Alexandra Helga Ívarsdóttir eiginkona Gylfa Þórs Sigurðssonar og Móeiður Lárusdóttir eiginkona Harðar Björgvins Magnússonar hafa stofnað fyrirtækið Móa&Mía ehf.
Alexandra Helga er framkvæmdastjóri félagsins en Móeiður prókúruhafi. Hlutafé félagsins er milljón króna en tilgangur félagsins er að reka verslun með barnavörur og stunda innflutning ásamt annarri skyldri starfsemi.
Alexandra og Gylfi Þór eignuðust dótturina Melrós Míu í fyrra en þá höfðu þau reynt að eignast barn í fimm ár. Hún ræddi einmitt um ófrjósemi við Björk Eiðsdóttur í Fréttablaðinu síðasta sumar.
„Við leituðum fyrst til læknis eftir að hafa reynt í sirka ár og fengum þá þær fréttir að líklegast yrði ekki auðvelt fyrir okkur að eignast barn. Við vorum rúmlega 26 ára og lifðum mjög heilsusamlegu lífi og erum bæði hraust svo þetta var ákveðið sjokk,“ sagði Alexandra Helga í Fréttablaðinu síðasta sumar.
„Ég var svo spennt að vera komin í einhvers konar ferli og fá loksins hjálpina sem þurfti og hélt svo innilega að þá myndi allt ganga upp. Ég þurfti að hafa mikið fyrir því að koma mér aftur í gang eftir það,“ segir Alexandra sem á sama tíma var að glíma við mikla króníska bakverki. „Blandan af þessu tvennu var mjög erfið andlega og líkamlega,“ segir hún jafnframt.
Móeiður á eina dóttur og á von á annrri. Þær Alexandra Helga eru báðar þekktar smekkkonur og eiga án efa eftir að selja foreldrum á Íslandi fagran fatnað og fylgihluti fyrir afkvæmi sín.