Menntunarsjóður Mæðrastyrksnefndar var stofnaður 2012 til að auk mátt efnalítilla kvenna á Íslandi. Sjóðurinn fékk Þórunni Árnadóttur hönnuð til þess að hanna kerti með leyniskilaboðum til mæðra sem fara í sölu á morgun. Guðríður Sigurðardóttir formaður Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar og ráðgjafi og einn af eigendum Attentus, segir að styrkurinn hjálpi konum að búa sér bjartari framtíð.
„Sjóðurinn einbeitir sér að því að styrkja konur sem þurfa hjálparhönd til að afla sér menntunar. Í gegnum sjóðinn fá þær fjárhagsstyrk, sem gerir oft gæfumuninn í því að þær geti sest á skólabekk án þess að vera að demba sér í djúpar skuldir, styrkurinn borgar kostnað við skólagjöld og bækur. En svo er það mín tilfinning að það sé líka mikil hvatning að finna að það eru til bjargráð og einhver sem trúir á þig og við trúum svo sannarlega á þessar mögnuðu konur sem fá styrkina. Þær eru með ofurkröftum að rífa sig upp úr hjólfari og vilja og geta breytt lífi sínu. Við vitum að menntun er alltaf til góðs ekki bara upp á að fá betra starf en líka til að efla styrkþega persónulega. Við erum að safna fé allt árið með því að senda styrktarbeiðnir til fyrirtækja en þetta söfnunarátak gerir það vonandi að verkum að við eigum nægt fé til að þurfa ekki að hafna umsækjendum um styrki,“ segir Guðríður í samtali við Smartland.
Aðspurð um hvernig sjóðurinn virki segir Guðríður að konur þurfi að sækja um í sjóðinn og þurfi um leið að skila inn staðfestingu á skólavist, skattaskýrslu og tekjuáætlun.
„Stjórn sjóðsins fer yfir umsóknir og ef umsækjandi er undir tekjuviðmiðum og er í námi þá borgar sjóðurinn skólagöld og skólabækur. Umsóknum i sjóðinn hefur fjölgað og því skiptir máli ár hvert að ná að safna nægilegu fé til að geta styrkt alla sem sækja um og falla undir viðmiðin,“ segir hún.
Hvernig myndi samfélag okkar breytast ef menntunarstig myndi hækka?
„Það yrði aukinn hagvöxtur, og það er nú eitthvað sem allir vilja, ekki satt? Það er sterkt jákvætt samband milli menntunar og hagvaxtar. En hagvöxtur er ekki allt, því aukin menntun er einnig jákvæð fyrir hvern einstakling, sem skilar sér í sátt innan samfélagsins og þannig væntanlega betra samfélagi fyrir alla. Það hefur sýnt sig að þegar móðir bætir framtíð sína bætir hún framtíð barna sinni og þannig koll af kolli næstu kynsóðir,“ segir hún.
Hvað er hægt að gera til þess að konur festist ekki í fátækragildru?
„Ein leið er að mennta sig og auka þannig möguleika sinn á að finna gott starf til að geta tryggt sér og fjölskyldu sinni öruggari framtíð. Það er einmitt það sem Menntunarsjóðurinn einbeitir sér að aðstoða konur við að gera. Í raun að hjálpa þeim að hjálpa sér sjálfar.“
Hvað getum við sem samfélag gert til þess að styðja við láglaunakonur?
„Veita þeim fleiri tækifæri til að skapa sína framtíð, hvernig sem viðkomandi sér hana fyrir sér. Ein leið er að mennta sig, því ekki aðeins fá konur þá tækifæri til fara í önnur störf, vonandi betur launuð störf, en einnig að styrkja sjálfa sig.“
Hverju vonast þú eftir að átakið skili?
„Mjög miklum peningum! Til að sjóðurinn geti styrk enn fleiri konur. Þetta er ósköp einfalt, allir að kaupa Mæðrablómið. Við höfum síðustu ár fengið til liðs við okkur hönnuði sem hafa gefið vinnu sína og styrkt sjóðinn. Nú annað árið í röð gefur Þórunn Árnadóttir hönnuður vinnu sína með því að hanna Leyniskilaboðakerti tengd mæðradeginum. Kertin eru í postulínsskálum og þegar kveikt er á þeim og vaxið bráðnar koma smátt og smátt í ljós skilaboð á botni skálarinnar. Við erum svo heppnar að hafa fengið til liðs við okkur þrjár magnaðar konur sem allar hafa lagt áherslu á gildi menntunar en það eru frú Vigdís Finnbogadóttir, Eliza Reid forsetafrú og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherraen þær hafa valið hver sín leyniskilaboð í kerti tileinkað mæðrum. Auk skilaboða frá þeim eru tvö önnur skilaboð í kertunum eða alls fimm mismunandi skilaboð. Þetta er kjörin tækifærisgjöf, sérstaklega á mæðradaginn, sem býður upp á óvenjulega og skemmtilega upplifun,“ segir Guðríður.
Á morgun verða skilaboðin sem þær völdu opinberuð og kertin verða seld í Verslunum Pennans Eymundsson, Epal, Snúrunni og Heimkaup. Einnig verðum við sjálfar með söluborð í Kringlunni og Smáralind um helgina.