Þóra heimsótti stærstu glæpasagnahöfunda Norðurlanda

Þóra Karítas Árnadóttir fer með áhorfendur í ferðalag um Norðurlöndin …
Þóra Karítas Árnadóttir fer með áhorfendur í ferðalag um Norðurlöndin í þáttunum Morð í norðri. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

„Mér fannst heillandi að ferðast til Norðurlanda til að bjóða áhorfendum upp á ferðalög í miðjum heimsfaraldri þar sem fólk var að ferðast mun minna en áður og áttaði mig á að Íslendingar þekkja ótal marga vinsæla norræna glæpasagnahöfundana mjög vel og eiga kannski uppáhalds höfund frá mismunandi löndum svo mér fannst ekki svo galið að láta þessa hugmynd verða að veruleika,“ segir Þóra Karítas Árnadóttir sem nýverið rak smiðshöggið á þættina Morð í norðri sem sýndir eru á Sjónvarpi Símans. 

Í þáttunum skyggnist Þóra inn í líf helstu glæpasagnahöfunda Norðurlandanna sem eiga það sameiginlegt að hafa náð ótrúlegum árangri á heimsvísu. Hugmyndina að þáttunum á lögreglumaðurinn Ragnar Jónsson, en hann er einnig höfundur Svörtu sanda sem nýverið voru sýndir á Stöð 2. 

„Hann er mikill áhugamaður um glæpasögur enda vinnur hann við að rannsaka glæpi en hann langaði að kanna hversu nálægt raunveruleikanum og hversu mikla rannsóknarvinnu glæpasagnahöfundar lögðu upp með,“ segir Þóra. 

Serían í heild sinni er nú aðgengileg á Sjónvarpi Símans.

Þekkjum ekki fólkið á bak við bækurnar

Glæpasögur rithöfunda frá Norðurlöndum hafa svo sannarlega vakið athygli hér á Íslandi og um heim allan og má segja að „Nordic noir“ æði hafi gripið heimsbyggðina. En eins og Þóra bendir réttilega á þekkjum við ekki endilega fólkið á bakvið bækurnar. 

„Við þekkjum flest Stieg Larsson en vitum kannski ekki að Lars Kepler hjónin hafa selt fleiri bækur en hann og nefndu höfundanafn sitt Lars til heiðurs Stieg Larsso og þekkjum kannski frekar sjónvarpsefni frá Danmörku en glæpasagnahöfunda landsins svo það er gaman að kynnast þeim betur,“ segir Þóra. 

Viðmæl­end­ur í þátt­un­um eru ís­lensku rit­höf­und­arn­ir Ragn­ar og Yrsa Sig­urðardótt­ir ásamt nor­rænu glæpa­höf­und­um Lars Kepler, Kati Hiekkap­elto, Antti Toumain­en, Vi­veca Sten, Agnes Ravatn, Gunn­ar Sta­ales­en, Jussi Adler Ol­sen og Sara Blædel.

„Þessir þættir eru því hugsaðir af minni hálfu fyrir þá sem njóta þess best að lesa glæpasögur og finnst gaman að fara á fund höfunda þeirra, þá sem vilja sjá nýtt umhverfi og ferðast ekki bara með því að lesa bækurnar heldur með því að sjá umhverfið sem þær eru skrifaðar inn í og einnig fyrir þá sem vilja fræðast um hvernig glæpasögur verður til en höfundarnir eru mjög örlátir á að deila vinnuaðferðum sínum með okkur í þáttunum,“ segir Þóra.

Ragnar Jónasson og Þóra Karítas á slóðum bóka Ragnars fyrir …
Ragnar Jónasson og Þóra Karítas á slóðum bóka Ragnars fyrir norðan.

Bjóst ekki við að ná öllum höfundunum

Þóra segir það hafi ekki verið erfitt að velja hvaða höfunda hana langaði til að tala við. Hún byrjaði að ræða verkefnið við Ragnar Jónasson, en hann er góður vinur hennar. Þau hittust á fundi ásamt Yrsu Sigurðardóttur og deildu þau tengslum sínum við aðra glæpasagnahöfunda með henni. 

Í þáttunum er farið til Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands en einnig Serbíu. „Einn af höfundunum Kati Hiekkapelto hefur skrifað Kólibrífuglinn sem margir kannast við í íslenskri þýðingu og aðalpersónan í þeirri bók er innflytjandi í Finnlandi sem er upprunalega frá Serbíu. Það var verulega áhugavert að heimsækja Serbíu auk hinna landanna en þetta var líka í fyrsta sinn sem ég kom til Helsinki í Finnlandi og til Bergen í Noregi,“ segir Þóra.

„Ég bjóst ekki endilega við að ná öllum þessum höfundum í þáttinn sérstaklega ekki nöfnum eins og Jussi Adler Olsen sem er mjög stórt nafn í þessum geira og Lars Kepler en við vorum mjög heppin að allir voru tilbúnir að gefa af tíma sínum og í raun þyrstir í félagsskap því höfundarnir höfðu ekki ferðast eða hitt fjölmiðlafólk og blaðamenn óvenju lengi þegar okkur bar að dyrum svo í raun var tímasetningin mjög góð eftir á að hyggja,“ segir Þóra.

Skrifa um morð en eru hress og glöð

Þóra segir að það hafi komið henni á óvart hvað rithöfundarnir ættu margt sameiginlegt. Hún segir þau eiga það sameiginlegt að vera ótrúlega ákvæð og skemmtileg og hafa ástríðu fyrir því sem þau gera.

„Þau eru ótrúlega vinnusöm og kraftmikil og þurfa mikla skipulagningu til að halda áfram að gefa út bækur því fyrir heimsfaraldurinn þá tóku ferðalög mikinn tíma frá skrifunum hjá flestum þessara höfunda en þau ferðast víða til að hitta lesendur sína. Við hlógum líka að því að það væri forvitnilegt að þau ættu það öll sameiginlegt að vera ótrúlega hress og glöð þrátt fyrir að velja að gera ævistarf sitt það að sitja heima hjá sér og upphugsa morð og velta sér upp úr hryllilegum atburðum.“

Þóra á Siglufirði.
Þóra á Siglufirði.

Þóra segir helstu áskorunina hafa falist í því að ferðast til sex landa í heimsfaraldri en að það hafi allt gengið vel og enginn veikst. Með í ferð var meðframleiðandi þáttanna, Dalla Jóhannsdóttir, en hún er nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur og minnti fólkið á grímunotkun og spritt.

Ferðalögin og upptökurnar gengu ótrúlega vel að sögn Þóru en með henni í för var Steingrímur Jón Þórðarson og var hann kvikmyndatökumaður og klippari. Hann er mikill fagmaður og einn sá besti í bransanum að mati Þóru.

„Ég hefði ekki getað skilað þáttunum svona hratt og örugglega í hús og svo nær hann að láta þetta allt svínlúkka. Ragnar lögreglumaður var lífvörður á setti og við heimsóttum kollega hans á lögreglustöðinni á Siglufirði og var með í hugmynda og rannsóknavinnu með okkur ásamt Döllu. Svo er ég alltaf með topp hljóðmann því ég veit það skiptir máli og var svo heppin að Golli eða Ingólfur Guðjónsson var laus en hann er sérlega hjálplegur þegar ég geri kynningar í vél að hjálpa mér að umorða hlutina ef þarf svo ég kalla hann málfarsráðunaut þáttarins,“ segir Þóra.

Í kringum framleiðsluna stofnaði Þóra einnig fyrirtækið SilfraProductions og naut hún dyggrar aðstoðar Guðnýjar Guðjónsdóttur hjáProjects sem sér um fjármálastjórnina í verkefninu. Þá er hún líka þakklát Pálma Guðmundssyni hjá Sjónvarpi Símans fyrir að hafa trú á verkefninu. 

Þóra heimsótti Yrsu Sigurðardóttir.
Þóra heimsótti Yrsu Sigurðardóttir.

Serbía eftirminnileg

Í þáttunum lagði Þóra upp með að heimsækja bæði borg og sveit í hverju landi. Hér á Íslandi fór hún með Ragnari á Siglufjörð sem henni þótti ansi magnað. „ Að sjá heimili lögreglumannsins Ara á Siglufirði, en náttúran skartaði sínu fegursta – við fengum sólríkt sumarveður þegar það var komið haust í Reykjavík og smökkuðum siglfirska hnúta sem eru afbragðs súkkulaðisnúðar og norðurljósin dönsuðu meira að segja fyrir okkur eftir að tökum var lokið. Svo var gaman að ganga við Gálgaklett sem er sögusviðið í Gatinu eftir Yrsu Sigurðardóttur,“ segir Þóra. 

Með Hiekkapelto fóru þau til Serbíu sem Þóra segir hafa verið mjög svo eftirminnilegt. Þau þurftu að bíða lengi á landamærunum í rúgbrauðsbíl og hafði Þóra áhyggjur af alltof stóru málverki sem hún keypti af bestu vinkonu Hiekkapelto, en það reddaðist. 

„Í Serbíu dönsuðum við líka á veitingastað sem persónur í bókumHiekkapelto eru fastagestir á. Þar var fámennt og góðmennt en húsband að spila svo þetta var svolítið eins og að komast óvænt í dansfíling í félagsheimili úti á landi og heimamenn komu út á golf af því við byrjuðum að dansa svo það var mjög eftirminnilegt og þakklátt þegar maður er orðinn dansþyrstur eftir samkomutakmarkanir.“

Agnes Ravan og Þóra í norsku sveitinni.
Agnes Ravan og Þóra í norsku sveitinni.

Eins og ritlistarnámskeið

Þóra er sjálf rithöfundur og hefur gefið út tvær bækur, Blóðberg og Mörk – saga mömmu, og er hvorug bókanna skáldsaga. Áður hún réðst í gerð þáttanna hafði hún ekki lesið margar glæpasögur en við undirbúning las hún fjölda glæpasagna. 

„Ég hef alltaf valið frekar fagurfræðiskáldsöguna til að lesa mér til ánægju en gat talið á fingrum annarrar handar þær glæpasögur sem ég hafði lesið. Það átti eftir að breytast þegar ég undirbjó þáttinn og ég kynnti mér flestar bækurnar sem höfðu komið út eftir hvern höfund,“ segir Þóra. 

Hún segir það hafa verið mjög fróðlegt að hitta alla höfundana og að það hafi verið smá eins og að fara á ritlistarnámskeið eða að hitta kollega í kaffispjalli. 

„Það er gaman að ræða um hugmyndir, hvernig þær kvikna og allir eru sammála um að það sé bara fyrsta skrefið en vinnan liggur í framkvæmdinni og þar skilur kannski á milli þeirra sem skrifa bækur eða langar að skrifa bækur en gera það ekki. Það var líka gaman að sjá að fólk getur lifað góðu lífi af skrifum sem er ekki endilega sjálfsagt mál og hvernig verkefnin hafa fætt af sér önnur verkefni í formi sjónvarpsþátta eins og Sandhamn seríunnar og fleira.“

Antti Toumanien og Þóra í Finnlandi.
Antti Toumanien og Þóra í Finnlandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál