Sverrir Bergmann orðinn stærðfræðikennari

Sverrir Bergmann kennir menntaskólastærðfræði.
Sverrir Bergmann kennir menntaskólastærðfræði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tónlistarmaðurinn Sverrir Bergmann bætti nýju starfi við ferilskrána sína á dögunum þegar hann hóf að kenna stærðfræði við Menntaskólann á Ásbrú í hálfu starfshlutfalli. Hann segir gamlan draum vera að rætast en Sverrir er gamalt stærðfræðiséní. 

Sverrir byrjaði að fikta við stærðfræðikennslu þegar hann var unglingur á Króknum og tók fólk í aukatíma í stærðfræði. „Ég dúxaði í stærðfræði bæði í gagnfræðiskóla og framhaldsskóla,“ segir Sverrir hógvær þegar hann er spurður út í stærðfræðihæfileikana. Fyrir um tveimur árum útskrifaðist hann síðan úr viðskiptafræði en fyrir það menntaði hann sig í margmiðlunarfræði. 

Kennslan hefur komið sér vel enda ekki mikið að gera hjá tónlistarfólki í kófnu. Hann bauð sig fram sem afleysingakennari fyrr í vetur í Akurskóla og nú er hann kominn í fast starf í Menntaskólanum á Ásbrú.

„Þetta er hefðbundinn menntaskóli. Þeir bjóða upp á stúdentspróf af braut sem snýr að tölvuleikjagerð. Ég búinn að vera með tölvuleikjaþáttinn Game Tv í 15 ár og svo er ég útskrifaður margmiðlunarfræðingur líka. Þannig þetta small bara eins og flís við rass að komast þarna inn,“ segir Sverrir.

Sverrir byrjaði að kenna í vikunni og kippa nemendurnir sér ekki upp við að stærðfræðikennarinn sé poppstjarna og þekkja hann ekki endilega. Reyndar þurfa allir að vera með grímur svo það kannski spilar eitthvað inn í. „Ég var að minnsta kosti spurður áðan hvað ég héti og spurður hvort það mætti kalla mig Sveppa eins og Sveppa „krull“. Ég sagði nei helst ekki gera það, hann er vinur minn,“ segir Sverrir en nemandanum fannst mikils til vinskapar þeirra koma. 

Sverrir gæti vel hugsað sér að einbeita sér meira að kennslu. Hann segir námið í skólanum mjög spennandi og alls konar margmiðlun kennd í skólanum sem hann kann vel. 

„Þetta leggst rosalega vel í mig, ég er náttúrulega bara búinn með þrjá, fjóra daga. Þetta er gamall draumur sem er að rætast, grínlaust,“ segir Sverrir spenntur fyrir nýja starfinu.

„Síðustu fimm ár hef ég bara verið í tónlist en síðasta ár var maður meira og minna atvinnulaus. Við tókum syrpu þegar það var tónaflóð í sumar. En svo fyrir utan það er maður bara búinn að sitja auðum höndum fyrir utan það að ég eignaðist barn í febrúar. Hún er alveg búin að sjá til þess að það er nóg að gera.“

Sverrir er engan veginn hættur í tónlistinni þó svo hann sé upptekinn í stærðfræðinni þessar vikurnar. Hann var að gefa út nýtt lag sem heitir Ég man. „Það er samið um heimahagana, ég er að semja til Sauðárkróks  þó það komi kannski ekki fram en ég ýja að því í laginu. Ég er að semja um Sauðárkrók og Skagafjörð.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda