deilihagkerfisins? Það gæti komið þér skemmtilega á óvart svo ekki sé talað um áhrifin á peningabudduna.

* Ekki er um tæmandi úttekt að ræða og vera má að pistlahöfundi hafi yfirsést lánamöguleikar sem eru í boði og ekki eru tilgreindir í texta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda