Konur hræddari við að tapa peningum

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagfræðingurinn Kristín Hildur Ragnarsdóttir byrjaði að fjárfesta um 25 ára aldurinn. Hún vildi óska þess að hún hefði byrjað að fjárfesta fyrr en hún segir að konur séu mögulega hræddari við að tapa peningum á meðan karlar eru smeykari við að vera missa af ef þeir taka ekki þátt. 

Kristín Hildur gekk til liðs við Fortuna Invest fyrr á þessu ári en Fortuna Invest er fræðsluvettvangur á samfélagsmiðlinum Instagram sem hefur það að meginmarkmiði að auka fjölbreytileika á fjármálamarkaði. Þær hafa þó fært út í kvíarnar og voru nýverið á haustráðstefnu Advania, eru með fastan lið í útvarpinu og verið gestir í ýmsum hlaðvarpsþáttum. 

Kristín Hildur vinnur hjá Deloitte en hún er með BS-gráðu í hagfræði og er að leggja lokahönd á meistaranám í fjármálahagfræði. Auk þess að fræða fólk um fjármál með Fortuna Invest heldur hún úti hlaðvarpinu Vaxtaverkir með bestu vinkonu sinni, Brynju Bjarnadóttur.

„Í byrjun árs þegar ég var með þessa hlaðvarpspælingu hugsaði ég að það væri gaman að fara með það eitthvað lengra. Á sama tíma stofnuðu Aníta, Rakel og Rósa Fortuna Invest, ég heyrði þá í þeim og lét vita af mér, að ég hefði mikinn áhuga á þessu verkefni. Rakel meðstofnandi að Fortuna þurfti að hætta vegna annarra verkefna og þá höfðu þær Rósa og Aníta samband við mig.

Það hefði nú samt ekki gerst nema af því ég var búin að láta vita af mér. Maður heldur stundum að það standi utan á manni hvað maður er að hugsa en það er nú ekki þannig, sem betur fer kannski. Ég lærði allavega af þessu að ef manni langar eitthvað þá verður maður að sækjast eftir því, tek það með mér út í lífið.“

Dreymdi ekki um hagfræðina sem lítil stelpa

Kristín Hildur útskrifaðist af náttúrbraut í Verslunarskóla Íslands og sá eftir útskrift að þeir fáu viðskiptafræðiáfangar sem hún tók hafi átt best við hana. „Ég á alls ekki einhverja fallega sögu þar sem mig dreymdi um að verða hagfræðingur frá því ég var lítil,“ segir Kristín.

Þegar hún valdi sér háskólanám ákvað hún því að líta upp til stóru systra sinna sem eru fyrirmyndir í hennar lífi. 

„Önnur er verkfræðingur og hin lögfræðingur, ég ákvað þó að gera ekki upp á milli þeirra og valdi hagfræðina. Til að byrja með ætlaði ég að prófa og sjá hvernig mér myndi líka. Áhuginn á náminu jókst eftir því sem leið á námið og foreldrar mínir sem eru ávalt stoltir stuðningsaðilar hafa verið dugleg að senda mér fréttir í gegnum námið um kvenkyns hagfræðinga, meðal annars Kristrúnu Frostadóttur, þingmann og Þórhildi Hansdóttur Jetzek eina kvenkyns kennarann minn í meistaranáminu,“ segir Kristín Hildur. 

Hún segir það mjög hvetjandi að sjá konur sem hafa náð langt á sínu sviði, sérstaklega í hagfræði. „Hingað til eru þó ekki margar konur sem starfa sem hagfræðingar eftir að þær útskrifast en vonandi er það eitthvað sem á eftir að breytast með tímanum.“

Hagfræðin hefur í gegnum tíðina verið frekar karllægur geiri en segir Kristín Hildur ekki finna fyrir því hjá Deloitte þar sem konur fá jöfn tækifæri og karlar innan fyrirtækisins. Fjármálaheimurinn sé þó karllægur og konur sem vilji ná langt í þeim heimi þurfi að yfirstíga ýmsar áskoranir. „Konurnar eru vissulega á ákveðnum stöðum í fjármálageiranum en þær mættu vera fleiri meðal annars í stjórnunarstöðum, verðbréfamiðlun og sjóðastýringu. Það er ennþá langt í land en þess vegna vil ég leggja mitt lóð á vogarskálarnar í þessum málum með Fortuna Invest og Vaxtaverkjum,“ segir Kristín Hildur. 

Hefði átt að byrja fyrr að fjárfesta

„Ég byrjaði mína fjárfestingavegferð ekki fyrr en ég var 25 ára og ég hefði viljað að hún hefði byrjað miklu fyrr. Fram að því hafði ég verið með peningana mína inni á bankabók þar sem þeir tapa verðgildi sínu út af neikvæðum raunvöxtum, sem eru vegna verðbólgu. Síðan fór ég að gera mér grein fyrir að flestir sem ég þekkti sem voru að fjárfesta eða þekktu eitthvað til í geiranum voru aðallega karlkyns,“ segir Kristín Hildur.

Vinir hennar höfðu þá verið mikið að tala um fjárfestingar og hvaða bréf væru rauð eða græn á markaðnum daginn áður. 

„Þrátt fyrir þetta þá leyfi ég mér að segja að örugglega fáum þeirra hefur tekist að búa til einhvern alvöru hagnað af þessu. Ég á eina vinkonu sem er til fyrirmyndar í þessum efnum og hefur verið að fjárfesta í 10 ár eða svo og átti efni á sinni fyrstu íbúð með peningunum sem hún eignaðist með hlutabréfaviðskiptum. Þannig fór ég að eyða sífellt meiri tíma í að lesa um verðbréfamarkaðinn og hlusta á hlaðvörp tengd honum.“

Hún segir að eftir að hún tók skrefið áttaði hún sig á því að þetta þarf ekki að vera svo flókið. Hún geti þó ekki kallað sig sérfræðing í þessum efnum og á hún margt eftir ólært. 

Spurð af hverju það sé mikilvægt að auka fjölbreytileikann í þátttöku á fjármálamarkaði segir Kristín Hildur að fjölbreytileikinn í hvaða mynd sem hann er hafi aldrei skaðað neinn. „Það á ekki að skipta máli af hvaða kyni þú ert til þess að geta tekið þátt. Konurnar eru vissulega þarna en það fer miklu minna fyrir þeim og þær eru þá í stærri hópum á ákveðnum sviðum en öðrum.“ 

Fjárfestingar ekkert til að hræðast

Konur hafa verið ragari til að taka þátt á fjármálamarkaði. Hluti af ástæðunni telur Kristín Hildur vera að fyrirmyndirnar hafi ekki verið fjölbreyttar. „Fyrirmyndirnar hafa því miður hingað til ekki verið mikið fjölbreyttari en karlmaður í jakkafötum sem fer á viðskiptafundi með öðrum körlum í jakkafötum. Sem betur fer er þetta nú samt að breytast, en það er nauðsynlegt að hafa fyrirmyndir sem maður getur tengt við að einhverju leiti. Til dæmis fæ ég fæ alveg stjörnur í augun að sjá stofnendur Crawberry Capital, íslenska sprota- og vaxtasjóðsins, þær Heklu, Helgu og Jennýju í því sem þær eru að gera. Þetta eru þvílíkar fyrirmyndir og ég vildi óska þess að maður hefði fleiri á þessu sviði,“ segir Kristín Hildur. 

Tilgangurinn með Fortuna Invest er að auka áhuga með aukinni fræðslu. Aukin fræðsla er lykillinn að því að hvetja konur til að taka þátt á fjármálamarkaði. 

„Það er eins og fjárfestingar hafi hingað til verið settar upp til þess að hræða mann. Þetta þarf alls ekki að vera svo flókið, eyddu minna en þú aflar, stofnaðu vörslureikning og legðu fyrir mánaðarlega í sjóð sem hentar þér og þínu áhættuþoli. Ef þú hefur ekki tíma fyrir alls konar útreikninga og greiningar þá eru sjóðirnir sniðugir. Fólk gleymir þá jafnvel að það eigi þessa peninga af því þeir fara á ákveðinn stað mánaðarlega, ekki eins og þegar maður er með opinn sparnaðarreikning sem er í raun ekki sparnaðarreikningur því þú getur alltaf tekið út af honum,“ segir Kristín Hildur. 

Hún segir enga ástæðu vera fyrir því af hverju konur ættu að vera hræddar við að láta til sín taka í fjárfestingum. „Af einhverri ástæðu eru konur mögulega hræddari við það að tapa peningum á meðan karlmenn eru smeykari við að vera missa af ef þeir taka ekki þátt, en auðvitað er það síðan einstaklingsbundið frekar en bundið við kyn,“ segir Kristín Hildur. 

„Fyrsta skrefið er alltaf erfiðast en maður lærir aldrei jafn mikið eins og að gera hlutina sjálfur, stærsta skrefið er að byrja.“

Kristín Hildur Ragnarsdóttir.
Kristín Hildur Ragnarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda