Ætlar að velta milljarði á þessu ári

Sigrún Guðjónsdóttir prýðir forsíðu Smartlandsblaðsins sem kom út í dag með Morgunblaðinu. Hún talar um valdeflingu kvenna í viðtalinu og hvernig hún fór að því að eignast peninga. 

Á síðustu sjö árum hefur Sigrún Guðjónsdóttir haft yfir milljarð í tekjur af því að hjálpa konum úti um allan heim að byggja upp þekkingarfyrirtæki á netinu. Sigrún á og rekur alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki í Sviss. Hún er alþjóðlegur viðskiptaráðgjafi (e. business coach) og TEDx-fyrirlesari. Hún framleiðir hlaðvarpið The Sigrun Show, er með vikulegan þátt á YouTube og er reglulegur viðmælandi úti um allan heim. 

Sigrún Guðjónsdóttir prýðir forsíðu Smartlandsblaðsins.
Sigrún Guðjónsdóttir prýðir forsíðu Smartlandsblaðsins.
Sigrún hefur að mestu búið, stundað nám og starfað erlendis eftir að hún lauk námi í arkitektúr við Tækniháskólann í Karlsruhe, Þýskalandi og upplýsingaarkitektúr við Tækniháskólann í Zürich, Sviss. Í kjölfarið hóf hún störf sem upplýsingaarkitekt og síðar deildarstjóri hjá Landmat, sem sérhæfði sig í viðskiptalegri hagnýtingu landupplýsinga. Sigrún hóf nám með vinnu í tölvunarfræði eftir að hafa tekið þátt í FrumkvöðlaAuði þar sem hún lærði að gera viðskiptaáætlanir. Þaðan lá leiðin í stjórnendastörf hjá upplýsingatæknifyrirtækjum á Íslandi, fyrst hjá veffyrirtækinu Innn þar sem hún sneri 7 ára í taprekstri á skömmum tíma í hagnað. Eftir þá reynslu tók hún við stjórn Tæknivals aðeins 33 ára gömul uns það var selt 15 mánuðum síðar. Eftir það tók við frekari uppbygging á Innn uns fyrirtækið var selt til 365 árið 2007 og síðar sama ár til Kögunar, sem sameinaði það veffyrirtækinu Eskli. Eftir sameiningu Eskils og Innn lá leið Sigrúnar til London til að klára Executive MBA-nám sem hún hafði stundað með vinnu. Sigrún útskrifaðist með EMBA árið 2008 og flutti í kjölfarið til Sviss þar sem hún tók við framkvæmdastjórastöðu hjá svissnesku lækningatæknifyrirtæki. Hún þurfti að hætta í því starfi vegna stoðverkja og var hún óvinnufær í 7 mánuði vegna verkja. Eftir það tók hún við sem framkvæmdastjóri íslenska fyrirtækisins InfoMentor í Sviss. Ári síðar lagði hún til að fyrirtækið réði frekar framkvæmdastjóra í Þýskalandi til að spara kostnað og lét þá af störfum.

Vill aðstoða konur við að ná draumum sínum

Árið 2014 stofnaði Sigrún ráðgjafarfyrirtæki í Sviss með það að markmiði að aðstoða konur við að byggja upp þekkingarfyrirtæki á netinu. Á aðeins sjö árum hefur Sigrún byggt upp alþjóðlegt ráðgjafar-fyrirtæki sem áætlað er að haldi sínum árlega 30% vexti. Viðskiptavinir Sigrúnar eru yfir 3.000 talsins og hún hefur aðstoðað konur á öllum aldri og frá öllum heimshornum við að byggja fyrirtæki frá engu og upp í hundruð milljóna króna í tekjur. Hennar tilgangur er að stuðla að jafnrétti með því að valdefla konur.

„Konur í öðrum löndum hafa ekki haft sama uppeldi og kona á Íslandi og hafa ekki upplifað jafnrétti á sama hátt og ég hef gert. Með því að vinna með konum út um allan heim hef ég meiri áhrif á jafnrétti í heiminum. Hver einasta kona sem fer á námskeið hjá mér lærir ekki bara að búa til þekkingarfyrirtæki á netinu, hún lærir líka að setja sig í fyrsta sæti, að hennar draumar eru einhvers virði og síðast en ekki síst fer hún að trúa á sjálfa sig. Það er það besta við þetta allt saman. Ég gef konum þá trú að þær geti allt.“

Sigrún hefur gaman af því að tala um peninga og segir að það eigi ekki að vera skömm yfir því.

„Konur eiga að hugsa meira um veltutölur því þá getum við saman stuðlað að meira jafnrétti. Það kostar að hafa áhrif og breyta heiminum og konur eru betri í því að láta peninga gera góða hluti. Ég hef haft yfir milljarð í tekjur á sjö árum. Ég býst við yfir milljarði í tekjur á þessu ári. Ég er ekki að afla tekna til að sitja á peningunum heldur til að hafa áhrif og breyta heiminum, á sama tíma mun ég auðvitað láta drauma mína rætast.“

HÉR getur þú lesið viðtalið í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda