„Ekki sama manneskjan og ég var fyrir þessi áföll“

Svanhvít Jóhannsdóttir er höfundur bókarinnar Harður skellur.
Svanhvít Jóhannsdóttir er höfundur bókarinnar Harður skellur. Eggert Jóhannesson

Svanhvít Vatnsdal hannsdóttir, hjúkrunarfræðingur, uppeldis- og menntunarfræðingur og sérfræðingur hjá Virk, gaf nýverið út bókina Harður skellur. Bókin fjallar um lífsreynslu Svanhvítar eftir að hafa lent í tveimur alvarlegum umferðarslysum með 19 ára millibili. Frásagnarformið í bókinni er með einstökum hætti þar sem það er eins konar sambland af persónulegri reynslu Svanhvítar, en ekki síður, fræðilegri þekkingu hennar.  

Svanhvít segir það alltof algengt að ekki sé hlustað á einstaklinga sem lenda í alvarlegum umferðaslysum. Hún sé lifandi dæmi um það að kerfið véfengir og vangreinir áverka sem hljótast af slíkum slysum. Saga Svanhvítar einkennist af mikilli seiglu. Hún er samkvæm sjálfri sér, réttsýn og skipulögð. Það skín úr dagbókarfærslum sem hún skrifaði daglega á meðan hún gekk í gegnum erfiðleika tengdum seinna slysinu. Færslurnar segja oft meira en þúsund orð.  

Bílinn úr fyrra slysinu prýðir forsíðu bókarinnar. Eins og sjá …
Bílinn úr fyrra slysinu prýðir forsíðu bókarinnar. Eins og sjá má gjöreyðilagðist hann. Eggert Jóhannesson

Svanhvít er fædd árið 1961 og er eineggja tvíburi. Tvíburasysturnar, þær Svanhvít og Lára, fæddust fyrir tímann og er því vel við hæfi að segja að Svanhvít hafi alltaf þurft að berjast fyrir sér og tilveru sinni. Að fæðast sem fyrirburi áður en að hafa náð fullum þroska í móðurkviði reynir mikið á lítinn kropp, en tví- og fjölburar eru í meiri áhættu á að fæðar fyrir áætlaðan dag. Systurnar, Svanhvít og Lára, hafa alla tíð verið mjög nánar og notið stuðnings hvor annarrar. Þegar þær voru fjögurra ára gamlar voru þær sendar í fjóra mánuði á vistheimilið Silungapoll. En móðir þeirra Erla var mjög veik á meðgöngu þegar hún gekk með Harald bróðir þeirra systra. Svanhvít segir aðstöðuna og aðbúnað á Silungapolli hafa verið verulega ábótavant og minnist hún vistheimilisins ekki beint með hlýhug. 

„Á Silungapolli fékk maður enga ást og umhyggju. En það er einmitt það sem börn þurfa hvað mest. Ég man þessa tíma vel þrátt fyrir ungan aldur. Þetta gekk allt út á færibandavinnu og þarna átti veruleg vanræksla sér stað. Við Lára vorum heppnar að hafa hvora aðra, finna öryggi í hvor annarri. Framkoma starfsfólksins á Silungapolli var harkaleg og niðurlægjandi í garð ungra barna sem voru vistuð þar. Á þessum tímum voru engir leikskólar og enginn til að gæta okkar systra á meðan mamma var veik og pabbi að vinna, “ lýsir Svanhvít verunni á Silungapolli sem barn. 

Svanhvít segir uppvaxtarár sín hafa verið góð og ósköp hefðbundin þar sem hún ólst upp með foreldrum sínum og tveimur systkinum. Á unglingsárunum gekk hún í skátana og segir að skátastarfið hafa átt hug sinn allan.  

„Ég hef alltaf haft gaman að hreyfingu og útivist og þeim áhugamálum gat ég sinnt vel í gegnum skátana. Svo kynntist ég fyrrverandi eiginmanni mínum og barnsföður í gegnum skátana og við hófum okkar búskap saman á Akureyri að loknum stúdentsprófum, en hann er þaðan,“ segir Svanhvít. 

Svanhvít og fyrrverandi eiginmaður hennar, Þorsteinn G. Gunnarsson, bjuggu um hríð á Akureyri en haustið 1983 fluttu þau til Reykjavíkur og hófu frekara nám. Frumburður þeirra, dóttirin Lilja, var þá tæplega eins árs gömul. 

orkuslys í Hvalfjarðarsveit  

Í marsmánuði árið 1988 voru þau hjónin, ásamt Lilju, á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar. Megin tilgangur ferðalagsins var sá að tilkynna tengdafólki Svanhvítar, sem búsett var fyrir norðan, að von væri á öðrum erfingja í fjölskylduna. Svanhvít var gengin átta vikur á leið með son þeirra Þorsteins, sem fékk nafnið Ari Gunnar.  

Hamingjan var allt umlykjandi. En þetta átti eftir að vera örlagarík ferð sem engan grunaði.  

„Slysið á sér stað þann 18. mars 1988 uppi í Hvalfirði skammt frá afleggjara að bæ sem heitir Kalastaðakot. Þetta var á föstudegi og til stóð að eyða helginni fyrir norðan hjá tengdafjölskyldunni. Þetta var auðvitað fyrir tíma Hvalfjarðarganganna. Það var hríðviðri þennan dag og ég man allt fram að slysi. Það var bíll á öfugum vegarhelmingi sem lenti framan á bílnum okkar. Steini var að keyra en ég sat í farþegasætinu. Lilja var sofandi á bílpúða í aftursætinu og slapp sem betur fer ómeidd. Hún var öll í glerbrotum, bæði utan og innan klæða, það er með ólíkindum hvað hún slapp vel,“ segir Svanhvít og rifjar upp daginn örlagaríka. 

Örfáum sekúndum áður en bílarnir skullu saman vissi ég hvað verða vildi. Ég fékk gríðarlegt högg á brjóstkassann, kviðinn og aðra öxlina undan bílbeltinu en öryggispúðar voru almennt ekki í ökutækjum á þessum tíma. Við höggið fannst mér hryggurinn á mér molna frá hálsi og niður, svo varð allt skyndilega svart.“ 

Svanhvít missti meðvitund um stund, en ekki er vitað í hversu langan tíma. Hún segir það hafa verið sársaukafullt að vakna í bílnum og reyna að átta sig á stað og stund. Hún segir það hafa verið lán í óláni að hún hafi ekki verið komin lengra á leið með barnið sem hún bar undir belti, soninn Ara. Bílbeltið hafi verið þannig staðsett að honum varð ekki meint af, marið kom fram fyrir ofan legið. 

Framanákeyrslur eru alvarlegustu umferðarslysin.
Framanákeyrslur eru alvarlegustu umferðarslysin. Ljósmynd/Aðsend/Þorsteinn G. Gunnarsson

Báðar bifreiðarnar gjöreyðilögðust og er slysið flokkað sem háorkuslys þó svo að Svanhvít sé ekki viss hvort að slysið hafi verið skráð sem slíkt. Hlaut Svanhvít alvarlega áverka í kjölfar slyssins sem voru ýmist vangreindir eða komu löngu síðar í ljós. 

„Það eru alls konar áverkar sem ekki sjást utan á fólki strax eftir slys. Það er ekkert ferli sem fer í gang þegar fólk hefur lokið læknisskoðun eftir svona slys. Það er engin eftirfylgni,heldur er fólk bara sent heim. Áverkar eru vangreindir og vanskoðaðir eftir svona slys. Svo eru einstaklingarnir að berjast við verki og sársauka lengi á eftir. 

Svanhvít náði góðum bata og fullri starfsgetu eftir slysið. En eftir útskrift úr Hjúkrunarskólanum vann Svanhvít í tvo áratugi á Landspítalanum, lengst af á gigtar- og nýrnadeild og síðar á Vökudeildinni. Úr ungbarnahjúkrun flutti Svanhvít sig yfir í öldrunarhjúkrun en hún vann sem aðstoðardeildarstjóri á Hrafnistu í Reykjavík í tvö ár.  

Annað alvarlegt umferðarslys 

Það er fátítt að einstaklingar lendi oftar en einu sinni í alvarlegum umferðarslysum enda hægt að álíta svo að eitt alvarlegt umferðarslys sé einu slíku of mikið. Svanhvít varð fyrir því óláni að lenda í öðru alvarlegu umferðarslysi um mitt sumar árið 2007. Þá voru liðin 19 ár frá fyrra slysi.  

„Ég er að koma frá Kringlunni og er að keyra eins og ég sé að fara í Vesturinn. Ég stoppa hjá Orku bensínstöðinni, gegnt Kringlunni, og áður en ég veit af þá lendir strætisvagn á bílnum mínum. Ég man í rauninni ekkert hvað gerðist. Mér leið bara eins og eitthvað risa skrímsli hafi tekið bílinn upp og kastað honum niður í frumskóg. Fannst eins og hann væri að mylja bílinn. Strætisvagninn var óvenjulegur því hann var ekki gulur eins og vaninn er. Hann var þakinn auglýsingu en græn laufblöð þöktu allan vagninn,“ segir Svanhvít. 

Svanhvít sá ekkert nema laufblöð fyrir augunum á sér enda …
Svanhvít sá ekkert nema laufblöð fyrir augunum á sér enda var strætisvagninn þakinn laufblöðum. Ljósmynd/Aðsend/Þorsteinn G. Gunnarsson

Strætisvagninn féll vel inn í umhverfið en mikill trjávöxtur er á svæðinu. Svanhvít hafði hvorki áttað sig á þessum líkindum eða útliti strætisvagnsins á slysstaðnum. Það uppgötvaði hún ekki fyrr en hún las lögregluskýrslu tveimur vikum eftir slysið.  

„Það tók mig heillangan tíma að þora að keyra slysaleiðina aftur,“ segir Svanhvít. 

Svanhvít hlaut höfuðáverka í slysinu en höfuð hennar skall í hliðarrúðu bifreiðarinnar af miklum þunga. En alls voru höggin í slysinu fjögur talsins og var bílinn gjörónýtur eftir slysið. Enda um annað orkuslys að ræða. 

Eftir þetta slys segist Svanhvít hafa misst heilsuna. Starfsgetan var engin, getan til þess að sinna áhugamálum og félagslífi fauk út um þúfur, hjónabandið var komið á endastöð og skilnaður hennar og Þorsteins varð raunin.  

Harður skellur ákveðinn sigur 

Svanhvít þurfti heldur betur að taka á honum stóra sínum eftir öll þessi áföll. Leitaði hún allra leiða til þess að ná bata og auka vellíðan sína, og ekki síður til þess að fá verki sína viðurkennda. Hún segist aldrei hafa hætt, hún sé ekki gerð til þess að gefast upp. 

„Áföll hafa áhrif. Ég er ekki sama manneskjan og ég var fyrir þessi áföll,“ segir hún. 

Þrotlaus barátta hennar við kerfið og að hafa ekki verið tekið trúanlega jók í raun á kappsemina við að ætla sér að ná bata. Ákvað Svanhvít að láta aldrei deigan síga og gerði hún allt eftir bókinni til að freista þess að ná bata. Hún fór á Reykjalund, í starfsendurhæfingu á vegum Virk, og síðar í endurhæfingu hjá Janus og þaðan í Þraut. Þessi úrræði voru ekki veitt á silfurfati heldur segir hún það hafa tekið langan tíma. Hafi hún stöðugt hringt til að minna á sig sem hafi loks skilað sér árangri. 

Linnulaus þrautseigja Svanhvítar hefur skilað henni miklum árangri. Heilsuna er ekki hægt að kaupa úti í búð en Svanhvít vinnur markvisst unnið að því að viðhalda heilsunni og lifa góðu lífi. Í dag starfar Svanhvít sem sérfræðingur hjá Virk. Í starfi sínu þar geti hún nýtt sér menntun sína og persónulega og víðtæka reynslu. 

Svanhvít er hamingjusamlega gift Benedikt Benediktssyni, tölvunarfræðingi hjá TR. Samanlagt eiga þau fimm börn, fjögur tengdabörn og níu barnabörn. 

„Lífið gæti ekki verið yndislegra,“ segir Svanhvít hamingjusöm. 

Svanhvít og Benedikt kynntust árið 2010.
Svanhvít og Benedikt kynntust árið 2010. Ljósmynd/Aðsend/Hulda Margrét Óladóttir

Segist hún nú hafa yfirstigið bílhræðsluna sem hún glímdi við í tvo áratugi. Það segir hún þó ekki hafa gerst að sjálfu sér, heldur þurfti hún að leita aðstoðar geðhjúkrunarfræðings til að yfirstíga hræðsluna. Með bók sinni kallar Svanhvít eftir kerfisbreytingum, hvað varðar slysaskráningu, greiningu áverka, verkferla og eftirfylgd. Bókin er til marks um það hversu mikilvægt það er að hlúa vel að einstaklingum sem lenda í jafn stórum áföllum og alvarleg umferðarslys eru. Sérfræðingar og fagfólk á borð við heilbrigðisstarfsfólks og lögreglu spila stórt hlutverk hvað það varðar.  

Bókin ber einnig þess merki hversu þrautseig og upplýst Svanhvít er. Elja hennar, kjarkur og þor er eitthvað sem ekki allir eru gæddir. Hún segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist sér og þykir ekki ósennilegt að það hafi brugðist fleirum sem hafa svipaða sögu að segja. Segir Svanhvít að bókin geti nýst tjónþolum umferðarslysa, aðstandendum þeirra, fagfólki í heilbrigðisstéttinni og ekki síður tryggingafélögunum. 

„Það kom mér á óvart hversu illa fúnkerandi heilbrigðiskerfið er, engir verkferlar til eftir alvarleg slys, enginn sem heldur utan um þá sem útskrifast heim að lokinni skoðun, þjónustan samhengislaus, endalaus bið, ólík framkoma eftir kynjum. Þegar illa gengur situr einstaklingurinn uppi með afleiðingarnar og öll ábyrgðin er sett á herðar honum. Það er gjarnan talað um að sumir einstaklingar geri sér að leik að fara hringferð í „kerfinu“, í stað þess að líta inn á við og spyrja; hvernig er hægt að betrumbæta kerfið svo einstaklingarnir þurfi ekki að fara í þessa hringferð,“ segir Svanhvít að lokum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda