Fjölmiðlakonan Björg Magnúsdóttir er einn þriggja handritshöfunda að þáttunum Ráðherrann sem frumsýndir verða á RÚV á sunnudaginn. Ráðherrann fjallar um stjórnmálamanninn Benedikt Ríkharðsson sem kemst í stól forsætisráðherra Íslands eftir spennandi alþingiskosningar.
„Benedikt er leiðtoginn sem við öll þráum, greindur hæfileikamaður með hjartað á réttum stað. Vandamálið er bara að samhliða því að vera æðsti valdhafi þjóðarinnar heyir hann hressilega baráttu í höfðinu á sér. Hann er nefnilega með geðhvarfasýki. Serían er í raun ferðalag hans gegnum ólgusjó pólitíkur og andlegra veikinda með tilheyrandi drama og sveiflum. Ráðherrann er líka saga aðstandenda manneskju í jafn öfgakenndum aðstæðum, eiginkonu hans Steinunnar sem er eigandi fjölmiðlaveldis komin úr pólitískri fjölskyldu, sem og aðstoðarkonu Benedikts, Hrefnu,“ segir Björg í viðtali við Morgunblaðið.
Hún segir uppleggið hafi verið að búa til einhvers konar hliðarveruleika við íslenskt samfélag og hnýta saman stjórnmál og geðveiki. Þáttunum leikstýra þau Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarsson en með aðalhlutverk fara þau Ólafur Darri Ólafsson, Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.
Ásamt Björgu voru þeir Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson í höfundateyminu að þáttunum. Þau byrjuðu að skrifa handritið fyrir 7 árum og því langt ferli frá því að hugmynd mótast þangað til hún er komin á sjónvarpsskjáinn.
Björg hefur skrifað tvær bækur, Ekki þessi týpa og Þessi týpa, og það liggur því beinast við að spyrja hver sé munurinn á því að skrifa bók og að skrifa handrit að þáttum.
„Stærsti munurinn liggur í því að þegar rithöfundur skrifar bók ræður hún eða hann svo gott sem öllu. Það gerir hins vegar enginn nokkurn skapaðan hlut einn þegar kemur að sjónvarpsskrifum eða vinnslu í sjónvarpi. Þar er maður stanslaust í díalóg við meðhöfunda og framleiðslu eftir atvikum, fær nótur, gagnrýni og er stöðugt að endurskrifa. Þess vegna er mjög mikilvægt að læra að skilja egóið eftir fyrir utan höfundaherbergið og taka gagnrýni ekki persónulega, það er að segja ef maður ætlar ekki að missa vitið í svona ferli,“ segir Björg.
Þegar þau Björg, Birkir og Jónas skrifuðu handritið leituðu þau að innblæstri úr ýmsum áttum.
„Ég var eins og margir dolfallin yfir dönsku þáttunum Borgen sem komu upphaflega út 2010 og fjalla um valdatafl í þarlendum stjórnmálum. Svo má alveg nefna aðrar stórkostlegar seríur á borð við West Wing, Yes Minister og House of Cards sem skvettu bensíni á þá hugmynd að mögulega væri hægt að búa til sögu sem byggði á íslenskri stjórnmála- og menningarsögu.
Hugmyndin þróaðist síðan og þroskaðist yfir langan tíma í samstarfi við meðhöfunda mína, Birki Blæ Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson. Við leituðum fanga mjög víða, reyndum eftir fremsta megni að kynna okkur geðhvarfasýki og aðrar andlegar áskoranir í gegnum viðtöl og skrif, skoðuðum ýmsa leiðtoga, bókmenntir og klassísk deilumál Íslendinga í gegnum tíðina sem rötuðu síðan inn í þættina með ólíkum hætti. Í Ráðherranum er sem sagt fullt af dótaríi sem Íslendingar munu kannast vel við,“ segir Björg.
En hverjum byggir geðveiki ráðherrann Benedikt á?
„Það er ekkert launungamál að við urðum fyrir áhrifum ýmissa leiðtoga varðandi persónugerð, sjarma og ákveðin atvik eða mál sem hentu á valdastóli. Í þeim flokki má til dæmis nefna Jónas frá Hriflu, Boris Johnson, Davíð Oddsson, Donald Trump, Kjell Magne Bondevik, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Winston Churchill. Allt finnst mér þetta mjög áhugaverðar persónur. Þetta er auðvitað vaðandi karlagallerí sem endurspeglar að ákveðnu leyti þann veruleika sem við búum við,“ segir Björg.
Björg hefur sýslað ýmislegt síðustu misseri en hún kom að skrifum að þáttunum Systrabönd sem kláruðust í tökum nú í sumar. Silja Hauksdóttir leikstýrir þáttunum en þættirnir fjalla um skelfilegt leyndarmál sem þrjár konur á fertugsaldri hafa burðast með frá unglingsaldri. Þættina skrifaði Björg ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni og seinna í ferlinu bættist Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir við teymið.
Björg stýrir einnig þáttunum Morgunkaffið á laugardagsmorgnum á Rás 2 ásamt Gísla Marteini Baldurssyni. Síðastliðinn föstudag hófst svo önnur sería af þáttunum Kappsmál í loftið. Kappsmál hefur notið mikilla vinsælda en Björg stýrir þáttunum ásamt Braga Valdimari Skúlasyni.
„Það er nú enn einn skemmtigarðurinn enda er þar markmiðið að leika okkur með íslenskuna á léttum nótum og fáum við góða keppendur í lið með okkur. Eins og allir vita á íslenskan undir höggi að sækja á þessum síðustu og verstu en einmitt í ljósi þess fögnum við því að fá tækifæri til þess að búa til prógramm sem hefur þetta tvíþætta markmið, að skemmta fólki og leika okkur með okkar dásamlega tungumál. Íslenskan á það svo feitt skilið að við peppum hana!“