Þarf ekki ástarsorg til að mála

Sunneva Ása Weisshappel opnaði stóra sýningu á dögunum.
Sunneva Ása Weisshappel opnaði stóra sýningu á dögunum. Ljósmynd/Anna Maggý

Myndlistarkonan Sunneva Ása Weisshappel opnaði stóra einkasýningu í London á dögunum. Öll eiga þau þó sameiginlegt að fjalla um manneskjuna, hversdagslegar athafnir og tilfinningalega úrvinnslu, kvenfyrirmyndir jafnt sem eitraðan kvennakúltúr, kynbundinn ójöfnuð og valdbeitingu. 

Sunneva er búsett í London og stundar meistaranám í myndlist í Goldsmith-háskólanum. Þaðan hafa myndlistarmennirnir Damien Hirst og Sarah Lucas, dame Vivienne Westwood fatahönnuður og tónlistarmaðurinn Damon Albarn einnig útskrifast.

„Áður en ég flutti út seldi ég öll verkin mín til þess að eiga fyrir náminu í London. Tilviljun réð því að Dorrit Moussaieff hreifst af verkum mínum. Þar sem hún er öllum hnútum kunnug í London lagði hún að mér að sækja þess hátíð og fyrir það er ég henni ákaflega þakklát.

Á hátíðinni hitti ég fyrir eiganda R+V-gallerísins, ræddi við hann og fékk frá honum nafnspjald og tímarit frá safninu, þar sem hann sýndi verkum mínum áhuga. Á leiðinni heim af hátíðinni réðu svo örlögin því að maður í lestinni rak augun í tímaritið. Við tókum tal saman, hann gaf mér nafnspjaldið sitt og var þar kominn annar fulltrúi gallerísins. Ég ákvað því að skrifa þeim bréf. Galleríið yfirfór í kjölfarið öll mín verk og verkefni og fékk mig til fundar. Þá lærði ég að þessir ókunnugu menn, sem ég hafði hitt hvorn í sínu lagi, voru feðgar. Þetta var bara allt svo mikil tilviljun, alveg „absúrd“ í rauninni. Þeir heilluðust svo mjög af verkum mínum og boðskapnum að við ákváðum í kjölfarið að vinna að sýningu saman,“ segir Sunneva.

Ljósmynd/Anna Maggý

Konur fá misvísandi skilaboð

Hún segir að við fáum margvísleg og misvísandi skilaboð frá samfélaginu. Oft sé erfitt að henda reiður á þeim. „Það sem álitið er fallegt og hreint, eins og hvít blúnda á brúðkaupsdaginn, kemur beint úr viðjum kúgunar og ofbeldis,“ segir hún en þannig er lífið eins og málverk hennar; fjarska fallegt og pastelbleikt en við nánari skoðun gróteskt og margvíslegt.

„Þessi torræðu skilaboð skella sérstaklega á konum. Konur eiga að vera náttúrulega fallegar, en þeim leyfist að svindla. Húðlitaðar sokkabuxur eru dregnar yfir bera leggi og konur setja á sig gervihár. Því fagurt hár er prýði en veldur velgju ef það ratar í matinn. Skilaboðin berast okkur alls staðar frá; í gegnum samfélagsmiðla, sögur og ævintýri, fréttir og kjaftasögur,“ segir Sunneva um nýjustu verka hennar á sýningunni í London hjá galleríinu Robilant+Voena.

Galleríið er ítalskt fjölskyldufyrirtæki og heldur úti fleiri galleríum, m.a. í New York, Mílanó og París. Það hefur fram til þessa einbeitt sér að ítalskri list og þekktum listamönnum, meðal annars sýnt verk eftir Picasso, Damien Hirst, Andy Warhol, David LaChapelle, Lucio Fontana og Jeff Koons svo einhverjir séu nefndir. Er því ekki nema von að spurt sé hvernig það kom til að þeir tóku verk Sunnevu til sýningar.

„Ég trúi að þetta tækifæri hafi komið til mín því ég setti það út í veröldina. Ég fór á Frieze-listahátíðina í London síðasta haust, sem er eins konar myndlistarmessa þar sem öll listagallerí heimsins koma saman og sýna rjómann af því besta í listaheiminum í dag.“

Ljósmynd/Anna Maggý

Sýningin og skilaboðin

Á sýningunni gefur að líta stórt málverk með heitið „Garðabrúða“ eða Rapunzel. Þar skoðar Sunneva gömlu söguna um Garðabrúðu þeirra Grimmsbræðra. Í ævintýrum felast lausnir á vandamálum konunnar yfirleitt í hetjulegri björgun karlhetjunnar og þau lifa síðan saman hamingjusöm til æviloka.

„Raunverulegt líf er sóðalegra og flóknara, en samt er stelpum kennt að bíða eftir sinni einu sönnu ást. Þessi hugmynd er öllum hættuleg,“ segir Sunneva og bætir við:

„Því hún kennir okkur konum að bíða eftir að aðrir bjargi okkur. Raunveruleikinn er hins vegar sá að við sjálf erum einfær um að bjarga okkur.

Með þetta í huga fór ég að rýna betur í gömlu sögurnar og ævintýrin úr æsku okkar. Ég velti fyrir mér hinu mikla „trauma“ sem ævintýrin hafa lagt á sögupersónur æsku okkar, það er kvenpersónanna. Lítil stúlka dregur kannski þann barnslega, einlæga boðskap af sögunni af Garðabrúðu að ef heimurinn fær aðeins séð fallega hárið hennar og fær að heyra blíðu röddina verði henni bjargað. Í reynd væri Garðabrúða sennilegast stórsködduð og andlega niðurbrotin eftir vistina og varðhaldið. Það er ótrúverðugt að hún og prinsinn hennar hafi lifað hamingjusöm til æviloka eftir allt sem á undan er gengið. Svona áfall hefur raunverulegar afleiðingar. Það veldur flótta og fíknum og virkilega heggur nærri fólki og reynir það. Þessi hlið gömlu ævintýranna vekur áhuga minn og ég reyni að setja hana í samhengi við samtímann. Fegurð Garðabrúðu og langir lokkar mega kannski heita óumdeildir í ævintýrinu en hvernig reiddi henni af í okkar heimi? Í raunveruleikanum með öll sín skrýtnu, andstæðu og þversagnakenndu skilaboð til ungra stúlkna?“

Sunneva heldur áfram: „Það sem mér finnst skemmtilegast við listir og þá einna helst myndlist er að hún er alltaf spegill á þann sem horfir. Stóri spegilinn verður svo samfélagið eða samtíminn og þannig leikur hún stórt hlutverk í að skapa mannkynssöguna. Það sem mér finnst hins vegar skemmtilegast er þegar áhorfandinn sér eitthvað allt annað en vakti fyrir mér. Þannig var eitt verkanna með rennilás utan um röð af tönnum. Ég var að vísa til þess eiginleika okkar að smjatta á slúðri og bera út róg um náungann, en fullorðinn maður á sýningunni sá úr því tennta píku sem gæti bitið til manna sem legðu í hana! Áhorfandinn fer eins djúpt ofan í veruleika bæði myndlistarmannsins og sín sjálfs og hann getur,“ segir Sunneva.

„Ég var svolítið lengi að samþykkja að ég þyrfti að láta verkin vinna fyrir mig. Það er ekki hægt að sitja á gullkistu, öllum merkilegu verkunum sínum og bíða rétta tímans. Þegar ég var yngri hafði ég klassískar og rómantískar hugmyndir um „listamanninn“. Ég sá sjálfa mig fyrir mér eina í ástarsorg að skapa og mála. Ég taldi sársauka og trega vera uppsprettu listar. En ég öðlaðist aðra sýn þegar ég ákvað að hætta að drekka 24 ára gömul. Þá breyttist lífið svo mikið. Ég varð hamingjusamari, glaðari og frjálsari. Ég lærði að það má skapa list og vera hamingjusamur. Bölið er ekki forsenda listrænnar sköpunar, þótt það sé magnað hreyfiafl. Ég fór hins vegar nær kjarnanum, sannleikanum um líf mitt, og í stað þess að skapa fyrir aðra eða eftir hugmyndum mínum um hvað list ætti að vera gerði ég það sem mig langaði til.“

Hvernig útskýrir þú hugmyndirnar að baki málverkunum og það að rómantísk fantasía geti snúist upp í andstæðu sína þegar betur er að gáð?

„Í list minni reyni ég að segja hlutina eins og þeir eru til þess að benda á þá og í raun til þess að breyta þeim, ekki til að fela þá. Ég tel að í skömminni og feluleiknum stækki samfélagsleg mein og þeim er viðhaldið. Heimur kvenna er fullur af skömm. Tíðir, barneignir, flókin sambönd og fleira. Okkur er aldrei sagt hvað gerist eftir „hamingjusöm til æviloka“ eða leyft að skora þær hugmyndir á hólm. Ég vildi rannsaka hversdagslegan veruleika konunnar og finna efnivið úr umhverfinu. Úr kvennakúltúr, úr trúnni og spíritisma, menningarsögunni, ævintýrum og náttúrunni. Ég blanda þessu öllu saman í verkunum. Ég blanda saman öllum mótsögnum sem ég finn. Ég tek náttúrulegt hár og neglur, ég líki eftir húð á striganum. Ég stilli því svo upp á móti gerviefnum, gervihári og -nöglum. Ég et saman náttúrunni og neysluhyggjunni, yfirborðsmennskunni. Úr því verða fjarska falleg verk sem við nánari athugun eru gróteskari en mætti ætla. Verkin verða að allri mótsögninni í lífi okkar. Okkur er sagt að vera náttúrulegar og fallegar, en á sama tíma klæðum við náttúruna af okkur, með sokkabuxum, gerviefnum, við lengjum hárið, stækkum brjóstin og sveltum okkur. Við höfnum náttúrunni og upphefjum hana samt.“

Ljósmynd/Baltasar Breki

Eitt verkanna sýnir blóðuga blúndu. Hvernig sérðu ofbeldi úr hvítri blúndu?

„Grunnhugmyndin er í raun ofbeldisfull. Mér finnst áhugavert að taka hluti sem allir samþykkja í hversdagskúltúr og þykja fallegir og hreinir en eiga í raun uppruna sinn í ofbeldi og dýrslegum athöfnum. Þess vegna fór ég að vinna með hvítan blúndutextíl í verkunum mínum. Við eigum að vera í hvítum blúndunærfötum þegar við giftum okkur undir hvíta blúndukjólnum okkar til að sýna fram á að við séum hreinar meyjar. Á brúðkaupsnóttu blæðir okkur í blúnduna, sem er staðfesta þess að við séum óspjallaðar, sem er náttúrlega bara ofbeldi, að þurfa að blæða til að sanna að þú hafir ekki verið notuð áður. Konur mega ekki vera notaðar, en hverjir nota konur? Þetta býr djúpt í menningunni okkar og erfitt að setja ábyrgðina á þessu á einhvern einn.“

Ertu þá bara á móti þeim menningarkima að vera sæt og sexí?

„Nei, alls ekki, ég samþykki konur sem kynverur en er bara ekki alltaf sammála því hvað þykir sætt og sjarmerandi. Það er mikil tvíhyggja á samfélagsmiðlum sem dæmi þar sem konur eru kyngerðar í ríkum mæli. Konur eru kynverur, alveg eins og karlmenn. Það er í góðu lagi að vera sexí en við þurfum ekki að láta það vera þungamiðju í tilverunni. En smekkur fólks er misjafn og verður að fá að vera það og svo er svo gott að muna að við lifum líka bara svo mikið í frumhvötinni þrátt fyrir að við séum að reyna vera siðmenntað samfélag; við erum dýr, og þaðan er allur þessi áhugi kominn. Ég verð stundum að hætta að pirra mig á því að mest lesnu fréttirnar séu um rassa eða fótbolta.“

Ljósmynd/Baltasar Breki

Anarkisti inn við beinið

Það er hispursleysi í Sunnevu og í henni lifir hugmyndafræði anarkisma. „Ég var róttæk þegar ég var yngri og heillaðist af hugmyndafræði anarkisma og lifi hann enn. Ég þoli ekki þessa hugmynd um að hafa vald yfir öðru fólki, það er svo margt í mér sem finnst það óþægilegt og ég reyni að lifa lífinu út frá því. Ég var róttækur unglingur og ég fór á listabraut í FB, klippti af mér hárið, hékk í Hljómalind og bjó í kommúnum. Ég fór ein í bakpokaferðalög um heiminn, varði tíma í Ungdómshúsinu í Köben og tók þátt í baráttu fyrir náttúrunni okkar með Saving Iceland. Ég kannaði alls konar aðstæður sem ég taldi að myndu styrkja mig og fræða mig um heiminn. Ég tel að til þess að geta tjáð þig um hann þurfirðu að upplifa hann. Ég hóf göngu í Listaháskólanum 19 ára gömul í myndlist og útskrifaðist þaðan 23 ára, ég þurfi að finna mína eigin leið í lífinu en ég held að það sé alveg sama hvaða leið þú velur þér, þá sleppur að minnsta kosti engin kona við að gagnrýna sig og skoða útlitslega séð. Það er full vinna að halda í gildi sín í þessu samfélagi.“

Sýning Sunnevu í London gekk vonum framar og var ákveðið að framlengja hana, aðsóknin var slík.

„Það var alveg pakkfullt allan tímann á opnuninni, sendiherra Íslands hélt ræðu og þetta var mjög hátíðlegt. Núna er ég í þessum eftir-sýningar-blús sem margir listamenn upplifa í kjölfar opnana og frumsýninga. Ég hef aldrei opnað kjarnann minn jafn mikið fyrir fólki áður. Ég hef ýtt mörkunum lengra en ég hef leyft mér að fara áður í myndlistinni og er því að súpa seyðið af því núna. Sem er bara náttúrulegt og eðlilegt ferli í þessu öllu saman. Hins vegar hlakka ég mikið til þess að ýta mér enn lengra og vaxa áfram sem listamaður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda