Fer aldrei offari í þrifum og peningaeyðslu

Margrét Ágústsdóttir.
Margrét Ágústsdóttir. mbl.is/Unnur Karen

Margrét Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri og þríþrautarkona, er hætt að gera hluti sem áður þótti nauðsynlegt að gera fyrir jólin. Hún vinnur að því að koma upp Baba Yaga-systrahúsinu á Bræðraborgarstíg, þar sem gaman verður á jólunum.

Hún er ein þeirra sem standa að uppbyggingu Baba Yaga-hússins á Bræðraborgarstíg. Baba Yaga-hugmyndafræðin um kjarnasamfélög er upprunnin í París, en hefur síðustu ár rutt sér til rúms víðar. Hún gengur út á að skapa valkost við önnur búsetuform sem eldra fólki býðst í dag, í þessu tilviki fyrir konur á besta aldri sem vilja búa í sínum íbúðum, en í húsi með ýmsum sameiginlegum rýmum og með öðrum konum sem eru svipað þenkjandi.

„Ég er talsvert upptekin af þessu verkefni núna enda áhugavert verkefni sem mikilvægt er að klárist. Annars gengur lífið sinn vanagang. Ég er ekki mjög upptekin af undirbúningi jólanna. Ég hef mikla ánægju af vinnunni minni, æfingum og að vera með vinum og fjölskyldu.

Munu gera eitthvað skemmtilegt á aðventunni

Undirbúningur jólanna var meiri hér áður fyrr þegar börnin mín voru yngri. Þá var skreytt smá á aðventunni og mikið farið á jólatónleika því yngsta dóttirin var í kór og í píanónámi.“

Gerir þú eitthvað sérstakt á heimilinu fyrir jólin?

„Mitt heimili er alltaf svipað, þokkalega hreint og í ágætis standi enda bý ég ein og geng ágætlega um. Í ár verða jólin haldin á Tenerife með hluta af fjölskyldunni. Jólavenjur voru frekar fastar hér áður fyrr en nú er ég meira til í hvað sem er. Mig dreymir samt um rólegheitajól þar sem ég er boðin í mat til barnanna minna og þarf ekkert að gera nema mæta.“

Hvernig myndu Baba Yaga-systur halda upp á jólin?

„Við höfum aðeins rætt það. Ég er í þessu verkefni með systur minni og tveimur vinkonum. Við erum sammála um að í systrahúsinu okkar verði jólin frjálsleg og framandi. Við ætlum almennt að vera duglegar að bjóða íbúum hverfisins að koma til okkar og taka þátt í ýmiskonar viðburðum og erum með allt opið í því efni. Sérstaklega á aðventunni, þá ætlum við að halda opin hús, sem dæmi fá rithöfunda til að koma og lesa úr bókum sínum. Tónleikar hafa líka verið í umræðunni og þar sem einhverjar okkar eru mjög listrænar þá verður líklega eitthvað um listsköpun líka. Jólin sjálf munu snúast um að borða góðan mat á þeim tímum sem hentar og hafa það huggulegt. Einhverjar munu sjálfsagt halda jól hjá fjölskyldum sínum og svo koma kannski barnabörn í heimsókn. En fyrst og fremst verður það afslappað og frjálslegt.“

Er ekki með jólatré lengur

Er eitthvað sem þú gerir aldrei á jólunum sem þér finnst alveg galið?

„Já, ég fer aldrei offari í þrifum og peningaeyðslu á jólunum. Eins baka ég ekki og í raun geri ég ekkert af þessu sem þótti skylda að gera hér áður fyrr.“

Seturðu upp jólatré?

„Jólatréð var stórt og hæfilega skreytt hjá mér en þann sið hef ég líka lagt af. Ef ég myndi halda jól hér heima og fá dótturdótturina sem býr í New York í heimsókn þá myndi ég skreyta tré með henni. En hún er gyðingur og þau halda ekki jól og því fær hún ekki jól nema á Íslandi.“

Hvað með mat, skemmtun og tónleika. Hvað gerir þú því tengt?

„Það er allt opið með mat nema ég borða ekki kjöt lengur. Ég bý í miðbænum og finnst gaman að ganga í bænum og skoða mig um. Að detta inn á litla tónleika á stöðum eins og Máli og menningu og Skuggabaldri, svo einhverjir staðir séu nefndir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda