Rithöfundurinn Sarah Ferguson uppgötvaði mikið um sjálfa sig þegar hún vann að bók sinni Her Heart for a Compass sem kemur út í haust. Ferguson, sem hefur verið þekkt undir nokkrum nöfnum þá fjóra áratugi sem hún hefur verið í sviðsljósinu, kýs nú helst að láta kalla sig bara Sarah.
„Ég er í raun bara orðin Sarah. Hertogaynjan er þarna. Gamla góða Fergie líka. En Sara er raunverulega til staðar í nútímanum,“ sagði Ferguson í vitðali við People.
Skáldsagan hennar fjallar um formóður hennar lafði Margaret Montagu Douglas Scott. „Þegar ég fór að rannsaka sögu hennar uppgötvaði ég svo mikið um erfðaefni mitt og komst að því að ég bý yfir mikilli seiglu og hugrekki og hef mikla bjartsýni og von,“ sagði Ferguson.
Ferguson skaut upp á stjörnuhimininn fyrir 36 árum þegar hún giftist Andrési Bretaprinsi. Á sokkabandsárum þeirra var hún ætíð kölluð Fergie og þegar þau giftust fékk hún titilinn hertogaynjan af York.
Hún var hálfgerður stormsveipur á sínum yngri árum, með rautt hár og alltaf til í góða skemmtun og glens. „Þegar þú býrð yfir kímnigáfu og ert rauðhærð, þá finnst öllum þú vera fellibylur. En ég hef komist að því að maður þarf ekki alltaf að vera stormsveipur,“ sagði Ferguson.
Ferguson og Andrés Bretaprins skildu árið 1996 og hafa unnið saman að uppeldi dætra sinna, prinsessanna Beatrice og Eugenie. Þrátt fyrir allar þær klemmur sem faðir dætra hennar hefur komið sér í segir Ferguson að hann sé frábær faðir og hún viti að hann sé góður og hjartahlýr maður.