Dúxaði MBA-námið í Háskóla Íslands

Ingunn Agnes Kro á útskriftardaginn.
Ingunn Agnes Kro á útskriftardaginn.

Ingunn Agnes Kro hlaut á dögunum hæstu einkunn útskriftarárgangsins árið 2021, við útskrift úr MBA-námi frá Háskóla Íslands. Hún hlaut einnig áhugaverð aukaverðlaun við útskriftina. Ingunn er stjórnarmaður að atvinnu og situr í stjórn ólíkra félaga í ólíkum geirum.

„Ég held utan um eignarhaldsfélag í eigu 14 lífeyrissjóða, Jarðvarma, sem á helmingshlut í HS Orku. Þá sit ég í stjórn HS Orku, Iceland Seafood International, Sjóvár, framtakssjóðsins Freyju og Votlendissjóðs. Fyrir þá sem ekki þekkja er Votlendissjóður óhagnaðardrifinn sjálfseignarstofnun, sem hefur þann tilgang að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að endurheimta mýrar.“

Hvernig var MBA-námið?

„Í MBA-námi er tæpt á flestum, ef ekki öllum þeim málaflokkum sem stjórnandi getur þurft að vinna með. Svo sem stjórnun, stefnumótun, fjármálum, reikningshaldi, markaðsfræði, tölfræði og sjálfbærni.

Það er frábær viðbót fyrir þá sem hafa farið djúpt í ákveðin fræði, lögfræði í mínu tilviki, en vilja víkka þekkingarsvið sitt eða styrkja.

Ég var í fyrra starfi framkvæmdastjóri yfir markaðsmálum, mannauðsmálum, sprotafélagi um notkun vetnis í samgöngum og fleira fyrir utan lögfræðimálin. Ég þurfti þar að reiða mig mikið á brjóstvitið. Mig langaði með MBA-náminu að treysta stoðirnar undir þeirri reynslu sem ég aflaði mér þar.“

Hvernig var að dúxa?

„Það var mjög gaman að dúxa. Ég hef reyndar dúxað áður og fengið ýmis verðlaun fyrir námsárangur, bæði við Verzlunarskólann og lagadeild Háskóla Íslands.

Mér þótti þess vegna mun vænna um viðurkenninguna sem ég fékk við útskriftina fyrir að vera kosin af samnemendum mínum sá nemandi sem þau töldu sig hafa lært hvað mest af.“

Hvernig mun námið nýtast?

„Námið er mjög praktískt og nýtist mér strax í þeim stjórnum sem ég sit í. Inn á borð stjórnanna koma ólík mál og þá er gagnlegt að hafa að minnsta kosti grunnþekkingu á sem flestum þáttum rekstrar.“

Hvaða máli skiptir að vera með meistarapróf í viðskiptum?

„Það var mjög áhugaverð ein kennslustundin í tölfræðinni, þar sem ræddar voru kenningar um það að eina virðið í framhaldsmenntun væri að sýna að viðkomandi hefði farið í gegnum eitthvað erfitt, sem ekki væri á færi allra. Fólk nýtti sjaldnast nema lítinn hluta þess sem það hefði lært.

Ég skal alveg viðurkenna að ég met almenna skynsemi, þrautseigju, hugmyndaauðgi og tilfinningagreind meira en prófgráður. MBA-námið, og sú þekking og þau tól sem maður öðlast þar, auðveldar manni hins vegar lífið. Viðskiptalífið.“

Hvaða fag var skemmtilegast?

„Mér finnst gaman að læra eitthvað nýtt. Sem er eflaust ástæðan fyrir því að mér gengur vel að læra. Mér fannst öll fögin skemmtileg. Mest lærði ég í faginu nýsköpun, sem var kennt af Magnúsi Þór Torfasyni. Í svartasta Covid náði hann að kreista út úr hópnum fjöldann allan af hugmyndum að sprotafyrirtækjum, sem voru þróuð áfram undir hans handleiðslu. Verkefni hópsins sem ég var í komst meira að segja inn í Snjallræði, samfélagshraðal sem styður við frumkvöðlastarfsemi sem byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Sem leiðir mig að öðru fagi sem ég hafði líka mikinn áhuga á; sjálfbærni. Sjálfbærnihugsunin hefur nefnilega víðtæk áhrif á rekstur fyrirtækja og áhrifin eiga einungis eftir að aukast. Að öðrum ólöstuðum var besta námskeiðið hins vegar stjórnunarnámskeið sem við tókum við IESE í Barcelona. MBA-námið þar er augljóslega ekki talið það besta í heimi að ástæðulausu.“

Tvöföld gleði við útskriftina. Hún útskrifaðist með hæstu einkunn árgangsins …
Tvöföld gleði við útskriftina. Hún útskrifaðist með hæstu einkunn árgangsins og var kosin sá nemandi sem aðrir lærðu hvað mest af.

Hvað kom mest á óvart?

„Það er auðvitað algjör klisja en sá félagsskapur og það bróðerni sem myndaðist hjá bekknum á þessum tveimur árum, þrátt fyrir samkomutakmarkanir, kom mér mjög skemmtilega á óvart. Gull af mönnum.“

Hvað ætlarðu að gera í sumar? 

„Ég er nýkomin úr árlegri hestaferð með alveg einstökum hópi eðalkvenna. Þá eru einhverjar veiðiferðir í kortunum. Mestum hluta sumarsins hyggst ég hins vegar verja með fjölskyldunni í hjólhýsi sem við vorum að kaupa okkur. Eiginmanninn langaði í sumarbústað en mig langar að skoða nýja staði, svo úr varð að við keyptum „færanlegan sumarbústað“.“

Hvað er það besta við sumarið?

„Sólin.“

En það erfiðasta?

„Þegar maður kemst ekki út í sólina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda