Bergsveinn Ólafsson, eða Beggi Ólafs eins og hann er kallaður, er fyrirlesari með M.Sc. í jákvæðri sálfræði og þjálfunarsálfræði. Hann gaf nýverið út bók sem heitir Tíu skref í átt að innihaldsríku lífi. Bókin fjallar um málefni sem hafa átt hug hans allan að undanförnu.
„Bókin er hluti af mínu lífsverkefni sem er að kortleggja innihaldsríkt líf. Hún er afurð af sex ára sálfræðinámi og tugum þúsunda klukkutíma sem ég hef varið í að lesa vísindagreinar, bækur og efla lærdóminn með því að skrifa um það sem ég les og tengja það við mitt eigið líf. Ég leit á bókina sem vettvang þar sem ég skýri út á eins einfaldan og áhugaverðan máta hvað rannsóknir og kenningar úr sálfræði og merkir hugsuðir segja um hvernig við getum færst nær innihaldríku lífi. Að lifa lífi sem er þess virði að lifa. Það er að átta sig á í hvað manni býr og að vinna markvisst á hverjum degi í að virkja það í sjálfum sér og hjálpa öðrum að gera það sama.“
Bergsveinn segir mikilvægt að vera í góðum tengslum við fólkið í kringum sig.
„Við þurfum að muna allt það góða í lífinu en líka að taka ábyrgð og sýna þrautseigju við öllum áskorununum sem verða á vegi okkar. Við þurfum að þekkja okkur og fylgja því sem maður hefur brennandi áhuga og ástríðu fyrir. Það er að sýna hugrekki þótt maður sé hrædd eða hræddur. Að vaxa út lífið því lífið snýst um að læra og lífið hættir aldrei að kenna.“
Hann segir að með skrefunum sé gott að miðla lærdómi og þekkingu.
Skrefin í bókunum eru áhugaverð.
„Að tækla lífið er krefjandi verkefni og með bókinni tel ég mig geta stutt fólk í sinni eigin vegferð. Hvert skref er hugleiðingar um ákveðið viðfangsefni sem ég tengi svo við rannsóknir, persónulega reynslu og merka hugsuði. Það fylgir svo verkefnahefti með bókinni svo fólk geti framkvæmt það sem það les um. Þannig lærir maður af því sem maður les.“
Bergsveinn segist frekar vilja vera óhamingjusamur heimspekingur en hamingjusamt flón.
„Því meðvitaðri sem maður er um sjálfan sig og ákvarðanir sem maður tekur á hverjum einasta degi og hvaða áhrif það hefur því meiri þjáningu upplifir maður. Ástæðan fyrir því er að maður þarf að hugsa mikið og staldra við hverja einustu ákvörðun sem maður tekur.
Auðveldara er að líta meðvitað blint framhjá hlutunum sem þú veist að þú þarft að takast á við eða laga til þess að líf þitt og annarra verði betra. Það er miklu auðveldara að hugsa ekki neitt og gera hluti í meðvitaðri blindni. Það er auðvelt að réttlæta ákvarðanir sínar án þess að spá síðan í afleiðingarnar. Ég trúi því hins vegar að í enda dagsins súpum við seyðið af því sem við gerum og því sem við gerum ekki.
Ég er tilbúinn að taka á mig þjáninguna sem fylgir því að vera meðvitaður heimspekingur í staðinn fyrir að vera hamingjusamt flón. Það gerir mig að betri manni. Hjálpar mér að efla fólkið í kringum mig og gera heiminn að betri stað. Það gerir líf mitt að krefjandi og innihaldsríku ævintýri.“
Hvað er það erfiðasta sem þú hefur lent í í lífinu?
„Þegar náið fólk fer frá manni, sem er hluti af lífinu, þá tekur það alltaf á. Þegar það gerist með óvæntum hætti tekur það virkilega mikið á alla sem því standa næst.
Ég hef verið tiltölulega „heppinn“ með að lenda í miklum erfiðleikum. Það eru ekki mörg augnablik sem standa endilega upp úr heldur frekar ef maður lítur í heildina yfir lífið. Almennt finnst mér erfiðast að sjá annað fólk sem er mér náið þjást.
Mér fannst virkilega erfitt að eiga við dauðann; að einn daginn mun fólkið í kringum mann ekki vera til staðar. Sú hugsun gerir mig stundum leiðan en ég nota dauðann frekar sem hvata til að sinna tengslum og njóta allra augnablika með fólkinu mínu eins vel og ég get.
Á aðeins léttari nótum þá var það að hætta í fótbolta það erfiðasta sem ég hef gert í langan tíma. Að hætta einhverju sem ég hafði elskað og unnið að í svo mörg ár tók á mig.“
En það ánægjulegasta?
„Það eru nokkur augnablik sem standa upp úr. Þegar ég fékk bókina í hendurnar var ég rosalega stoltur og ánægður. Þegar ég sé fólk sem vinnur með mér bæta sig eða yfirstíga það sem stóð í vegi fyrir því fyllist ég alltaf miklu stolti. Að halda fyrirlestur í Hörpu var líka ákveðinn draumur að verða að veruleika.“
Hvort skiptir þig meira máli að vera í góðu andlegu formi eða líkamlegu?
„Það helst klárlega sterkt í hendur en þegar andlegi þátturinn er í góðu standi, þá fylgir því að líkamlegi þátturinn sé í góðum málum. Þegar maður á í hollu sambandi við mat og hreyfingu, sefur vel og hugar að streitunni er afleiðingin sú að manni líður vel líkamlega, sem lætur manni líða ennþá betur andlega. Að hreyfa sig til að að líða vel og borða til að næra sjálfan sig er töluvert betri nálgun en að hreyfa sig til að refsa sjálfum sér eða borða til þess að deyfa tilfinningar. Ég myndi segja að andlega viðleitnin og styrkurinn skipti mig klárlega meira máli og að það sé grunnurinn að góðu líkamlegu heilbrigði.“
Áttu suppskrift að góðum stundum fram að jólum fyrir þá sem eru að missa móðinn vegna ástandsins í dag?
„Það sem Viktor Fankl kenndi okkur var að það getur aldrei verið tekið frá okkur hvernig við bregðumst við aðstæðum. Þegar við getum ekki breytt aðstæðum erum við knúin til að breyta okkar viðhorfi sjálf. Það sem Viktor Fankl gerði meðal annars var að nýta þessi litlu augnablik í fangabúðunum sem hann var í, þrátt fyrir mikla þjáningu sem átti sér stað þar, til að tengjast mönnunum sem voru með honum. Að hlæja og sýna ást og kærleik. Að veita athygli öllu því litla, þrátt fyrir að maður sé að ganga í gegnum erfiða tíma, getur haft mikinn ávinning í för með sér.
Að sama skapi að setja minni pressu á sig yfir jólin, þótt hún sé vel skiljanleg í mörgum tilvikum. Heimurinn í heild sinni er að eiga við kórónuveiruna saman. Að átta sig á því gefur tækifæri á að sýna öðrum samhygð og samkennd með því að tengja við hvernig öðrum líður á þessum tímum. Það eykur umburðarlyndi og skilning.
Að lokum getur verið gott að pæla í hvaða góðu áhrif maður getur haft á aðra í kringum sig. Þegar maður hefur sig yfir sjálfan sig og setur athyglina á annað en mann sjálfan upplifir maður tilgang og ánægju fyrir vikið. Jólin eru tími góðvildar og því skora ég á fólk að gera fimm tilviljunarkennd góðverk á einum degi – smá eða stór – sem það er ekki vant að gera.
Nú eru ótrúlega margir að upplifa breytingar í umhverfi sínu. Við erum mörg hver föst heima og sumir búnir að missa vinnuna.“
Er öryggi fólgið í breytingum eða stöðnun að þínu mati?
„Góð spurning. Ef þú ert staðnaður þá ertu í of miklu öryggi. Öryggi er af hinu góða en stöðnun er ekki góð, því við vöxum ekki í örygginu og við þurfum að vaxa. Ætli leiðin sé ekki að vera ávallt að mynda nýtt öryggi í breytingum sem maður er að eiga við. Ef breytingar eru miklar, þá að leita í það öryggi sem maður getur myndað, og ef breytingar eru engar, þá að stíga einum fæti í óvissuna og mynda nýtt öryggi. Til þess þarf mikið hugrekki en þú átt að vera hræddari við staðinn sem þú ert á en þann sem gæti mögulega orðið.“