Endurfjármagnaði og sparaði 60.000 krónur á mánuði

Tinna var rúmlega tvítug að aldri þegar hún festi kaup …
Tinna var rúmlega tvítug að aldri þegar hún festi kaup á fyrstu íbúðinni sinni mbl.is/Kristinn Magnússon

Tinna Bryde, viðskiptaþróunarstjóri Two Birds, veit flest það sem viðkemur fasteignakaupum og endurfjármögnun, enda hefur hún unnið fyrir banka og fjártæknifyrirtæki alla sína vinnutíð. Sjálf fjármagnar hún tómstundir sínar og ferðalög með útsjónarsemi í fjárstýringu, sem margir gætu tekið sér til fyrirmyndar. 

Tinna býr með tveimur sonum sínum miðsvæðis í Hafnarfirði og segir fátt standast samanburðinn við það svæði. Hún er Hafnfirðingur í húð og hár og er með allt í kringum sig í göngufæri, búðir, vini, skóla og fjölskylduna. Tinna hefur margþætta reynslu af fjármálamarkaði í bland við nýjustu tækni. Hún hóf störf í Sparisjóði Kópavogs á menntaskólaárum sínum.

„Sá banki varð að Byr og svo seinna Byr Sparisjóði og síðan Íslandsbanka. Ég vann í öllum þessum bönkum í áratug, fyrst sem gjaldkeri og síðan sem þjónusturáðgjafi og lánastjóri. Allt sem viðkemur bankaþjónustu og fjármálum hefur því verið á mínu áhugasviði svo lengi sem ég man eftir mér.“

Yngri kynslóðir kalla eftir meiri sjálfvirknivæðingu

Eftir störf í bankanum hóf Tinna að starfa fyrir Creditinfo þar sem hún tók þátt í þróun stafrænna lausna fyrir fyrirtækið og áttaði sig hratt á því að endalaus tækifæri voru til hagræðingar og sjálfvirknivæðingar á sviði fjármála.

„Yngri kynlóðir kalla eftir meiri sjálfvirknivæðingu, þar sem hægt er að sækja um afgreiðslu hvenær sem er á netinu, með jafnræði og skilvirkni í fyrirrúmi. Sú kynslóð sem er að stofna til heimilis núna er að kalla eftir hinu sama, þó ekki megi gleyma mannlega partinum, en persónuleg þjónusta á ennþá sinn stað í bönkunum.“

Tinna er viðskiptaþróunarstjóri fyrir Two Birds í dag sem felur í sér að vera alltaf að hugsa aðeins fram í tímann þegar kemur að þjónustu á fjármálamarkaði. Two Birds heldur úti meðal annars vef Aurbjargar, þar sem finna má áhugaverðar upplýsingar um fasteignakaup. Uppsetning vefsins er einföld og skilvirk.

„Ég fór frá Creditinfo yfir í Two Birds en sami stofnandi kom að báðum fyrirtækjum. Fasteignakaup hafa lengi verið mér hugleikin enda kom ég að gerð rafræns greiðslumats hjá Creditinfo á sínum tíma, sem var mikil bylting, því greiðslumat sem tók vanalega nokkra daga í vinnslu var loks hægt að framkvæma á nokkrum mínútum með rafrænni lausn. Í þeirri vinnu lærði ég að útsjónarsemi og tækni getur hjálpað fólki að rata í flóknu fjármálaumhverfi og einfaldað þannig lífið aðeins.“

Tinna Björk Bryde.
Tinna Björk Bryde. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spara tíma og fjármuni

Fjártæknifyrirtæki leitast við að smíða góðar lausnir fyrir bæði fólk og fyrirtæki.

„Það er mjög áhugavert að sjá hvernig hægt er að nýta öll þau gögn sem Two Birds hefur aðgang að og búa til virði úr þeim fyrir neytendur. Okkar fyrsta vara var rafrænt verðmat, sem er skýrsla sem sýnir fólki áætlað markaðsverð fasteignar, verðþróun, sýnir lista yfir seldar sambærilegar eignir og eignir sem eru til sölu í dag. Með þessum upplýsingum getur fólk séð á hvaða upplýsingum við byggjum okkar áætlaða markaðsverð og séð ítarlegar upplýsingar um sambærilegar eignir sem hafa verið í söluferli. Skýrslan er mjög vinsæl og hefur sparað mörgum bæði tíma og fjármuni, enda er markmiðið okkar að valdefla fólk í fasteignaviðskiptum með upplýsingum sem hjálpa því að taka betri ákvarðanir.

Aurbjörg.is er samanburðarvefsíða á þjónustum sem tengjast fjármálum heimilisins. Á síðunni geta neytendur gert samanburð á sem dæmi húsnæðislánum, endurfjármögnun, raforku og skráð sig í viðskipti eða sent umsókn í gegnum Aurbjörgu.“

Tinna segir húsnæðislánin stóran hluta af heimilisbókhaldinu og því sé mjög mikilvægt að fara ofan í kjölinn á þeim.

„Við bjuggum til sérstaka reiknivél fyrir húsnæðislánin, sem reiknar út og birtir upplýsingar um húsnæðislán sem eru í boði út frá forsendum notandans. Ég hef hjálpað mörgum í fjölskyldu- og vinahópnum að skoða og meta lánamöguleika við fasteignakaup. Þessi reiknivél hefur einfaldað málin það mikið að eftir að hún var gerð aðgengileg á Aurborg.is, hef ég getað vísað fólki beint á reiknivélina sem finnur besta kostinn fyrir fólk hvort sem það leitar eftir nýju láni eða endurfjármögnun.

Það eru þúsundir fyrirspurna sem koma frá fólki í gegnum lánareikninn okkar mánaðarlega og við heyrum reglulega frá notendum sem hafa náð að spara sér mikla fjármuni með þjónustunni. Það var til dæmis einn notandi sem sendi okkur miklar þakkir eftir að hann náði að endurfjármagna lánin sín og spara sér 60.000 krónur á mánuði. Það munar nú um minna!“

Fór óhefðbundna leið í fasteignakaupum

Þegar Tinna festi kaup á sinni fyrstu íbúð í Hafnarfirði var hún einungis um tvítugt.

„Ég er svo heppin að eiga mjög forsjála foreldra sem tóku ekki annað í mál en að ég myndi fara í þá fjárfestingu að kaupa mér mitt eigið húsnæði, eftir að ég byrjaði í fullu starfi. Fyrstu kaupin voru nýbygging sem var ekki tilbúin og náði ég með því að greiða innborgunina yfir nokkurra mánaða skeið sem hentaði mjög vel fyrir mig. Einnig leigði ég íbúðina út fyrsta árið sem auðveldaði mér kaupin.“

Hvaða ráð áttu fyrir ungt fólk sem langar að eignast sína fyrstu íbúð?

„Ég myndi ráðleggja ungu fólki að stofna viðbótarséreignarsparnað sem fyrst, en fyrstu kaupendur geta notað uppsöfnuð iðgjöld til kaupa á fyrstu íbúð skattfrjálst. Það er því gott að byrja sem fyrst og þá eru líkur á að góð upphæð sé komin inn í sparnaðinn þegar huga á að fasteignakaupum.“

Hvað með þá sem eru fastir á leigumarkaði, hvað geta þeir gert?

„Þar er líka möguleikinn að safna upp viðbótarséreignarsparnaðinum, hann virkar þannig að einstaklingar geta valið að setja 2 eða 4% af heildarlaunum sínum inn á sparnaðinn, vinnuveitandi leggur á móti 2%. Með þessari leið geta einstaklingar safnað allt að 6% af heildarlaunum á mánuði. Ef við tökum dæmi um aðila með 750 þúsund króna heildarlaun þá getur hann safnað sér 45.000 á mánuði.“

Tinna er jafnframt spennt fyrir vildaráskrift sem var sett í loftið nýverið, með áhugaverðum nýjungum og möguleikum fyrir fólk á fasteignamarkaði.

„Þjónustan vaktar til dæmis kjör á húsnæðislánum, veitir aðgang að rafrænu verðmati fasteigna og birtir fréttir þessu tengdar. Premium-notendur fá góða yfirsýn yfir eignastöðuna sína, geta séð útreikning á sparnaði við að borga aukalega inn á höfuðstól láns og fá tilkynningar þegar er heppilegur tími til að endurfjármagna lánin sín.“

Vill fjárfesta í upplifun þó öryggi skipti hana miklu máli

Tinna segir að með því að endurfjármagna og vera sífellt að skoða málin geti fólk eins og hún lifað því lífi sem það dreymir um.

„Ég er mikið fyrir öryggi í lífinu, en vil fjárfesta í upplifun og ferðalögum líka. Því spyr ég mig reglulega að því hvernig lánin mín líta út í dag? Með þessu móti spara ég peninga og get þá veitt mér það sem mig langar í lífinu.“

Hvað mun árið 2022 bera í skauti sér?

„Ég vona að við munum ná tökum á kórónuveirunni fljótt svo ég geti haldið áfram að æfa af krafti á morgnana í World Class. Ég vakna vanalega klukkan sex og æfi þar með frábærum hópi vinkvenna minna og síðan fer ég heim þar sem dagurinn hefst með börnunum mínum. Ég er mikið náttúrubarn og finnst fátt jafnskemmtilegt og að hlaupa úti í guðsgrænni náttúrunni, ég vona að ég komist til að sinna því á árinu. Hápunkturinn er fjallahlaup á Bræðslunni í Borgarfirði eystra, með fjölskyldunni. Ég byrjaði líka í golfi á síðasta ári með skemmtilegu fólki og kolféll fyrir því. Svo dreymir mig um að komast í ferðalög á framandi slóðum með strákana mína, en fyrirhugað er að fara til Kúbu ef ástandið batnar á árinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál