Dr. Björk Guðjónsdóttir vann um árabil á Kleppsspítala og seinna á göngudeild áfengissjúkra. Hún segir að hver persóna sé verðmæt, hvort sem hún er með sjúkdóm eða ekki. Hún varði doktorsverkefni sitt 78 ára en ritgerðin fjallaði um kjarkinn til að breyta.
Björk Guðjónsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1941. Hún lauk prófi frá Hjúkrunarkvennaskóla Íslands árið 1963. Lauk sérnámi í geðhjúkrun frá Nýja hjúkrunarskólanum árið 1981. Hún hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur við geðdeildir Landspítala frá árinu 1967 til 2003, þar af um 25 ár á Göngudeild fyrir áfengissjúklinga við Hringbraut, Reykjavík. Björk lauk BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og MA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands 2010.
Árið 1967 bauðst henni vinna á Kleppsspítalanum og þáði hún starfið af praktískum ástæðum þar sem á þessum tíma bauðst hjúkrunarfræðingum húsnæði og barnapössun á staðnum.
„Ég og þáverandi maðurinn minn, Skúli Ólafsson, vorum með tvö lítil börn og það var ekkert fæðingarorlof eða leikskólar sem gripu mæður sem vildu vinna úti.“
Björk hóf störf á Kleppspítalanum á þeim tíma sem Tómas Helgason læknir og Þórunn Pálsdóttir hjúkrunarforstjóri stýrðu spítalanum. Hún segir mikla byltingu hafa orðið á þeirra tíma, þar sem spítalinn færði sig frá því að vera geymslustaður fyrir veika einstaklinga yfir í að vera meðferðarstöð þar sem leitast var við að lækna fólk og styðja við, frá allskonar fagfólki.
„Inn á Kleppspítala komu sálfræðingar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafar og svo urðu miklar breytingar á geðlækningum á þessum tíma í landinu.
Tómas var ungur maður og mjög drífandi og hóf að hafa færri sjúklinga á hverri deild og að reyna að lækna fólkið sem var þarna inni. Þórunn stóð þétt við bakið á honum í þessu og án hennar hefði þetta ekki verið hægt.“
Árið 1981 þegar geðdeildin var opnuð á Landspítala við Hringbraut bauðst Björk að færa sig þangað. Hún þáði það; aftur vegna þess að það hentaði henni sem fjölskyldukonu. Nú voru börnin orðin eldri og auðvelt að koma sér með einum strætó í vinnuna.
„Ég byrjaði 1. desember árið 1981 á göngudeild fyrir áfengissjúklinga og segi stundum að þá hafi ég dottið í brennivínið. Ekki í flöskuna eins og gefur að skilja heldur með því að sinna þeim sem háðu baráttu við Bakkus.“
Það er auðséð á tali Bjarkar að henni þótti vænt um skjólstæðinga sína og hefur dýpri skilning á alkóhólisma en margir aðrir í samfélaginu.
„Ég kynntist fólkinu vel sem var á þeim tíma meira í áfengi en lyfjum eða dópi. Fólkið sem kom á deildina var búið að reyna allt sem það gat til að vera edrú. Það hafði prófað SÁÁ, farið í 12 spora samtök en hafði ekki náð sér á beinu brautina. Þannig að við vorum svolítið eins og síðari stoppistöð.
Í dag er búið að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að göngudeild áfengis hefur verið sameinuð almennu göngudeildinni niðri sem sinnir almennri geðheilbrigðisþjónustu. Hún er ekki lengur sjálfstæð deild. Í starfi mínu kynntist ég einhverju af því besta fólki sem ég hef kynnst um ævina sem var með erfiðan sjúkdóm.“
Hvað var það við þetta fólk sem var svona gott?
„Þeir sem eru að kljást við alkóhólisma eru svo viðkvæmt fólk. Í raun upplifði ég þá sem einstaklinga sem ættu erfitt með að horfast í augu við lífið. Þau misnotuðu vímuefni, ekki vegna þess að þau vildu gera illa, heldur af því þau voru með þennan sjúkdóm sem þau höfðu ekki stjórn á. Margir af þeim sem höfðu ekki getað notað hefðbundin kerfi, eins og 12 sporin, grétu yfir að fá ekki lækningu sinna meina þar.
Þau bara náðu ekki hugsuninni eða tengingunni þarna inn.
Svo var annar hópur sem ég kynntist líka sem voru aðstandendur alkóhólistanna. Það var upplifun út af fyrir sig.
Ég mætti oft aðstandendum sem komu með alkann sinn sem var búinn að brjóta öll samkomulög, þá virkaði stundum eins og aðstandendurnir væru veikari en alkinn.
Þegar ég var að reyna að benda þessu fólki á að alkóhólistinn væri veikur, urðu þau stundum reið og vildu kæra mig. Svo var það hópur kvenna sem ég fór að taka eftir sem voru öðruvísi aðstandendur. Konur sem voru ljúfar og góðar við alkann sinn og voru með allt annað viðhorf en þeir sem hálfpartinn sturtuðu fólki inn á deildina okkar.
Þetta voru Al-Anon-konur, aðstandendur alkóhólista sem höfðu nýtt sér hugmyndafræði Alcoholics Anonymous (AA). Þær töluðu um alkann sinn sem sjúkan einstakling, en ekki eins og drullusokk.“
Björk segist ekki muna eftir að hafa hitt neinn Al-Anon-karl í starfi sínu og það hafi gert hana forvitna að fara að rannsaka þessi mál betur.
„Þetta er upphafið á því að eftir að ég fór á eftirlaun hóf ég nám í mannfræði þar sem ég skoðaði þessi mál ofan í kjölinn. Það sem ég komst að út frá bandarískum rannsóknum og gögnum er að 85% þeirra sem stunda Al-Anon í Bandaríkjunum eru konur. Það eru ekki gerðar athuganir á þessu hér heima en ég er nokkuð viss um að hlutföllin séu svipuð hér og þar.
Að sjálfsögðu hitti ég alveg yndislega menn sem studdu konurnar sínar, en mér fannst öðruvísi að mæta konum í áfengisvanda en körlum. Þær voru með meiri skömm og þessa hugmynd að konur ættu ekki að vera með þetta vandamál. Þær komu seinna en karlarnir og virtust ekki ná bata að sama marki og þeir. Ég fann svo til með mörgum af þessum konum, sem voru með sjálfsmyndina sína í kjallaranum. Þetta sat í mér og því var ég með rannsóknarspurningu í kollinum þegar ég skráði mig í mannfræði sem mig langaði að svara sem var:
Af hverju gengur konunum svona illa að ná edrúmennsku miðað við karlana?“
Björk segir lokaverkefni sitt í BA- náminu hafa fjallað um konur sem höfðu náð árangri frá alkóhólisma. Hún fann þessar konur í Háskóla Íslands og gerði eigindlega rannsókn þar sem hún spurði þær út í batagönguna þeirra.
„Þessar konur byrjuðu ungar, en fundu að það var ekkert líf að lifa í virkri fíkn. Þær komust í gegnum grunnskóla, menntaskóla og áfram í háskóla og fannst það fínt því þær gátu drukkið með náminu sínu. Þær fundu leið til að hætta, fóru í AA og héldu sér edrú þannig. Ég komst að því að mörgum þeirra þótti erfitt að vera í AA, en það ku vera búið að opna fleiri kvennadeildir þar, sem ég held að geri konunum gott.
Ég var alltaf með þá hugmynd í kollinum að móðurtilfinningin væri sterkari en fíknin, en þær sögðu ekki svo vera. Að þær hefðu bara komið börnunum fyrir í pössun og svo dottið í það. Ég ákvað svo að skoða aðstandendur alkóhólista í meistaraverkefninu mínu, þar eð stúlkurnar sem ólust upp með foreldrum í virkri fíkn.
Það sem ég komst að í þeirri rannsókn var að þeim stúlkum sem fóru í Al-Anon vegnaði betur í lífinu en öðrum.“
Björk segir að Al-Anon-konurnar séu ótrúlega sjálfstæðar og sterkar og þær séu höfuð fjölskyldu sinnar. Þær sem halda fjölskyldunni saman og gefa bata sinn áfram til barnanna sinna.
„Í doktorsverkefninu mínu skoðaði ég hvernig sýndi ég fram á hvernig þær breyta persónuleika sínum hægt og rólega með 12 sporunum og verða æðislega flottar og raunsæjar og það sem heillaði mig svo mikið var hvað þær voru rólegar. 12 sporin kenna fólki að tala og tjá sig en kenna fólki einnig að hlusta.
Ég upplifi þessar konur með báða fæturna á jörðinni, þær verða svakalega flottir yfirmenn og ná langt í lífinu, svo framarlega sem þær halda sér í prógramminu.“
Björk segir að það séu allskonar leiðir fyrir aðstandendur að ná sér í bata, hugræn atferlismeðferð sé ein þeirra en það sé í skamman tíma, en Al-Anon sé langtímaleið.
„Ég talaði við eldri konur í Al-Anon og þær yngri líka.
Það sem heillaði mig mest við að tala við þessa einstaklinga sem voru að vinna í sér í 12 sporunum var hvað þau komu batanum sínum áfram á komandi kynslóðir innan fjölskyldunnar. Einnig náðu þær að koma batanum sínum stundum á aðra einstaklinga í samfélaginu, svo hægt og rólega færist meðalið út á meðal fólks.“
Sjálf hefur Björk aldrei verið í 12 sporunum og fjallar um viðfangsefnið út frá fræðilegum grunni.
Nú eru mismunandi kenningar um alkóhólisma og vilja sumir meina að það sé sjúkdómur á meðan aðrir segja að stjórnleysið megi rekja til áfalla. Hverju trúir þú?
„Ég held að það sé nauðsynlegt að setja þetta undir flokk með sjúkdómum, út frá praktískum sjónarmiðum, þar sem þá er auðveldara að fá fjármagn í málaflokkinn. Ég trúi því að þetta sé bæði sjúkdómur en einnig áföll og tel ég ekki eitt útiloka annað. Ég hef átt samtal um þetta við Kára Stefánsson sem sagði mér að hann ætlaði að finna fíknigenið. Ég held að það hafi reynst honum erfitt, en ég tel stöðuga framþróun og vangaveltur um leiðir í bata mikilvægar. Það sem við verðum einnig að muna er að ef við setjum þetta undir sjúkdóm, þá getum við auðveldara breytt viðhorfi fólks til málaflokksins. Sjúklingarnir sem ég sinnti alla mína starfsævi voru ekki drullusokkar, heldur veikt fólk sem var að gera sitt allra besta. Það voru allir með sína sögu, en ég get skrifað undir að það var enginn vondur í eðli sínu eða vildi vera veikur af því sem þeir voru að fást við.“
Björk segist aðhyllast kenningar um að samfélagið skipti máli þegar kemur að veiku fólki.
Þá langar hana að minnast á mikilvægi þess að við sem samfélag samþykkjum að konur geti veikst af alkóhólisma og þurfum við að hlúa að þeim og vera með jákvætt viðhorf til þeirra svo þær komist betur í bata.
„Konur eiga að vera svo heilagar. Þær eiga ekki að vera fyllibyttur, sem er ástæðan fyrir því að ég held að þær komi of seint og allt of margar konur deyja úr sjúkdóminum. Eins hlýtur að skipta máli að karlar leiti sér aðstoðar í Al-Anon líkt og konur gera. Ef það eykur líkurnar á bata fyrir alkóhólistann og fjölskylduna. Al-Anon-konurnar þorðu að hafa skoðun og að rökræða í stað þess að halda kjafti og ég held að það sé jákvætt inn í svona flóknar aðstæður.
Eins fannst mér gaman að fylgjast með því hvað Al-Anon-konurnar voru fjárhagslega sjálfstæðar og flottar.“
Björk varði doktorsritgerðina sína 78 ára að aldri og því er áhugavert að vita hvaða skoðun hún hefur á menntun fyrir fólk á sínum aldri.
„Já mér finnst æðislegt að læra á öllum aldri og mér finnst fólk ekkert þurfa að drífa sig í þessum málum.
Ef maður ætlar að gera hlutina vel þá er í lagi að þeir taki svolítinn tíma.
Svo má maður aldrei gleyma að njóta hlutanna líka.“
Árið 2020 hefur reynt meira en mörg ár á Björk þar sem hún missti eiginmann sinn, Jón Hall Jóhannsson, í maímánuði úr alzheimer. Hún er dugleg að fara út að ganga og huga að sjálfri sér en saknar ástarinnar sinnar mikið og er að gefa sér tíma í að syrgja hann.
„Ég fer í sorgargöngutúra daglega og er að bíða eftir því að komast að hjá Sorgarmiðstöðinni. Því þær geta ekki byrjað þar vegna kórónuveirunnar. Ég er að hlúa að mér og mig langar að taka minn tíma til þess, svo þegar ég hef náð mér á strik aftur, þá ætla ég að taka ákvörðun um hvað ég geri við lífið mitt og hvernig ég fer inn í framtíðina.“
Björk segir að starfið sem hún tileinkaði því að hjálpa öðrum hafi gefið henni margfalt til baka. Að hún hefði aldrei kunnað að sinna manninum sínum svona veikum ef henni hefði ekki hlotnast það að vinna við það sem hún gerði.
„Vegna sjúkdómsins var maðurinn minn hættur að geta talað. Við áttum innilegt samband fram á síðasta dag og þó hann gæti ekki talað við mig alltaf, þá talaði ég við hann rétt eins og hann væri ekki veikur. Ætli það sé ekki þjálfunin sem ég fékk í gegnum starfið mitt, að sjá það heila og fallega í hverri persónu.“
Hún segir lykilinn að góðu ástarsambandi það að vanda valið á makanum sínum.
„Að elska einstakling eins og hann er og að vera elskaður fyrir hvað maður er, er ást í mínum huga. Ég og maðurinn minn vorum ekki endilega alltaf á sömu skoðun, en við vorum með sömu gildi og kunnum að meta hvort annað.“