Sara Oddsdóttir útskrifaðist með mastersgráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík nýverið. Hún starfar við andlega leiðsögn hjá Sólum. Fyrsti kærasti hennar reyndi að svipta sig lífi og upplifði hún mikla skömm og ótta í tengslum við það. Hún berst fyrir sjálfsást, umburðarlyndi og því að fólk læri að setja heilbrigð mörk og segir að berskjöldun sé styrkleiki þótt margir haldi annað.
„Að veita fólki sem er lengra komið í lífinu andlega leiðsögn er dásamlegt starf að mínu mati. Það eru svo margir í innri baráttu. Fólk langar að komast áfram en eru föst, vita ekki hvaða skref þau eiga að taka næst eða hvert er best að leita. Í þeirri leiðsögn sem ég veiti opinbera ég mig. Sú aðferð hefur reynst mér hvað best í gegnum tíðina. Að fá lánaða dómgreind og að spegla mig í fólki sem hefur upplifað eitthvað svipað hefur hjálpað mér mest í þeim verkefnum sem ég hef þurft að mæta. Að geta treyst og tjáð sig þar sem kærleikur ríkir án þess að vera dæmdur finnst mér lykilatriðið.“
Sara fékk áhugann á að starfa við andlega leiðsögn í lögfræðinni. „Sem lögmaður má ráðleggja fólki og fara með stærstu hagsmunamál þess samkvæmt lögum. Forræði barna, framtíð fyrirtækis, skilnaðir, kynferðisbrot og fleira. En við nálgumst ekki kjarnann, rót vandans, þar sem orsökina er að finna. Ég myndi vilja sjá einhvers konar sáttamiðlun án dóms í meiri mæli og ég tel að það ætti að leggja ríkari áherslu á sameiginlega niðurstöðu, frekar en að fara fyrir dómstóla, þó að slíkt sé auðvitað nauðsynlegt í ákveðnum tilfellum. Gerðarmeðferð er t.a.m. kostur þar sem fólk tilnefnir almennt fagaðila, gerðardóm, sem er þá úrlausnaraðili samkvæmt samningi og úrskurðar þannig um ágreining aðila í stað dómstóla. Slík meðferð er almennt skilvirkari og er úrlausn yfirleitt bundin trúnaði. Þannig er hægt að skipa gerðarmenn sem eru sérfræðingar á því sviði sem um ræðir og er málsmeðferðin almennt sveigjanlegri, þar sem málsaðilar hafa meira um hana að segja en fyrir almennum dómstólum. Hins vegar er úrlausn gerðardóms bindandi og sætir ekki áfrýjun; það þýðir að ekki heimilt að fara með málið fyrir dómstóla. Þá er ekki heimilt að fara með öll mál í gerðardóm, t.d. ekki refsimál. Ég held að það mætti alveg setja meiri áherslu á einhvers konar sáttamiðlun í réttarkerfinu og koma þannig hugsanlega í veg fyrir að ákveðin mál hangi inn í kerfinu í mörg ár. Mín tilfinning er sú að oft tapa allir aðilar orrustunni þegar tiltekin mál eru rekin fyrir dómstólum, nema kannski lögmennirnir, sem fá ríkulega borgað fyrir sína vinnu.“
Sara er sjálf ekki að taka við pörum sem eru að skilja í ráðgjöf, en hún hefur áhuga á að vinna með kjarna hvers og eins og skoða orsök þess að sambönd ganga ekki upp frá byrjun. „Þegar fólk er komið í stríð út af eignum er það komið í stöðu sem enginn vill vera í. Ástæðan fyrir því er kannski sú að upphaflega áttu einstaklingarnir erfitt með að standa með sér í hjónabandinu og áttu erfitt með að setja mörk og þar fram eftir götunum.“
Hvernig var líf þitt áður en þú byrjaðir að raða og flokka í þínu tilfinningalífi?
„Foreldrar mínir skildu þegar ég var 14 ára, sem var mikið áfall fyrir mig og lífið tók í raun u-beygju. Þar sem skilnaður foreldra minna var harður tóku við erfiðir tímar í mínu lífi. Það var ótrúlega mikill munur að upplifa ólíka póla foreldra minna. Ég er mjög lánsöm að eiga pabba sem hafði verið í andlegri vinnu lengi, meðal annars í AA samtökunum. Þannig að í raun var pabbi tilbúinn að vinna í sér en mamma sat frekar eftir og náði ekki að taka ábyrgð á sínum hluta sambandsins strax. Hins vegar var og er mamma mín einstaklega kærleiksrík móðir sem ég gat alltaf leitað til og stóð með mér alveg sama hvað bjátaði á. Ég upplifði ekki eins mikinn kærleika frá pabba þá, þar sem mér fannst tal um að ég yrði að taka ábyrgð á mér og að það skipti engu máli hvað aðrir gera og segja – þú hefur alltaf val – vera frekar kalt og snubbótt. Hægt og rólega síaðist þó þessi sannleikur inn og í dag skil ég kærleikann í þessum orðum pabba og er einstaklega þakklát fyrir hann í dag. Mér finnst mikilvægt að benda á þennan hlut svo að foreldrar í þessari stöðu geti leitað sér aðstoðar.“
Sara segist hafa verið þessi dæmigerða stelpa sem lagðist á koddann á kvöldin með áhyggjur yfir framtíðinni, enda breytist margt í lífi barna við skilnað. ,,Ég var með þessa rödd í huganum sem spilaði einhverja atburðarás aftur og aftur. Ég fór að rífa mig niður, ritskoða sjálfa mig og m.a. kenna mér um. Ég heyrði oft rödd pabba sem hljómaði: En hvað vilt þú? Hvað finnst þér? Er þetta fyrir þig eða aðra? Hann útskýrði einnig fyrir mér hvað meðvirkni væri og að alkóhólismi væri fjölskyldusjúkdómur.“
Sara segir að góð ráð og viska pabba síns hafi ekki endilega þýtt að hún færi eftir þeim. „Hægt og rólega fer þetta að síast inn og sýna sig í veruleikanum þegar maður hefur þroska til að meta orsök og afleiðingar, sem gefur manni þennan uppbyggilega gagnrýnisspegil, sem mér finnst vanta sárlega í samfélagið í dag.
Að fá tækifæri að sjá og skilja að háttsemi annarra, sem maður telur oftar en ekki að sé með ásetningi á manns kostnað, hefur ekkert með mann sjálfan að gera er verðmætt veganesti. Við höfum alltaf val, val um að dvelja í ákveðnum aðstæðum eða að velja annað. Þessi afstaða gefur manni dýpri skilning og hæfni í mannlegum samskiptum.“
Sara segist hafa verið ung að aldri þegar pabbi hennar var í virkri fíkn og hún á ekki slæmar minningar um þann tíma sjálf. „Ég man að ég var stundum kvíðin þegar pabbi kom heim sem barn, en hann var alltaf kærleiksríkur og þannig ekkert óþægilegt í gangi. Mamma fór hins vegar seinna í bata en pabbi og var lengi reið og ósátt. Það sem ég lærði af þessu er að hver og einn verður að gangast við sínum tilfinningum. Ef við óttumst stöðugt að vera hafnað eða dæmd og viðurkennum ekki þessa skömm og sektarkennd sem fylgir okkur verðum við ekkert annað en leikbrúða sem speglar annað fólk. Þá erum við sífellt í viðbragði og reynum að þóknast. Þá segjum við og gerum það sem við höldum að aðrir ætlist til af okkur og hættum að þora að standa með okkur. Við verðum í raun óheiðarleg gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Við forðumst að taka ábyrgð á eigin tilfinningum og það hefur áhrif á andlegan þroska.“
Sara segir að hún hafi alltaf gert hlutina öðruvísi en almennt er talið „rétta“ leiðin í samfélaginu en að hún hafi verið ung að aldri þegar hún upplifði áfall í lífinu sem var af persónulegum toga.
,,Þegar ég var sextán ára að aldri var ég í sambandi, þar sem bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi átti sér stað. Á þessum tíma fannst mér ég ekki eiga neitt gott skilið og kunni ekki að standa með sjálfri mér. Vendipunkturinn í því sambandi var þegar ég áttaði mig á að mig langaði ekki að vera í sambandinu lengur. Ég sagði honum að ég væri ekki skotin í honum og vildi að hann tæki dótið sitt á meðan ég væri í vinnunni þann daginn, en ég bjó í bílskúrnum í bakgarðinum hjá mömmu. Eins og krakkar á þessum aldri hugsar maður hlutina bara viku fram í tímann. Mamma ætlaði að skutla mér í vinnuna, þar sem ég var ekki með bílpróf, en ég gleymdi lyklunum og fór aftur inn. Þegar ég opnaði dyrnar fann ég að eitthvað var að. Ég heyrði að hann var farinn í sturtu en hann svaraði mér ekki þegar ég kallaði til hans. Ég endaði á að sparka upp hurðinni og fann hann hangandi í sturtunni, bláan og líflausan. Ég reif hann niður og kom honum fyrir til að byrja að blása í hann lífi. Síðan hljóp ég út og kallaði á mömmu og bað hana að hringja á sjúkrabíl. Stuttu seinna komu sjúkrabílar og fagfólk sem náði að lífga hann við og koma hjartanu aftur í gang.“
Sara segir að þetta hafi verið rosalegt áfall fyrir hana og mömmu hennar. „Að sjálfsögðu þorði ég ekki að segja neinum frá því að ég hefði hætt með honum, því ég upplifði eins og þetta væri mér að kenna.
Það var í kjölfar þessa sem stríðsmaður ástarinnar fæddist innra með mér. Ég steig inn í nýtt tímabil í lífinu og ákvað að vera engum háð. Að elska mig fyrst og síðan aðra.“
Hvað kenndi þetta samband þér?
„Það kenndi mér að stíga inn í óttann, að ég þyrfti að taka ábyrgð á mínum tilfinningum. Hversu nauðsynlegt það er að tala um hlutina eins og þeir eru, og að þora að biðja um aðstoð. Ég skora á alla að leggja til hliðar afneitun, viðurkenna fortíð sína og stíga inn í hugrekki sitt og mæta tilfinningum sínum, það getur þó verið sársaukafullt ferli en ótrúlega frelsandi.“
Sara fór að læra lögfræði vegna áhuga hennar á fólki, andlegum þroska og mannlegri breytni og brestum. Réttarheimspeki er að hennar mati eitt áhugaverðasta fagið. Þó að Sara starfi ekki á lögfræðistofu í dag hefur hún óbilandi áhuga á öllu því sem viðkemur faginu.
„Ég skrifaði meistararitgerðina mína um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, en kjarninn í slíkri ábyrgð er að fórna ekki langtímahagsmunum fyrir skammtímahagsmuni. Það er sá boðskapur sem ég starfa við í dag. Það er að gefa ekki afslátt af sjálfum sér til að vera samþykktur, að láta ekki ótta við það óþekkta, skömm og sektarkennd stýra ferðinni. Þannig fórnum við okkar eigin langtímahagsmunum fyrir skammtímasamþykki og -frið.“
Hvernig starfar þú sem stríðsmaður ástarinnar?
„Ég er aðallega að berjast fyrir sjálfsást og sjálfsþekkingu. Að geta elskað aðra og tekið þátt í samfélaginu án þess að gefa afslátt af sér og sínum gildum. Það að fólk setji sjálft sig í fyrsta sætið og síðan aðra, hvort sem það er í vinnunni eða heima fyrir, er ekki neikvætt en það verður að vera á réttum forsendum. Að fólk tileinki sér umburðarlyndi. Við erum svo dómhörð, sérstaklega gagnvart okkur sjálfum. Sjálfsmildi er nauðsynleg. Eins þurfum við að kunna að setja mörk, bæði gagnvart okkur sjálfum og öðrum.“
Hvers vegna skiptir máli að setja mörk?
,,Ef þú kannt ekki að setja sjálfum þér og öðrum heilbrigð mörk ertu sífellt að gefa afslátt af gildunum þínum. Ef þú veist ekki hvar mörkin þín liggja gefur þú stöðugt afslátt af þér. Óheilbrigð mörk eiga sér líka margar ólíkar birtingarmyndir. T.d. getur verið að fólk geti sett ákveðnum aðilum mörk en öðrum ekki eða verið tilbúið að gera eitthvað fyrir aðra, þó að það hafi ekki tíma til þess né áhuga. Fólki sem kann að setja heilbrigð mörk finnst t.d. eðlilegt að gera hluti fyrir aðra og eins að aðrir geri eitthvað fyrir það, ekki endilega að það þurfi að endurgjalda greiðann heldur kunni að taka á móti. Meðvirkir kunna ekki að biðja um það sem þeir hafa áhuga á og kunna ekki að tjá tilfinningar sínar. Það getur verið vandasamt að vita hvar heilbrigð mörk liggja þegar fólki hefur ekki verið kennt að setja sér sjálfum og öðrum heilbrigð mörk. Fæstir kunna hins vegar að lesa hugsanir og flestir eru til í að virða þau mörk sem þeim eru sett.“
Sara tekur dæmi um fólk sem hringir og biður um aðstoð.
„Ef þú segir nei við fólk þegar það biður um aðstoð hringja þessir aðilar vanalega bara í einhvern annan, án þess að erfa það við þig. Það er mikil sjálfsvirðing fólgin í því að kunna að setja heilbrigð mörk.“
Er ekki nóg að segja fólki að elska sig fyrst og aðra svo?
,,Nei, því við erum öll með ótta við það óþekkta. Mín reynsla er sú að við erum með innbyggða skömm úr æsku þar sem við upplifðum okkur ekki nóg. Rótin er sú að sem börn vorum við elskuð fyrir það sem við gerðum, í staðinn fyrir það eitt að vera til. Við hrósum fyrir ranga hluti. Við t.d. hrósum börnunum okkar fyrir háar einkunnir í stað heiðarleika eða að tjá tilfinningar sínar. Þetta gerir það að verkum að sjálfsmat okkar sem börn og samþykki felst í einkunnaspjaldinu. Afleiðingarnar eru þær að við leitum eftir samþykki með árangri og við verðum aldrei nóg, þar sem það er alltaf hægt að ná meiri árangri. Dæmið gengur ekki upp. Við verðum eins og hamstrar í hjóli í vinnunni og í öllum þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur. Þar til við lendum á vegg og fáum kulnun, streitutengda kvilla eða aðra sjúkdóma. Rannsóknir sýna að það er sterkt samband á milli áfalla í bernsku og líkamlegra heilsufarsvandamála, en áföll eru ekki bara atburðir sem rata í fréttirnar. Eins er ekki viðurkennt í dag að gangast við öllum tilfinningum sínum. Því allur skalinn er eðlilegur. Það er almennt ekki viðurkennt að það felist styrkleiki í berskjöldun. Ef fólk á hús, börn og fellihýsi er eins og það sé búið að afsala sér réttinum að mega vera með vandamál, sem er fráleitt að mínu mati.“