Byrjaði sem flugþjónn en er nú framkvæmdastjóri flugfélags

Unndór Jónsson.
Unndór Jónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Lífshlaup Unndórs Jónssonar er ágætis dæmi um að fólk endar ekki alltaf á þeim stað í lífinu sem það ætlaði sér, og að stundum virðist leiðin á áfangastað ráðast af tilviljun.

Unndór er framkvæmdastjóri sölu- og markaðsdeildar Air Atlanta en þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla dreymdi hann um að verða blaðamaður.

„Eftir stúdentspróf fór ég beint til Bandaríkjanna í nám í fjölmiðlafræði við Háskólann í Alabama. Ég vildi líka sjá hvað heimurinn hefði upp á að bjóða og þegar ég lít til baka sé ég hvað það var gefandi og eflandi fyrir mig sem einstakling að fara út í nám. Það er öllu ungu fólki hollt að stunda nám erlendis í skemmri eða lengri tíma, þó ekki væri nema til að fá tækifæri til að standa á eigin fótum,“ segir hann.

„Að vísu fór svo á endanum að ég lagði blaðamennskuna ekki fyrir mig. Mig dreymdi um að skrifa tímaritsgreinar og fyrsta eitt og hálfa árið eftir útskrift vann ég hjá bandarísku köfunartímariti, enda með bakgrunn í köfun og köfunarkennslu, og fór í nokkrar köfunarferðir á þeirra vegum. En ég fann mig ekki í Bandaríkjunum og sneri aftur til Íslands 1995.“

Það var ládeyða í íslensku atvinnulífi um miðjan 10. áratuginn og ekki úr mörgum safaríkum störfum að velja fyrir ungan mann með glænýja gráðu í fjölmiðlafræði. Fór svo að Unndór réð sig til starfa hjá Air Atlanta sem flugþjónn í pílagrímaflugi flugfélagsins og næstu misserin var hann á þeytingi á milli Sádi-Arabíu og múslimaríkja í Afríku og Asíu. Hann minnist þessara ára með hlýhug og fannst pílagrímarnir oft mjög þakklátir og elskulegir farþegar.

„Ég færði mig svo yfir á rekstrarsvið flugfélagsins og hafði unnið við skrifstofustörf í nokkur ár þegar ég ákvað að láta gamlan draum rætast og hefja nám í sjávarlíffræði.“

Leyndardómar undirdjúpanna

Unndór er mikið náttúrubarn og á þessum tíma undi hann sér hvergi betur en í köfunarleiðöngrum, og vildi byggja ofan á það sem köfunin hafði kennt honum um lífríki sjávar. Eins og við var að búast hafði Unndór mjög gaman af náminu þó hann játi að hafa haft takmarkaðan áhuga á fögum á borð við örverufræði og sameindalíffræði, en haft þeim mun meira gaman af almennum námskeiðum um dýr og plöntur í hafi og vötnum.

„En ég ákvað að láta staðar numið þegar BS-gráðan var í höfn, frekar en að sérhæfa mig enn frekar með meistaranámi. Þarna er ég orðinn 31 árs og í stað þess að kafa dýpra ofan í sjávarlíffræðina sný ég aftur til flugfélagsins og fæ í þetta skipti inn á mitt borð æ fleiri verkefni tengd fjármálum. Til að styrkja mig í starfi gerði ég því eins og margir aðrir á þessum tíma; skrái mig í nám í verðbréfaviðskiptum og gerist löggildur verðbréfamiðlari. Þetta var rétt fyrir hrun og verðbréfamiðlun mikið tískufag, en í þessu námi kviknaði hjá mér alvöru áhugi á fjármálum og fékk ég meira að segja um skeið starf hjá fjárfestingarbanka.“

Næsti kafli skólagöngunnar var meistaranám í fjármálum en til að flækja söguna ekki of mikið var atburðarásin nokkurn veginn þessi: Árið 2011 hóf Unndór meistaranámið en var síðan ráðinn til WOW, sem þá var nýstofnað, árið 2012. Hann þurfti því að gera hlé á náminu enda nóg að gera í vinnunni og líka nóg að gera heima fyrir með tvö ung börn. Árið 2013 færði Unndór sig yfir til flugfélags í Litháen og var þar allt til 2018 þegar hann ræður sig aftur til starfa hjá Air Atlanta og tekur þá aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið í meistaranáminu.

„Þá voru aðstæður mínar orðnar allt aðrar og strákarnir mínir orðnir eldri. Skipulagi námsins hafði líka verið breytt þannig að hverri önn var skipt í tvær snarpar lotur, og ég fékk líka betra svigrúm í vinnunni til að gera hlé á störfum mínum þegar námið kallaði á það,“ segir Unndór og bætir við að hann megi þakka fyrir að eiga skilningsríkan maka sem tók að sér meira af heimilishaldinu þegar þess þurfti. „Stundum þurfti ég einfaldlega að geta læst mig inni í herbergi og fá að læra í friði, og meðan á náminu stóð var afskaplega lítill tími til að gera eitthvað annað.“

Unndór segir að ef eitthvað er hafi reynslan og aldurinn veitt honum forskot í fjármálanáminu. „Við vorum nokkur þarna á svipuðum stað í lífinu, og ég sá að við áttum auðveldara með að tengja það sem við lærðum í kennslustundum við raunveruleg atvik úr okkar eigin starfsferli. Unga fólkið sem kom í meistaranámið nýútskrifað úr grunnnámi hafði það aftur á móti fram yfir okkur eldri nemendurna að vera flinkara í öllu sem snerti tölvumál. Munurinn á hópunum minnkaði síðan eftir því sem leið á námið.“

Vill læra smíði

Unndór gæti ekki verið ánægðari með námið, og sér ekki eftir neinu á fjölbreyttum og óvenjulegum námsferlinum. „Maður græðir alltaf á því að setjast á skólabekk, verður bæði víðsýnni og fróðari, og nær að virkja heilann með öðrum hætti en maður á kost á alla jafna. Það að fara í háskólanám á miðjum aldri er eitthvað sem ég mæli heilshugar með,“ segir hann og rétt að það láta fljóta með að Unndór er auðvitað líka með pungapróf.

Er freistandi að spyrja Unndór hvort hann hyggi ekki á frekara nám? Þætti honum kannski gaman að ljúka doktorsgráðu?

„Ég gæti alveg hugsað mér að halda áfram að mennta mig, en frekar en að fara aftur í háskóla þætti mér gaman að spreyta mig á iðnnámi og læra smíði. Það hentar mér ágætlega að vera „fjölnota kubbur“, og sækja mér þekkingu á mörgum sviðum frekar en að sérhæfa mig í einu tilteknu sviði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda