Athafnakonan og World Class-erfinginn Birgitta Líf Björnsdóttir stefnir að því að enduropna skemmtistaðinn b5 við Bankastræti í miðborg Reykjavíkur. Birgitta staðfesti fréttirnar við Smartland en vildi ekki tjá sig nánar á þessu stigi.
B5 var lokað á síðasta ári vegna heimsfaraldursins en skemmtistaðurinn var einn sá fjölsóttasti í Reykjavík fyrir faraldurinn. Eigendur b5 lentu í miklum rekstrarörðugleikum á síðasta ári og sögðu meðal annars frá því að þeir hefðu ekki getað greitt leigu í þrjá mánuði.
Smartland greindi frá því í nóvember á síðasta ári að Bankastræti 5 væri laust til leigu. Nú hefur Birgitta Líf tekið við lyklum að húsnæðinu og fetar þar með í fótspor foreldra sinna, Björns Leifssonar og Hafdísar Jónsdóttur. Björn og Hafdís, sem oft eru kennd við World Class, ráku skemmtistaðinn Ingólfskaffi um árabil og þótti staðurinn einn sá heitasti í bænum á þeim tíma.
Birgitta hefur starfað náið með foreldrum sínum undanfarin ár en hún er nú markaðsstjóri World Class. Nýverið opnuðu þau 18. líkamsræktarstöðina samhliða verslun með húðvörur, Laugar Spa Organic Skincare.