Storytel leitar að næsta stóra hlaðvarpi

Matthías Tryggvi Haraldsson, Fanney Benjamínsdóttir og Friðgeir Einarsson.
Matthías Tryggvi Haraldsson, Fanney Benjamínsdóttir og Friðgeir Einarsson.

Á hverju ári stendur Storytel fyrir handritasamkeppninni Eyranu. Valin verður ein hugmynd úr innsendum tillögum sem unnin verður áfram og gefin út hjá Storytel. Innsendingum er nú lokið en dómnefndin fer nú yfir þær tillögur sem bárust og velur þá bestu sem hlýtur 1.000.000 krónur í verðlaunafé. Sigurvegarinn verður kynntur opinberlega þriðjudaginn 26. október. 

„Við tökum að okkur undirbúningsvinnu á hugmyndinni í samvinnu við höfund tillögunnar ásamt ritstjórn, framleiðslu, hljóðheimi og markaðssetningu,“ segir Fanney Benjamínsdóttir framleiðandi hjá Storytel á Íslandi. 

„Þáttaseríur sem byggja á handriti njóta síaukinna vinsælda á streymisveitum um allan heim. Storytel á Íslandi hyggst stórauka útgáfu á slíku efni undir merkjum Storytel Original og blæs því til samkeppni um nýja þáttaröð sem framleidd yrði á Íslandi með möguleika á útgáfu á öðrum mörkuðum í þýðingum.“

Í dómnefnd eru Friðgeir Einarsson, Matthías Tryggvi Haraldsson og Fanney Benjamínsdóttir. 

Friðgeir Einarsson er höfundur bókanna Takk fyrir að láta mig vita, Formaður húsfélagsins og Ég hef séð svona áður. Hann er menntaður í sviðslistum og er höfundur og flytjandi verkanna Club Romantica og Útlendingurinn sem sett hafa verið upp í Borgarleikhúsinu. Hann er einn af fjórum meðlimum leikhópsins Kriðpleir, sem hefur samið og sett up fjölbreytt verk, meðal annars útvarpsleikrit sem hafa reglulega verið flutt á Rás 1.

Matthías Tryggvi Haraldsson er sviðshöfundur, leikstjóri og tónlistarmaður. Hann hefur komið víða við, meðal annars sigraði hann söngvakeppni sjónvarpsins með hljómsveitinni Hatara og tók þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd árið 2019. Matthías hefur komið að hinum ýmsu sviðsverkum og verið reglulegur gestur í útvörpum landsmanna, meðal annars í þáttaröð sinni Allir deyja á Rás 1 og þáttunum Fjárfesting á Útvarpi Sögu. Matthías er leikskáld  Borgarleikhússins. 

Fanney Benjamínsdóttir stýrir hlaðvarpsframleiðslu hjá Storytel. Hún er menntuð í fjölmiðlafræði, ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands og á að baki reynslu í dagskrárgerð, meðal annars fyrir menningarþáttinn Tengivagninn, ásamt sjálfstæðri framleiðslu útvarpsþátta. Fanney hefur unnið sjálfstætt sem ritstjóri og þýðandi og starfað sem verkefnastjóri hjá Bókmenntahátíð í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda