Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, er uppalin í Skagafirði sem smitaði hana af áhuga á náttúrunni og útivist. Á páskunum ríður hún út og fer á skíði. Hún er með meistaragráðu í næringarfræði og doktorsgráðu í matvælafræði.
Hún er meðstofnandi PROTIS og hugmyndasmiðurinn að PROTIS Fiskprótín-vörunum og er gift Stefáni Friðrikssyni dýralækni og eru þau búsett í Glæsibæ í Skagafirði ásamt börnum sínum þremur, þeim Friðriki Þór, Herjólfi Hrafni og Heiðrúnu Erlu.
Spurð út í áhugamál kemur í ljós að hún er mikill bókaormur.
„Ég hef mjög gaman af því að lesa og hlusta á bækur sem byggjast á sögulegum heimildum. Ég er nýbúin að lesa bók sem heitir Aldrei nema kona eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur og fjallar bókin um þrjá ættliði kvenna í Skagafirði á 18. og 19. öld. Þessar konur fæddust inn í vinnuskonustétt og þurftu að heyja harða og mjög svo ósanngjarna lífsbaráttu þar sem þær áttu aldrei séns á bættu hlutskipti. Núna er ég að hlusta á bók sem heitir Fjórar systur og er saga rússnesku keisaradætranna. Mjög áhugaverð saga sem gefur manni innsýn inn í líf fyrirfólksins í Evrópu í lok 19. og byrjun 20. aldar og hversu mikil byrði það gat verið að fæðast inn í aðalsætt. Annars keypti ég mér bók um sveppatínslu í fyrra og ætla mér að notfæra mér allt það sem þar stendur í sumar. Fyrir utan hvað er gaman að vera úti í náttúrunni og tína þá eru þeir algjört lostæti.“
Hvernig skreytir þú heimili þitt á páskunum?
„Ég skreyti helst með því að kaupa mér páskaliljur og verða mér úti um birkigrein sem ég hengi skraut á sem er oftar en ekki eitthvað sem krakkarnir okkar hafa gert þegar þau voru lítil.“
Sem barni fannst Hólmfríði föstudagurinn langi leiðinlegasti dagur ársins.
„Það var allt svo dauflegt á þessum degi þrátt fyrir að við værum í fríi. Í dag reyni ég að vera sem mest úti og njóta þess að vera í fríi með fjölskyldunni. Á þessum tíma er daginn farið að lengja og ekkert sem rekur mann inn. Í sveitinni er alltaf nóg að gera úti og sérstaklega þegar snjóa fer að leysa og rusl kemur í ljós sem farið hefur undir snjó yfir veturinn.“
Hvað gerir þú tengt frístundum um páska?
„Ég reyni alltaf að komast á skíði um páskana. Ég og maðurinn minn byrjuðum að stunda svigskíði fyrir nokkrum árum og höfum reynt að komast eins oft og við getum yfir veturinn á skíði. Við fjölskyldan eigum hesta og eru strákarnir mínir og maðurinn minn miklir hestamenn. Dóttir okkar er búin að vera dugleg í vetur að ríða út en ég byrja yfirleitt um páskana að fara á hestbak. Ég er ekki eins dugleg og restin af fjölskyldunni að ríða út yfir háveturinn. Ég hef líka mjög gaman af því að ganga. Ég er að fara með vinkonu minni í sumar að ganga í hlíðum Mont Blanc og er ég staðráðin í því að nýta tímann um páskana og æfa mig í hlíðum Staðarfjallanna.“
Páskarnir í sveitinni eru tími þar sem fjölskyldan er í fríi frá hefðbundinni vinnu og eru þau þá mikið að vinna úti í kringum hestana eða að dytta að einhverju.
„Þegar ég læt hugann reika aftur í barnæskuna er mér efst í huga hversu mikla vinnu mamma mín lagði í að skreyta húsið og hafa góðan mat á páskunum. Hún hafði mikinn metnað fyrir því að búa til skrautið sjálf, blés úr eggjum og málaði þau af mikilli alúð. Sérstaklega er mér minnisstætt að við systurnar fengum aldrei páskaegg eins og allir hinir krakkarnir í kringum okkur. Mamma var alveg einstaklega flink í höndunum og bjó alltaf til eitthvað sjálf úr súkkulaði handa okkur. Ég man hvað ég hugsaði oft: af hverju fæ ég ekki bara páskaegg eins og allir hinir? Í dag er ég mömmu mjög þakklát og kann að meta hugsunina og alúðina á bak við súkkulaðigjafirnar hennar á páskunum.“
Fjölskyldan er ekki með neinar hefðir í kringum mat eða annað á páskunum.
„Lambalæri verður oft fyrir valinu. Við höfum aldrei náð að byggja upp hefðir í kringum neitt, en við erum einhvern veginn þannig. Þegar krakkarnir okkar voru lítil földum við páskaeggin í sveitinni og það varð alltaf mikill spenningur í að leita að eggjnum. Þetta hefur lagst af eftir að krakkarnir urðu fullorðin.“
Það besta sem Hólmfríður gerir fyrir sig er að fara í sund.
„Ég elska að fara í sund og að vera í sundi. Mér finnst ég svo frjáls í vatninu og að mínu mati felst líka svo mikil heilun í því að vera einn með sjálfum sér umluktur vatni.“
Hólmfríður hefur lengi fylgst með Háskólanum á Hólum, þar sem hún er fædd og uppalin í Skagafirði.
„Eins hef ég lengi verið að vinna að nýsköpunarverkefnum og hef fundið fyrir þeim mikla styrk sem verkefnin fá með þátttöku háskólanna. Háskólinn á Hólum er lítill háskóli með mikla sérstöðu. Vegna smæðar sinnar á hann að geta sýnt meiri snerpu en stærri háskólar og það hentar nýsköpun í atvinnulífinu vel. Ég sá stöðuna auglýsta og fór að láta hugann reika um öll þau tækifæri sem skólinn hefur upp á að bjóða varðandi áskoranir framtíðarinnar. Ég hef líka verið að fylgjast með því hvernig Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er að byggja upp sitt ráðuneyti, ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, og hennar sýn á háskólana og hlutverk þeirra sem undirstöðu undir íslenskan hugverkaiðnað.
Þessi sýn Áslaugar hefur mikinn samhljóm með minni sýn á háskólasamfélagið og það vogarafl sem háskólar geta verið.“
Það sem Hólmfríði finnst mikilvægast í fari leiðtoga er að hafa skýra sýn „og að deila henni með samferðafólkinu okkar. Það sem ég tel líka ekki síður mikilvægt að tileinka mér er að hlusta á samferðafólk mitt með einlægni og áhuga. Þannig getur maður leyst svo mikla krafta úr læðingi hjá fólki, sem gerir okkur kleift að takast á við verkefnin í sameiningu á árangursríkan hátt.“
Góðir páskar að hennar mati eru án efa að geta notið stundarinnar með fólki í sátt við sig og aðra, en þannig skilgreinir hún almennt velgengni í lífinu.
„Ég held að fólk sé með mismunandi skilgreiningar á velgengni í lífinu og að það fari eftir markmiðum, en það er mjög dýrmætt að gera sér grein fyrir því að maður nær engum markmiðum þegar maður er ósáttur við sjálfan sig eða umhverfið.“
Hvernig getur fólk orðið frumkvöðlar í eigin lífi og hvers vegna ættum við að setjast á skólabekk reglulega?
„Það að verða frumkvöðull í eigin lífi er að hlúa að sér og kynnast sér. Það gerir maður með því að hlusta á sjálfan sig og huga að því hvað maður gerir, hvernig maður bregst við áreiti og hvernig samferðamanneskja maður er. Það er hollt að setjast á skólabekk reglulega til að fjölga verkfærunum sem maður hefur til umráða til að hlúa að sér og samferðafólki sínu til að takast á við áskoranir lífsins.“