Áramótaheit – vopn eða vonbrigði?

Þóra Valný Yngvadóttir.
Þóra Valný Yngvadóttir. Ljósmynd/Silla Páls

„Um þessi áramót eins og hin fyrri eru mörg okkar sem stíga á stokk og strengja áramótaheit. Fólk hefur mismunandi skoðanir á áramótaheitum; allt frá því að finnast þau vera alger snilld í að finnast þau vera hin mesta vitleysa,“ segir Þóra Valný Yngvadóttir ACC markþjálfi, meðlimur í Hoobla og FKA í sínum nýjasta pistli: 

En hvað eru áramótaheit? Jú, þau eru í raun markmiðasetning fyrir nýtt ár. Að setja sér markmið getur bæði verið gagnlegt og skaðlegt. Það er gagnlegt að horfa fram á veginn og setja sér markmið til að láta drauma sína rætast, því miklar líkur eru á að draumar okkar rætist ekki ef við gerum ekkert í þeim.

Margir kannast við að bera á borð fyrir sig sama áramótaheitið um hver áramót, eini munurinn er að með hverju árinu sem líður verður biturleika- og vonbrigðabragðið enn sterkara. Aðrir búa sér til nýtt áramótaheit á hverju ári og standa svo leiðir um næstu áramót þar sem það náðist ekki. Það gefur augaleið að þetta er ekki hollt andlegri heilsu. Vonbrigðin leiða strax til sjálfsgagnrýni og sjálfsniðurrifs, sem oftast er mjög skaðlegt og ekki aðeins skaðlegt, heldur er það þannig að á meðan þú ert í sjálfsniðurrifi, þá er mjög erfitt, ef ekki útilokað að ná nokkrum árangri.

Hvað er það sem veldur því að þú nærð ekki áramótaheitinu/markmiðinu þínu? Það hafa verið skrifaðar heilu bækurnar um markmiðasetningu og hvernig á að ná markmiðum sínum og eru þær flestar góðra gjalda verðar. Þar af er „smart“-markmiðaaðferðin vinsælust og er mjög góð aðferð. Hún virkar samt ekki eða neinar aðrar aðferðir ef lykilatriðið er ekki til staðar. Það er aðeins eitt atriði sem skiptir höfuðmáli og án þess atriðis, þá ertu aldrei að fara að ná áramótaheitinu þínu!

Þetta atriði er eldmóður! Þegar þú hugsar um áramótaheitið þitt, eða enn betra, skrifar það niður, langar þig þá að hoppa um, dansa og öskra af gleði og tilhlökkun? Ef svarið við þessari spurning er JÁ, þá ertu í góðum málum og þú getur hafist handa við að skrifa það niður ásamt því hvað þú vilt gera til að ná því og líkurnar á að þú náir markmiðinu eru gífurlegar. Ef NEI, þá þýðir þetta ekkert! Ef þér finnst áramótaheitið þitt ekki spennandi og það fyllir þig ekki af eldmóði, af hverju í ósköpunum ættir þú þá að fara að nota tíma þinn og orku í að gera allt það sem gera þarf til að ná því?

Það er því um tvennt að velja; annaðhvort hendir þú blaðinu og þessu áramótaheiti í ruslið og ákveður að þetta verði ekki í lífi þínu, einfaldlega af því að þig greinilega langar ekki til þess EÐA þú breytir viðhorfi þínu. Ef þú hendir í ruslið áramótaheiti sem er búið að naga þig ár eftir ár, þá óska ég þér til hamingju með það, því þá hefur þú stigið stórt og mikilvægt skref í að nýja árið verði þér heillaríkt. Ef þú aftur á móti velur að þú viljir ekki henda áramótaheitinu í ruslið, því að þetta sé eitthvað sem skiptir þig máli, þá er einfaldlega að hefjast handa við að breyta viðhorfinu til þess, leita að tilganginum og stilla áramótaheitinu upp þar til þér finnst það svo spennandi að þú fyllist af eldmóði og hjarta þitt dansar af tilhlökkun.

Sem dæmi þá má nefna áramótaheitið „hætta að reykja/borða sykur“ eða hætta einhverju. Þeir sem hafa sett upp þetta áramótaheit, gera það yfirleitt með kvíðahnút, hræðslu, og alls konar neikvæðum tilfinningum sem eiga ekkert skylt við tilhlökkun. Samt vill viðkomandi þetta endilega og þá þarf að leita leiða til að gera áramótaheitið spennandi. Besta leiðin til þess er að skoða tilganginn: „Hvers vegna langar þig þetta?“, „hvað færð þú þegar markmiðinu er náð?“ Kafaðu dýpra hjá þér og leitaðu að tilganginum, þar til þú finnur það sem skiptir þig gríðarlega miklu máli og fær hjarta þitt til að dansa, t.d. lykta vel, vera góð fyrirmynd, líða vel í eigin skinni – svo lengi sem það sem þú skrifar niður fær þig til að fyllast eldmóði og hlakka til að fara í breytingarnar.

Annað afar vinsælt áramótaheit er að taka á aukakílóunum og þar skiptir líka miklu máli að leita að spennandi viðhorfi gagnvart markmiðinu. Það er varla nokkur manneskja að fara að hoppa af kæti yfir markmiðinu „fara í megrun“, hvað þá yfir áramótaheitinu „ég ætla að reyna að leggja af“. Í þessu er lítill eldmóður, þannig að hér þarf að hugsa aðeins dýpra og finn sinn tilgang, finna eldmóðinn: „Hvers vegna langar mig að gera þetta?“, „hvað gerir það fyrir mig að framkvæma þetta áramótaheit?“, „hvernig lítur lífið út þegar ég framkvæmi þetta áramótaheit?“ og þannig er hægt að breyta algerlega viðhorfinu gagnvart áramótaheitinu, t.d. „ég vil vera hraust/ur“ „ég vil vera heilsusamleg/ur“.

Þegar þú ert komin/n með áramótaheit sem er spennandi og fær þig til að titra af tilhlökkun þá fyrst getur þú hafist handa við að skipuleggja aðgerðirnar sem þú vilt fara í til að ná áramótaheitinu. Fyrsta skrefið er að svara spurningunni „hvað get ég gert til að af því verði?“ Þá skrifar þú niður allt sem þér dettur í hug að myndi hjálpa þér til að ná þessu áramótaheiti og velur svo úr það sem þú vilt gera og veist að þú munir standa við. Síðan heldur þú áfram að vinna með áramótaheitið með því að gera áætlun um þær aðgerðir sem þú vilt framkvæma til að ná áramótaheitinu þínu og skrifar á blað eða í bók (ef þú hefur ákveðið að kaupa þér fallega bók fyrir þetta) „hvað“, „hvernig“, „hvenær“ o.s.frv. Það er eins með aðgerðirnar og áramótaheitið sjálft – reyndu að velja þér viðhorf gagnvart aðgerðunum sem gagnast þér, þannig að þær séu skemmtilegar og aðlaðandi.

Dæmi:

1) Borða aðeins hollan og góðan mat 2) Hvaða matur er hollur sem mér finnst góður 3) Gera vikulegan innkaupalista.

1) Hreyfa mig meira 2) Hvaða hreyfing er skemmtileg og raunhæf fyrir mig 3) Gera vikulega áætlun um hreyfingu vikunnar.

Ég set fram dæmi um algeng áramótaheit en þau eru auðvitað miklu fleiri og víðtækari. Almennt snýst áramótaheit hvers og eins um þær breytingar sem hann/hún vill sjá á lífi sínu. Allar breytingar snúast um val og virði – að velja að breyta því sem er þér mikils virði. Ef þú velur að breyta því sem er þér mikils virði að breyta og velur þér viðhorf gagnvart því sem fær hjarta þitt til að dansa af tilhlökkun þá verður áramótaheitið þér vopn í að láta drauma þína rætast.

Gleðilegt ár og megi 2022 vera árið sem draumar þínir rætast og áramótaheiti þínu verður náð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda