Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, segir það að stofna fyrirtæki í landinu langhlaup. Hún segir eðlilegt að fá tíu nei áður en frumkvöðlar fái eitt já. Þetta kemur fram í Nýsköpun, tímariti Samtaka Iðnaðarins sem kom út á dögunum.
Hún segir mikilvægt að efla samstarf og að auka fjármagn til nýsköpunarfyrirtækja í vexti. Vel er látið af vörunum, sem aðstoða m.a. við hárlos og exem svo eitthvað sé nefnt.
„Þetta er langhlaup, en alveg þess virði. Það er eðlilegt að fá tíu eða fleiri nei áður en þið fáið verðskuldað já! Þá hefur jáið líka svo miklu meiri þýðingu og er drifkrafturinn til að halda áfram með sóknina. Nýsköpun er ein mikilvægasta stoð samfélagsins, og er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem er leiðarvísir að sjálfbærari heimi. Heimurinn þarf einfaldlega á okkur að halda og við skulum taka hlutverkið alvarlega.“
Hugmyndin að GeoSilica, sem stendur fyrir Geothermal Silica, sem á íslensku útleggst sem jarðhitakísill, kviknaði við skrif á lokaritgerð Fidu við Háskóla Íslands.
„Þá var ég skoða mögulega nýtingu á jarðhitakísli sem hluta af lokaverkefni mínu í orku- og umhverfistæknifræði á sama tíma og samnemandi minn, Burkni Pálsson, var að skoða möguleika á hreinsun á jarðhitakísli,“ útskýrir hún, en Burkni er meðstofnandi GeoSilica. „Við vinnslu á lokaverkefninu fór ég að skoða kísilinn nánar og fann út að hann er notaður í framleiðslu á fæðubótarefnum, en sú framleiðsla er yfirleitt kölluð iðnaðarframleiðsla þar sem notast er við sýrur eða basa til að fella út kísilinn. Við á Íslandi fáum kísilinn með jarðhitavatni og töldum við að við gætum framleitt fæðubótarefni úr jarðhitakíslinum,“ segir hún.
„Við erum að selja á Íslandi, í Kína, Ástralíu og í öllum þýskumælandi löndum, og þá aðallega í Þýskalandi og Sviss. Við erum búin að vera í dálítinn tíma í Kína, og verðum komin til Spánar, Ítalíu og Frakklands fljótlega. Við erum líka komin með samninga við dreifiaðila sem mun dreifa vörunum í stórum hluta Asíu og erum nú í skráningarferli á vörunum þar,“ segir Fida, en GeoSilica stefnir á Bandaríkjamarkað árið 2020.