Framundan eru nokkrir stakir frídagar, 30. maí (uppstigningardagur), annar í hvítasunnu og 17. júní. Það setur punktinn yfir i-ið á vinnuvikunni að fá einn auka frídag, hvort sem það er fimmtudagur eða mánudagur.
Fólki hættir oft til að vinna samt sem áður smá á þessum dögum en rannsóknir sýna að sendir tölvupóstar minnka aðeins um 40% á mánudögum sem eru frídagar. Það er mikilvægt fyrir heilsuna, bæði geð og líkamlega að vera í fríi þegar maður er í fríi. Hér eru því nokkrar hugmyndir að því hvað er hægt að gera þegar maður er á stakan frídag.
Njóttu þess að vera latur
Njóttu þess að eiga frí, hvort sem það er einn eða með allri fjölskyldunni. Horfðu á kvikmyndir, þætti eða lestu góða bók. Gerðu bara nákvæmlega ekki neitt og reyndu að hlaða batteríin.
Borðaðu með fjölskyldunni
Það þarf þó ekki að gera neitt til að hlaða batteríin. Það getur oft verið erfitt að ná fjölskyldunni saman í dagsins önn, það eru æfingar, fundir og hvaðeina sem getur haft áhrif á skipulag fjölskyldunnar. Það er því góð hugmynd að elda einhverja snilld og borða saman með fjölskyldunni, kannski grilla ef veður leyfir.
Kláraðu að gera þetta sem þú ætlaðir alltaf að klára
Hvort sem það var að taka til í baðherbergisskápnum eða endurskipuleggja hillurnar í stofunni, komdu þér í það! Það þarf ekki einu sinni að taka langan tíma eða vera leiðinlegt. Settu þér tímamarkmið eða finndu góðan hlaðvarpsþátt til að hlusta á og þú verður búin áður en þú veist af.
Farðu í fjallgöngu
Við hér á Íslandi erum ansi heppin með það að það er sjaldan langt í næsta fjall til að ganga á. Það þarf ekki einu sinni að vera fjall, farðu bara í göngutúr ef þú nennir ekki í fjallgöngu. Á göngunni geturðu hreinsað hugann og notið náttúrunnar. Það er líka sniðug hugmynd að fara í göngu með fjölskyldunni og taka nesti með og njóta dagsins.