„Nú er ég á næstsíðasta degi í sóttkví sem þýðir að ég hef verið í einangrun í 12 daga og hér er það sem ég hef lært,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir rithöfundur og dósent við Háskóla Íslands í sínum nýjasta pistli:
Ég breyttist í A. manneskju einn, tveir og búmm ...
Í morgun var heitavatnslaust í Vesturbæ svo að það var kalt í húsinu og veðrið buldi á glugganum. Ég hugsaði með mér að nú væri tíminn til að liggja lengur í rúminu en fékk ekki frið fyrir A manneskjunni sem ég vissi ekki að væri innra með mér. Upp, hipp, hipp, húrra... komin fram fyrir átta og byrjuð að laga kaffi, og skipuleggja daginn. Börnin mín sem eru í góðu atlæti hjá föður sínum trúa mér ekki og halda að þetta hljóti að vera vegna einhvers konar veiru. Ég hef nefnilega hingað til verið meiri B-manneskja, ef ég hef tíma eins og á sumrin og jólum þá sný ég sólarhringnum næstum við, náttugla sem vinnur fram á nótt og sefur fram á miðjan morgun. En ekki núna - nei, nei.. vöknuð fyrir 8 og sofnuð fyrir 23 á kvöldin.
Varðveittu regluna - þá varðveitir hún þig
Ég fer á hverjum degi í göngutúr nema á sunnudeginum þegar ég eldaði mér hrygg - sunnudagshrygg, eins og lög gera ráð fyrir. Ég tala ekki við nokkurn mann en á mér tré sem ég tala við í daglegum göngutúr og stein sem ég stoppa hjá og tengi mig við. Stundum hef ég brugðið mér aðra leið og þá spyr ég steininn og tréð „saknaðir þú mín?“ daginn eftir. Þau svara alltaf játandi, ég er mjög glöð yfir því. Ég tek myndir á sama stað til að skrásetja vorið en er ekki með skrefamæli eða blóðþrýstingsmæli eða svefnmæli, met gæðin á því bara eftir því hvernig mér líður, þó ber að taka fram að ég er stálhraust og þarf ekki á slíku að halda.
Kærleikur og matur
Nú ber svo við um þessar mundir að ég hugsa um fátt annað en mat. Ég byrja daginn á að hugsa um hvað ég ætli að elda og flétti uppskriftabókum. Það stórundarlega er að ég hef næstum aldrei eldað eftir uppskrift nema kannski á jólum. Vinir mínir hafa fært mér krásir, steiktan fisk, brauð og kruðerí og súkkulaði og ekki lagt í jötu heldur hér fyrir utan hjá mér. Það er ekki bara kórónuveiran sem er smitandi heldur líka kærleikurinn. Nú fór ég í sóttkví af því að ég var að koma frá útlöndum og verslaði því í Fríhöfninni sannfærð um að þangað kæmi ég ekki í bráð og því varð að safna í nammiskápinn, eins og ekki væru aðrar verslanir í landinu. Það var ekki góð hugmynd.
Matur og kynþokki
Ég er ekki með Netflix né aðra áskrift og því horfi ég takmarkað á sjónvarp en hef þó valið mér nokkra þætti úr Sarpinum hjá RÚV. Skandinavísku þættirnir koma þar sterkt inn, Deita er þáttur sem ég skammta mér og nýt í botn því ég er orðin ástfangin af einum karakternum, honum Arv. Aðalsöguhetjan rekur eldhús og ég skemmti ég mér konunglega yfir þáttunum og krásunum. Kannast við svo margt í samskiptum hinnar einstæðu móður við unglinginn sinn, hitt kynið og vinkonur. Ég er ástfangin af samstarfsmanni hennar, hvað er kynþokkafyllra en karlmaður með svuntu sem eldar dýrindismat og er með heit dökk augu? Gleymdi mér smá en hey ég er í einangrun ...
Vinnan (og matur)
Ég hef lært á Zoom, Teams og verið á fjarfundum eins og ekkert sé. Hins vegar þegar ég fór í sóttkví sagði ég ritstjóra mínum að það yrði nú lítið mál að ljúka við skáldsöguna sem á að koma út í sumar. Ég setti líka greinarnar sem ég ætlaði að skrifa á borðstofuborðið. En áður en ég veit af er ég farin að taka uppskriftabækur fram yfir vinnuna og aðeins að heyra í mannheimi í símanum og það er líka nauðsynlegt að þrífa vel. A-manneskja á ekkert auðveldara með að koma sér að verki þegar kemur að því sem þarf að einbeita sér að.
Krakkarnir og kötturinn
Ég hringi tvisvar á dag í yngri börnin sem eru 12. og 16. ára, þau hafa yfirleitt engan tíma til að tala við mig en vilja gjarnan að ég beini myndavélini að kettinum, „saknar hann mín ekki...“ Ég stend með símann, og tárin í augunum að sjálfsögðu þar sem þau sakna mín ekki og beini myndavélinni að kettinum sem er stórhissa á að hafa mig alltaf heima.
Nú er þessi pistill orðin allt of langur og bara allra bestu vinir mínir hafa lesið hingað - takk fyrir það. Ég þarf að fara að sinna uppskriftinni sem ég ætla að elda í kvöld síðan ætla ég að teikna upp skipulagið í næstu viku þegar krakkarnir koma heim... eins og sjá má á myndunum sem ég tek á sama stað í göngutúrnum þá er vorið að koma, snjórinn minnkar og þetta, eins og annað mun líða hjá. Við verðum ekki söm á eftir, höfum sögur að segja „þegar ég var í sóttkvínni... þá varð ég A-manneskja...“
Skora á A manneskjur að prófa að verða B manneskjur..