„Eitt af mínum aðaláhugamálum er að ferðast. Ég elska að fara til nýrra landa og kynna mér staðhætti, njóta mannlífsins og veðurfarsins,“ segir Gunna Stella heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
Við hjónin höfum ferðast mikið með börnin okkar og hafa þau komið til margra landa. Það er sannarlega ekki „ókeypis“ að ferðast með stóra fjölskyldu en það er hægt ef vel er haldið á spöðunum. Okkur finnst best að ferðast á eigin vegum og bóka flug, hótel og þess háttar sjálf. Oftar en ekki þarf ég að verja talsverðum tíma í leit að hagstæðum flugmiðum, hótelum og bílaleigubíl en það hefst yfirleitt alltaf að lokum.
Nú síðar í mánuðinum erum við fjölskyldan á leið til Ástralíu í brúðkaup vinar okkar. Þar sem við erum að fara að ferðast hinum megin á hnöttinn ákváðum við að gera aðeins meira úr ferðinni. Við veltum ýmsum möguleikum fyrir okkur. Um tíma vorum við að spá í að fara til Taílands, aðra stundina Nýja-Sjálands en eftir töluverða leit sáum við að það var hagstæðast fyrir okkur að fljúga bara frá Evrópu til Singapore, þaðan til Ástralíu og svo til Balí þar sem við ætlum að dvelja um tíma og þaðan aftur áleiðis heim.
Til þess að finna út hvaða flugfélög voru í boði notaði ég leitarvélar á borð við Dohop og edreams. Yfirleitt er hagstæðast að bóka í gegnum flugfélagið sjálft en ég nota þessar leitarvélar til þess að hjálpa mér að finna sniðugar flugleiðir.
Í þessari ferð ætlum við að fljúga til nokkurra landa og þá er best að fara inn á heimasíðu flugfélagsins og velja multi city/stopover-hnappinn. Þá kemur upp sá möguleiki að velja fleiri borgir til að fljúga til. Það getur munað miklu í verði á því hvaða vikudag þú velur og einnig getur verð hækkað eftir því sem skoðað er oftar. Ég hef það fyrir reglu að finna ákveðnar dagsetningar sem henta okkur vel og ef ég sé að flugið hefur hækkað þá bíð ég yfirleitt í nokkra daga og þá lækkar það yfirleitt aftur. Það getur einnig munað miklu í verði á því hvaða dagsetningu þú velur og því er best ef maður getur haft sveigjanleika í dagsetningum.
Þar sem við erum sex manna fjölskylda á ferðalagi skiptir gisting miklu máli. Best er fyrir okkur að vera í íbúð með aðgangi að eldhúsi til þess að minnka matarkostnað. Við bókum yfirleitt gistingar í gegnum booking.com, Airbnb og Agoda. Það er misjafnt eftir dagsetningum hvaða síða er hagstæðust og hvað er í boði. Þetta krefst líka þolinmæði en yfirleitt lendum við á einhverju sniðugu að lokum. Í sumum tilfellum borgar sig að borga gistingu strax, þar sem boðið er upp á góðan staðgreiðsluafslátt en í öðrum tilfellum er hagstæðara að borga gistinguna þegar mætt er á staðinn.
Ferðalagið okkar hefst eftir nokkra daga og þú getur fylgst með því á Instagram og Facebook.
Í næsta pistli ætla ég að velta fram þeirri spurningu hvort það sé gerlegt að ferðast einfalt og létt hinum megin á hnöttinn með fjögur börn.