Ásdís Rán Gunnarsdóttir er að gefa út bókina Valkyrjuna sem er lífsstílsleiðarvísir og vinnubók fyrir konur á öllum aldri. Bókin er fyrir þær sem vilja móta líf sitt og búa til skýra sýn fyrir framtíðina. Bókin er líka fyrir þær sem vilja finna eldmóðinn og takast á við markmið sín á markvissan og skemmtilegan hátt.
„Handbókin er full af áhrifamiklum spurningum og áskorunum sem koma til með að leiðbeina þér áfram í lífinu. Bókin kemur að góðum notum fyrir allar konur sem vilja taka sig á, móta hugsanir sínar og byggja upp blómlega og betri framtíð,“ segir Ásdís Rán. Hún segir að lífsreynsla sín hafi ýtt henni út í þetta verkefni.
„Ég lenti í hræðilegu slysi eins og flestir vita í vor og það hefur ekki verið auðvelt að vinna mig upp úr því bæði líkamlega og andlega. Þannig hef ég þurft svolítið að berja í mig kjark og trú á sjálfa mig aftur og ákvað í leiðinni að safna þessum ráðum saman sem hafa nýst mér. Þannig að ég gæti mögulega aðstoðað aðrar konur í leiðinni. Það vantar alveg svona bók á Íslandi og það væri í rauninni frábært fyrir allar konur að eiga hana til að kíkja í á erfiðari tímum eða til að fá smá pepp í byrjun nýs árs til að taka árið með trompi,“ segir Ásdís Rán.
Hún segir að konur læri að þekkja sig betur með því að lesa bókina.
„Við segjum skilið við fortíðina, öll leiðindi, mistök og annað sem gæti hafa verið að hefta okkur. Það er kominn tími til að einbeita okkur að glæsilegri framtíð, fullri af ást, gleði og hamingju,“ segir hún.