„Ég setti aldrei það markmið að útskrifast 17 ára“

Dýrleif Birna Sveinsdóttir stundar nám í Háskólanum í Reykjavík í …
Dýrleif Birna Sveinsdóttir stundar nám í Háskólanum í Reykjavík í dag. Ljósmynd/Aðsend

Dýrleif Birna Sveinsdóttir er nemi á öðru ári í vél- og orkutæknifræði við Háskólann í Reykjavík. Dýrleif varð stúdent frá Tækniskólanum aðeins 17 ára gömul. Hún er jafn­framt yngsti nem­andinn í sögu Tækni­skól­ans sem út­skrif­ast með stúd­ents­próf. Hún er hluti af Vélmennaforritunarsambandi Íslands (VSÍ) og langar að starfa sem tæknifræðingur eða verkfræðingur í framtíðinni. 

„Ég útskrifaðist í desember 2018 og kláraði námið á tveimur og hálfu ári. Ég var á K2 sem er tækni- og vísindabraut til stúdentsprófs. Ég er fyrsti nemandinn til að útskrifast af þeirri braut og er stolt af því. Og það var vissulega gaman að ná að klára á tveimur og hálfu ári,“ segir Dýrleif um framhaldsskólanám sitt. 

Langaði að taka verklega áfanga

Þegar kom að því að velja framhalsskóla varð Tækniskólinn fyrir valinu þar sem henni fannst námið hljóma spennandi og segir hún námið hafa staðist væntingar. „Við náðum að móta svolítið brautina af því það var verið að kenna þetta í fyrsta skipti. Mig langaði að fara í eitthvað verklegt og mér fannst lotukerfið mjög áhugavert. Ég var tilbúinn í að vera tilraunadýr.“

Hvað lærðir þú þar annað en í hefðbundnum framhaldsskóla?

„Þetta var oft og tíðum mjög erfitt og ég þurfti að taka á honum stóra mínum. Annars var þetta heilt yfir mjög skemmtileg braut og ég held að ég hafi lært meira en ef ég hefði farið í eitthvað annað. Við vorum talsvert að vinna við kynningar og í hópavinnu sem var skemmtilegt í stað þess að vera í námi byggðu á prófum. Það var mikið rafrænt í kennslunni og við vorum að reyna ný forrit. Þessi braut er sambland af upplýsingatækni- og náttúrufræðibraut. Við fengum líka tækifæri til að taka valáfanga í öðrum sviðum og ég gat tekið rafmagnsfræðisviðið sem var líka mjög áhugavert.“

Tók námið á sínum hraða

Hvernig var að útskrifast aðeins 17 ára?

„Það var auðvitað skemmtilegt að úskrifast 17 ára og ná að klára Tækniskólann á tveimur og hálfu ári. Ég hef alltaf lagt mikið á mig í námi en það hefur ekki alltaf verið auðvelt. Ég átti heima í Norður-Virginíu í Bandaríkjunum í sjö ár og var í námi þar frá 2. bekk til 8. bekkjar. Það var lagt mikið á nemendur þar, mikið að læra og gott skipulag í skólanum og kennslunni. Ég þurfti að læra mjög fljótt að vera góður nemandi. Það var ekkert annað í boði. Ég setti aldrei það markmið að útskrifast 17 ára, þetta gerðist bara. Ég vissi ekki að ég væri yngsti einstaklingurinn til að útskrifast sem stúdent úr Tækniskólanum fyrr en í athöfninni sjálfri. Mér finnst leiðin sem ég hef farið að náminu ekki standa mikið út úr, þetta er bara afskaplega venjulegt og á afskaplega venjulegum hraða í mínum augum. Allir taka námið á mismunandi hraða, og þetta er minn. Ég var ekki ákveðin í að fara beint í háskóla eftir að ég útskrifaðist úr Tækniskólanum, en þegar ég fann vél- og orkutæknifræðina þá hugsaði ég að það sakaði ekki að prófa. Ég ætlaði bara að hætta ef það hentaði mér ekki, en svo hefur það reynst vera hið fullkomna nám fyrir mig.“

Dýrleif útskrifaðist sem fyrr segir á tveimur og hálfu ári og nýtti tímann eftir stúdentspróf til þess að heimsækja foreldra sína sem eru búsettir í Belgíu auk þess sem hún vann hjá Eldingu hvalaskoðun sem háseti og sölufulltrúi. Um haustið hóf hún nám í Háskólanum í Reykjavík. 

„Ég fékk raungreinaverðlaun HR þegar ég útskrifaðist úr Tækniskólanum. Þeir sem út­skrif­ast af K2 í Tækniskólanum eru með mennt­un sem tek­ur mið af aðgangs­kröf­um í tækni-, verkfræði- og tölv­un­ar­fræðideild Há­skól­ans í Reykja­vík. Val­grein­ar nem­enda og tengsl við at­vinnu­lífið veita inn­sýn og færni á fjöl­breytt­ara sviði en ann­ars er í bók­námi. Ég vissi ekki alveg hvað ég vildi fara út í nema það að ég heillaðist af rafmagnstengdu námi. Ég tók eftir rafmagnstæknifræði fyrst innan tæknifræðinnar. Ég skoðaði síðan vél- og orkutæknifræðina og leist mjög vel á. Þessi námsbraut er innan iðn- og tæknifræðideildar HR. Þetta er krefjandi og spennandi nám og býður upp á tengingu við atvinnulífið. Við höfum aðgang að vélaverkstæði og erum dugleg að fara þar inn og leika okkur og finna út hvernig á að gera hitt og þetta, hvort sem það er á rennibekknum eða að sjóða. Við tengjum það við bóklega námið það sem við erum að læra í tímum. Tæknifræðin er blanda af bóklegu og verklegu námi sem er mjög sniðugt og praktískt. Vél- og orkutæknifræði snýr að hönnun, greiningu og rekstri fjölbreyttra vélrænna kerfa. Það undirbýr okkur nemendur vel fyrir framtíðina á atvinnumarkaðnum. Þetta á sérstaklega við í tæknifræðinni.“

Hér má sjá Dýrleifu ásamt vini sínum Eyþóri Mánia Steinarssyni, …
Hér má sjá Dýrleifu ásamt vini sínum Eyþóri Mánia Steinarssyni, rekstrarstjóra Hopp. Dýrleif og Eyþór stofnuðu Vélmennaforritunarsambandið (VSÍ) ásamt Kötlu Maríu Unnþórsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Í landsliðinu í vélmennaforritun

Hvað sérðu fyrir þér að gera í framtíðinni?

„Ég stefni á að verða tæknifræðingur. Ef ég vil fara dýpra inn í eitthvert sérstakt starf þá myndi ég vilja verða verkfræðingur. Ég væri alveg til í að vinna í orkugeiranum. Það er svona það sem ég stefni á en það á eftir að koma betur í ljós þegar náminu lýkur í HR. Ég vann hjá RARIK í sumar og var að ferðast um allt land að skrá upplýsingar um hitaveitustöðvar, hluti innan hitaveitna og varaaflsvélar. Í þessari vinnu hitti ég tæknifræðinga og verkfræðinga og fannst áhugavert að fylgjast með þeim að störfum og gat séð sjálfa mig fyrir mér í þannig störfum í framtíðinni.“

Hvað er helsta áhugamálið þegar þú ert ekki í skólanum?

„Ég hef verið í vélmennaforritunarlandsliðinu. Við höfum farið utan að keppa í vélmennaforritun. Við kepptum meðal annars í Mexíkó 2018 í alþjóðlegri keppni og náðum 2. sæti af 192 löndum. Það var mjög skemmtilegt. Þetta er ungur hópur af krökkum og auðvitað erum við nördar,“ segir hún hlæjandi og bætir við að hún komi ekki úr Tækniskólanum að ástæðulausu. Hún er meira að segja einn af stofnendum Vélmennaforritunarsambands Íslands, VSÍ. Dýrleif sér meðal annars um skipulagningu keppna og þjálfun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda