Dagur í lífi konu í framboði

Árelía Eydís Guðmundsdóttir.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Um leið og ég þýt út um dyrnar á morgnana reyni ég að muna hvort ég tók örugglega tölvuna, varalitinn og hvort hausinn á mér er fastur á. Ég byrja hvern dag á fundi þar sem farið er yfir dagskrá dagsins. Fundur hér og fundur þar, úthringingar til að tala við borgarbúa og svo þarf að sjá um að skrifa og reyna að koma boðskapnum á framfæri,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands og frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík í nýjum pistli: 

Ég dett aðeins út á fundinum og hugsa til þess hvort að sonurinn sé í úlpu því að það er rigningarlegt úti og ég hitti hann eiginlega ekkert þessa dagana. 

Um leið og fyrsti fundurinn hefst þar sem boðið er upp á kaffi, brauð og sætindi fara áform mín um að borða hollt út um gluggann og upp hefst enn annar dagur þar sem ég borða brauð, súkkulaði og brauð í þessari röð.

Það góða er að ég gleymi mér alltaf í málefnum fundarins, alveg sama hvort verið er að fjalla um fátækt barna, ferðaborgina eða háskólana, skólamál eða leiksskólapláss, heimilislaust fólk. Mér finnst málefnin svo krefjandi og áhugaverð og fyllist orku við að nema og setja mig inn í þau. Á leiðinni frá fundinum man ég að líklega er kötturinn ekki búin að fá neitt að borða í nokkra daga, var til kattarmatur? Hringi í dóttur mína og bið hana að gefa syninum að borða um kvöldið og minni mig á kaupa pasta svo hann hafi neyðarútbúnað á kantinum, já og kattarmat.

Á næsta fundi hitti ég fullt af fólki og það skemmtilega er að ég er m.a. að hitta fólk sem var í stúdentapólitík með mér fyrir nokkrum áratugum. „Ertu ekki í góðri vinnu“ spyr gamall vinur minn sem líka er í póltík. Ég man þá efir því að ég á eftir að semja próf. Ég er nefnilega líka í annarri vinnu. Ég hugsa um stund „hvernig datt mér þetta aftur í hug..?“  Um leið man ég eftir að ég brenn fyrir borginni og málefnum hennar og verð aftur sátt. Reyni að ná að hringja í mömmu á leiðinni á næsta fund.

Það er skrýtið að vera í nýju hlutverki. Ég er vön að vera sérfræðingur sem á er hlustað en núna segir fólk við mig fullum fetum „ég skil ekki hvað þú ert að segja.“ Ég er svo aldeilis hissa og reyni að útskýra aftur en þá er bara yppt öxlum og sagt „þetta er ekki málið.“ Ég tekst á við egóið sem þykist alltaf vita betur en stjórnmál snúast um sameiginlega sýn svo ég lýt í lægra haldi og minni mig á að ef ég get ekki útskýrt mál mitt þá þarf ég að brýna söguna. Ég hringi í borgarbúa, „sæl, ég heiti Árelía Eydís og er í framboði..“ Mér til ánægju taka allir mér vel og sumir krefja mig um flókin svör og ég hef ánægju af því að fá að heyra hvað brennur á fólki. Sakna þess að hafa ekki séð barnabarnið í nokkra daga.

Kem heim seint að kvöldi og drengurinn er sofnaður, heyrði í skiptinemanum sem er erlendis sem ég er farin að sakna sárlega.

Ein af mínum fyrirmyndum í lífinu, Guðrún Helgadóttir sem er nýlátin, sem bæði var rithöfundur og pólitíkus (eins og ég) vildi að konur í stjórnmálum fengju fatastyrk. Ég hugsa til hennar þar sem ég horfi inn í fataskápinn minn í örvæntingu í leit að einhverju til að vera í daginn eftir. Hugsa um leið og ég lít yfir að ef ég held áfram að borða brauð, súkkulaði og brauð þá muni fljótlega ekkert passa. 

Þegar ég leggst á koddann minn seint að kvöldi og fer í huganum yfir daginn þá er ég þreytt en ánægð. Stjórnmálaþátttaka er grundvöllurinn að lýðræðinu og fyrir einstæða móður er það stór ákvörðun að leggja til krafta sína en maður kynnist fullt af skemmtilegu fólki, setur mark sitt á stefnumál og lærir og ég minni mig á að ég vill læra allt lífið og þá er ég sofnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda