Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club, fagnar þeim afléttingum sem tilkynntar voru í dag. Hún segir rýmri samkomutakmarkanir henta þeim vel og fagnar lengri afgreiðslutíma.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti í dag að nú megi 200 manns koma sama, en áður máttu aðeins 50 koma saman. Þá mega skemmtistaðir hleypa fólki inn til miðnættis og þurfa að loka fyrir klukkan eitt eftir miðnætti.
„Við erum bara í skýjunum þetta, þessar afléttingar koma fyrr en maður bjóst við,“ segir Birgitta í samtal við mbl.is. Hún er ánægð með að fá einn klukkutíma í viðbót og segir gott að vera laus við hólfaskiptingu.
Spurð hvort hún hefði viljað sjá lengri afgreiðslutíma skemmtistaða segir Birgitta nei. „Við gerum út á það að hafa aðeins heilbrigðara skemmtanalíf og að fólk komi fyrr og fari fyrr heim. Þannig þetta er alveg í takt við okkar stefnu.“
Þegar takmörkunum var fyrst aflétt í janúar náðu Birgitta og teymið hennar að opna Bankastræti Club með rúmlega sólarhrings fyrirvara.
„Ég náði að kalla saman starfsmannafund vikuna áður, ég var bara með einhverja „gut feeling“ fyrir þessu. Þannig við náðum að opna á laugardagskvöldinu. Sjálf var ég í skíðalyftu erlendis þegar ég hlustaði á fréttirnar. Þannig ég hringdi í vaktstjórann heima og þeim tókst að opna,“ segir Birgitta.