Berglind Ósk Guðmundsdóttir, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir lífið eftir kosningar hafa verið skrítið og eftir að þingsetan hófst hafi enginn dagur verið eins. Hún segir það hafa verið mikla áskorun að ákveða að bjóða sig fram.
Berglind tekur sjálfa sig ekki of alvarlega og segir það vera betra að reyna og mistakast, en að þora aldrei að gera neitt. Hún segir lykilinn að því að vera sæmilega útlítandi eftir langa þingfundi vera góður farðagrunnur og gott kaffi.
Af hverju ákvaðst þú að bjóða þig fram til Alþingis?
„Það er mikilvægt að margar mismunandi raddir heyrist á Alþingi. Ég tel það hlutverk stjórnmálamanna að hlusta á aðra og eiga innihaldsríkar rökræður um hin ýmsu mál en það sem höfuðmali skiptir er að hafa skýra framtíðarsýn á möguleika og tækifæri Íslands og raunverulegar leiðir að því markmiði. Þar tel ég menntakerfið eigi að spila veigamikið hlutverk í því að ýta undir framþróun og farsæld íslensku þjóðarinnar, menntakerfið er besta leiðin til að tryggja öllum jöfn tækifæri til þess að vaxa og dafna.
Samkennd er líka mikilvægur eiginleiki, með því að geta sett sig í spor annarra verður leiðin að lausnum skýrari.“
Var það mikil áskorun fyrir þig að ákveða að bjóða þig fram?
„Það var auðvitað mikil áskorun að bjóða mig fram og því fylgdi mikið álag, en eftir mikla hvatningu var ákvörðunin ekki erfið og ég er mjög þakklát fyrir alla sem stóðu þétt við bakið á mér. Það er nú einu sinni þannig að maður stendur aldrei einn í framboði, bakvið mig er hópur af góðu fólki sem deilir minni hugsjón og krafti.
Svo naut ég hvers dags í kosningabaráttunni því hún kjarnar það besta við starfið: að tala við fólk allan liðlangann daginn, rökræða og ræða lausnir.“
Hvernig hafa fyrstu mánuðirnir á þinginu verið?
„Fyrstu mánuðir eftir kosningarnar voru skrítnir fyrir nýjan þingmann, en ég notaði tímann vel til að skipuleggja næstu verkefni og hlúa að fólkinu mínu. Eftir þingsetningu hefur enginn dagur verið eins. Eins hefur heimsfaraldurinn og sóttvarnaraðgerðir sett strik í reikninginn. Nú virðumst við loks vera á leið úr viðbrögðum við faraldrinum og ég trúi því að dagarnir verði fjölbreyttari handan tölvuskjásins. Ég hlakka mest til að halda fleiri opna fundi sjálf og að ferðast reglulega um til að halda góðri tengingu við fólkið mitt í norðausturkjördæmi.“
Saknarðu þess að búa alfarið heima á Akureyri?
„Já mjög mikið, lífið var í mikilli rútínu heima og nálægðin við stórfjölskylduna og vinina var auðvitað best. Hinsvegar hef ég fundið að tíminn minn heima á Akureyri er betur nýttur, þar sem ég skipulegg fleiri hittinga og fer í fleiri heimsóknir um helgar. Mig langaði að segja að ég sakna sérstaklega veturins á Akureyri, því ég elska snjó, en þá er búið að snjóa mikið í borginni og allt gengur á sniglahraða í umferðinni hér svo það er kannski bara best að vera að mestu laus við snjóinn.“
Hvernig er þín morgunrútína?
„Ég er að reyna að segja snooze-takkanum upp svo vekjaraklukkan er geymd á náttborði kærastans sem sér um það að koma mér og dótturinni frammúr á morgnana. Ég hélt að ég væri erfið á morgnana en dóttir mín er heimsins mesti kúrari. Þá næst skelli ég mér í sloppinn og kveiki á kaffivélinni, sem er óheyrilega hávær, og fæ mér sterkan bolla á meðan ég reyni að fríska upp á andlitið. Stelpan skríður á fætur og ég reyni að bjóða henni morgunmat, sem hún sjaldnast þiggur, og útbý þá nesti handa henni. Ég er yfirleitt búin að ákveða í hvað ég klæði mig kvöldið áður, til að hægja ekki á morgunrútínunni. Kærastinn sér yfirleitt um að fara með hundinn út en þegar hann fer snemma í vinnu þá sé ég um hundinn. Þá næst skutla ég stelpunni í skólann og reyni að vera komin upp á skrifstofu til að svara tölvupóstum áður en ég fer á fyrsta nefndarfund dagsins á þinginu.“
Á hvaða tónlist hlustar þú á á laugardagskvöldi?
„Í heimsfaraldri hefur það gjarnan verið eitthvað rólegt og rómantískt á meðan ég elda, James Bay er klassískur. Ef það er gírun fyrir gott kvöld úti með vinum er ekki verra að hlusta á Robbie Williams eða góða „house“ tónlist.“
Hvert er besta ráð sem þú hefur fengið ?
„Ekki taka þér of alvarlega, það er betra að reyna og mistakast en að þora aldrei neinu.“
Hvaðan sækir þú innblástur þegar kemur að tísku?
„Frábær spurning og tískan er klárlega eitthvað sem ég pæli mikið í. Ég er „netverslunargluggashopper“, þ.e. ég eyði miklum tíma í að skoða netverslanir og fylla á körfuna- sem ég svo aldrei kaupi. En þannig er auðvelt að fylgjast með nýjustu straumum í tískunni. Ég reyni þó líka að eiga tímalausar flíkur sem hægt er að klæðast við öll tilefni. Ég er þó með eina reglu, og það er að ég klæðist aldrei neinu sem mér finnst óþægilegt. Lífið er of stutt til að þjást í óþægilega þröngu til dæmis - „you look good, you play good“.“
Hvaða snyrtivöru getur þú ekki lifað án?
„Augabrúnagelið frá Anastasia Beverly Hills hefur komið sterkt inn síðustu ár. Með vel greiddar augabrúnir eru manni allir vegir færir.“
Hver er síðasta utanlandsferð sem þú fórst í?
„Ég skrapp til Parísar í byrjun janúar með kærastanum. Kærkomið frí, þó það hafi verið heldur kalt. Næst verður það sólarferð!“
Hvaða stað dreymir þig um að ferðast til?
„Er að vinna í svokölluðum „bucketlist“ af draumaferðalögum en ég hef lítið ferðast, eðli málsins samkvæmt, síðustu ár og finn ferðaþránna blossa reglulega upp. Núna langar mig helst í ferðalag um suður-Ítalíu með viðkomu á sem flestum vínekrum og pastastöðum.“
Hver er lykillinn að því að vera sæmilega útlítandi á löngum þingfundum?
„Góður primer undir farðann og gott kaffi!“