„Nýlega fékk ég úrskurð hvort endurhæfing hjá Virk hafi skilað tilætluðum árangri, að loknu svo kölluðu starfsgetumati sem var framkvæmt af lækni og sálfræðingi,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
Aðeins til upprifjunar. Ástæða þess að sett var á starfsgetumat var, að mér fannst, panik hjá Virk því ég kom illa upplagður í stöðuviðtal til ráðgjafa til að fá endurhæfingaráætlun endurnýjaða. Þá voru liðnar 6 vikur frá því að síðasta úrræði lauk og ég að bíða eftir því næsta. Hafði fengið ofsakvíðakast daginn fyrir þennan fund. Svaf ekkert um nóttina því stundum fæ ég hálfgerða magakrampa og get ekki haldið neinu niðri. Svipaða og ælupest. Þannig var nóttin. Ég eðlilega ekki upplitsdjarfur en ekkert verri eða betri en venjulega að öðru leyti. Mér brá hrikalega að þetta hafi verið ákveðið því niðurstaðan gæti verið sú endurhæfingu væri lokið og ég í lausu lofti!
Hreinskilinn. Úrræðin sem ég hef fengið hjá Virk hafa fæst skilað árangri. Ástæðan er sorglega einföld. Þrátt fyrir að ég sé ítrekað búinn að halda lærða fyrirlestra um hvað ég tel vera að, er ekki tekið mark á því. Ég er orðinn víðlesinn í Complex áfallastreituröskun (Complex Post Traumatic Stress Disorder - CPTSD) og veit hvað er að hrjá mig. Ég hef hitt 5 sálfræðinga í 18 mánaða endurhæfingu hjá Virk. Fjölmargir tímar í það heila. Að auki undirgengist 2 ítarleg sálfræðimöt.
Mér kveið mikið fyrir þessu starfsgetumati og hitti fyrst lækni. Hafði undirbúið mig mjög vel. Ég ætlaði að koma mínum skoðunum að og náði því. Í lokin fannst mér eins og hann hefði skilning á mínum málum. Hann stakk upp á því að ég hitti líka sálfræðing. Ég hugsaði...ó nei ekki enn einn í viðbót. Fékk fljótt tíma og fór og tilbúinn að halda sömu ræðuna. Guð minn góður það sem mætti mín. Eftir að ég hafði fyllt út slatta af spurningalistum þá sagði hún þetta: „Einar ég er búinn að lesa um þig en mig langar samt að biðja þig að rifja í stuttu máli söguna þína.“
Áður en hún byrjaði sagðist hún skilja nákvæmlega við hvað ég hef verið að glíma! Ég fór yfir söguna og varð svo um og ó að ég hreinlega féll saman á staðnum. Þetta var svo yfirþyrmandi að hitta loks sálfræðing sem skildi mig og hefur þekkingu á hvað mér er fyrir bestu.
Fram að tímanum með sálfræðingnum var ég logandi hræddur að niðurstaðan yrði að endurhæfingu væri lokið án árangurs! Við hvað var ég hræddur? Að deyja. Enginn getað svarað mér því hvort ofsakvíða- og panikköstin með endurupplifun á sársauka ofbeldis myndu gerast aftur! Þetta er svo viðbjóðslega sárt að ég gæti ekki umborið það.
Sálfræðingurinn sagði margt. Athyglisverðast að ef hún hefði hitt mig í upphafi hefði hún sent mig aðra leið áður en ég færi til Virk. Þá rifjaðist upp að ég var aldrei metinn í upphafi endurhæfingar. Hún hefur verið „trial/error“ frá upphafi. Það sem situr þyngst í mér er að enginn hjá Virk hafi ekki kveikt á peru og hóað í þennan sálfræðing sem starfar hjá Lsh en er verktaki hjá Virk. Jú, ég er svekktur að hafa eytt 18 mánuðum í þrautagöngu. Á móti feginn að hafa fundið réttan aðila. Hjá henni rúllaði ég fram og aftur tilfinningaskalann. Hún var yndisleg og nærgætin og manneskja sem ég fann ég gat treyst. Starfsgetumatið var þá blessun í dulargervi eftir allt saman!
Það er samt ekki eðlilegt að í starfsgetumati hitti ég loks sálfræðing sem vissi við hvað ég er að glíma. Og vissi um þá fáu á landinu sem hafa þekkingu og reynslu. Enginn starfar á stofu út í bæ. Enginn. Sálfræðimötin tvö hjá Virk dæmast bæði röng. Kom vissulega eitt og annað gott út úr þeim en ekki lykilatriðið. Allir sálfræðitímarnir hafa ekkert hjálpað mér í minni röskun. Þetta hef ég vitað lengi en ekki hlustað því fólk tekur ekki mark á öðru en það hefur þekkingu á. Ömurlegt.
Ég er búinn að ná miklum árangri frá hausti 2015. Þá útbrunninn á líkama og sál og komst ekki úr húsi vegna ofsakvíða- og panikkasta. Frábært líf komið í rúst. Ég var ekki neitt. Hræðileg staða. Sálfræðingur sem tók mig að sér og sá um mig fyrstu 9 mánuðina. Hjálpaði mér í að vinna í „burnt out“ og róa mig. Það hafði þau áhrif að ofsakvíða- og panikköstum fækkaði hratt. Ég varð að breyta um lífsstíl og taka úr lífinu allt streituvaldandi. Ég gerði allt sem mér var ráðlagt en hann var sniðugur að hann lét mig finna upp leiðir að róa mig niður. Þá komu ótrúlegustu hlutir í ljós og eiginleikar sem ég bý yfir en vissi ekki. Fyrstu tvo mánuðina var þetta ekki einn dagur í einu. Skipti deginum í þrennt til að upplifa sigra. Lærði að lifa í núinu tilneyddur. Gat ekki hugsað til baka eða fram í tímann því þá hefði ég brotnað.
Ég kem inn í endurhæfingu hjá Virk fyrr en árið eftir eða sumar/haust 2016 og búinn að ná töluverðum bata aðallega að safna upp meiri orku sem þó var takmörkuð. Ég var ekkert byrjaður að vinna í úrræðum sem hentuðu áfallastreituröskuninni. Það voru mínar væntingar til Virk.
Þykir nánast leitt að segja að árangur minn í batanum er langmestu leyti mér að þakka. Ég hef lagt ómælda vinnu og fórnir í að ná bata. Með hjálp ýmissa aðila. Úrræðin hjá Virk eru ekki að skila þessum árangri. Eftir að ég ákvað að takast á við stöðuna í upphafi hef ég aldrei kvartað að þurfa að leggja á mig erfiða vinnu. Sætt mig við stöðuna eins og hún var og það tók mikið á. Mátti t.d. þakka fyrir að geta leigt herbergisholu út í bæ eftir að hafa lifað venjulegu fjölskyldulífi allt mitt líf. Ég kyngdi öllu stolti og var of illa farinn til að upplifa skömm. Ég fékk svo mikla hvatningu frá ótrúlega stórum hópi fólks í upphafi sem skipti sköpum. Á batagöngunni hef ég þurft að glíma við alls konar óvænt verkefni í lífinu. Ég hef gert það og nota auk þess tímann í að vinna i sjálfum mér. Horfst í augu við mig og mína fortíð. Margt gott, margt ekki svo gott. Eins og gengur. En allt lærdómur. Það þurfti ekki að biðja mig um að gera þetta. Er svona í eðli mínu og ekki vantar keppnisskap og dugnað. Hef oft bognað og lært að gráta og sýna raunverulegar tilfinningar. Það er einn af stóru sigrunum. Langaði að koma þessu að til fólks að það er ýmislegt hægt að gera sjálfur til að ná bata. Þó vissulega séu fagaðilar mikilvægir líka.
Niðurstöður starfsgetumatsins voru kynntar fyrir mér á skilafundi að viðstöddum ráðgjafa mínum hjá Virk, yfirmanni hjá Virk (vitandi að ég myndi kvarta) og sálfræðingnum sem mat mig. Læknirinn sem mat mig komst ekki né heimilislæknirinn minn. Þetta var erfiður fundur og ég átti fullt í fangi að halda niður í mér gremjunni að hafa eytt 18 mánuðum án þess að fá rétt úrræði. Á fundinum var reynt að finna lausnir á stöðunni og hugurinn minn hreinlega meðtók það ekki. Eina sem ég man eftir fundinn er að formlegri endurhæfingu hjá Virk er lokið. Ég sagði við þær hjá Virk án árangurs sem þær áttu erfitt með að kyngja en gátu ekki annað. Mitt mál verður notað til lærdóms hjá þeim.
Hvað tekur við verður innan heilbrigðiskerfisins og ljóst að það mun taka langan tíma í viðbót. Ég mun þurfa að sækja um tímabundna örorku til að fá einhverjar krónur í framfærslu. Fundurinn tók svo mikið á mig að ég hef verið nokkra daga að jafna mig og átta mig á hvar í tilverunni ég stend. Ég er sem betur fer þannig hugsandi að ég dvel ekki lengi við fortíðina og tekst á við hlutina eins og þeir eru. Tvennt sem ég hef aldrei getað lært. a) Leggjast í kör og sjálfsvorkunn. b) Gefast upp. Ætla ekki á námskeið í því!
Ein dyr lokast. Aðrar opnast. Skoðum það. Ég er loksins að fá réttu hjálpina þó hún taki tíma og verður ströng. Það léttir af hrikalegum áhyggjum að ég gæti orðið fárveikur á ný. Annað mikilvægt er að endurhæfingu er ekkert lokið. Hún er orðin breytt. Ég losna m.a.s. við pressuna frá Virk að komast út á vinnumarkað sem er þeirra lykilmarkmið. Nú get ég unnið í mínum bata án pressu.
Mér er búið að líða í marga mánuði eins og sækjandi og verjandi í eigin dómsmáli. Að sannfæra t.d. sálfræðinga um mína sjúkdómsgreiningu. Það hefur verið helvítið erfitt. Nú er því lokið. Ég hafði allan tímann rétt fyrir mér!
Ég trúi aldrei á tilviljanir og það sem gerist á að gerast. Þetta gerðist og það lítur út fyrir að það sé besta í stöðunni fyrir mig. Gleymum þessum tíma hjá Virk. Verður ekki breytt. Ég er farinn að finna fyrir enn meiri bjartsýni að strákur verði leikfær einn daginn. Það þarf ekki að biðja mig um að leggja mig fram við það.
Ég vil að lokum nefna að ég er ekki að fordæma Starfsendurhæfingu Virk sem er gott og bráðnauðsynleg þjónusta og sannað tilverurétt sinn. Virk hefur hjálpað fullt af fólki og náð góðum árangri. Þetta er bara mín reynsla og nær ekki lengra en það.