Á 14 útgáfur af Lísu í Undralandi

Kristín Dóra Ólafsdóttir er viðmælandi vikunnar.
Kristín Dóra Ólafsdóttir er viðmælandi vikunnar.

Listaverk Kristínar Dóru Ólafsdóttur hefur á undanförnum árum slegið í gegn, þá sérstaklega á samfélagsmiðlum, en hún á meðal annars heiðurinn af fánanum og verkinu sem á stendur: „Enginn veit neitt og allir eru bara að gera sitt besta“.

Kristín Dóra hefur störf sem menntaskólakennari í haust en í byrjun september opnar hún líka sýninguna Eintómt sólskin á veitingastaðnum Coocoo's Nest. 

Kristín Dóra er viðmælandi vikunnar að þessu sinni.

Hvernig mynd­ir þú lýsa eig­in út­liti?

„Er algjör skvísa en það er margt annað áhugavert við mig.“

Ef fund­in yrði upp pilla sem gerði þig 200 ára mynd­ir þú kaupa hana og í hvað mynd­ir þú eyða þess­um auka árum?

„Nei ég held ég myndi ekki vilja kaupa hana, er mjög sátt við að eldast með fólkinu mínu og kveðja svo á mínum tíma.“

Eru einhverjar auglýsingar sem þú þolir ekki?

„Þær auglýsingar sem snúa að megrunariðnaðinum og þær sem kynda undir óánægju fólks með sjálft sig.“

Hvaða bók last þú síðast?

„Stóru bókina um sjálfsvorkun eftir Ingólf Eiríksson, mjög skemmtilega skrifuð og ég mæli með.“

Á hvernig tónlist hlust­ar þú mest?

„Sænskt glimmerpopp, Bon Iver, Sophie, Friðrik Dór og allt þar á milli.“

Hvað upp­gvötaðir þú síðast um sjálfa þig?

„Ég er alltaf að læra meira um sjálfa mig og get alltaf breyst.“

Hvað er það skrítn­asta sem þú átt?

„Ég á 14 eintök af Lísu í Undralandi, mismunandi útgáfur og tungumál. Elsta eintakið mitt er frá 1920. Það eru töfrar í þessari sögu sem heilla mig.“

Hverju ertu stolt­ust af?

„Syni mínum, Fróða, sem er heimsins bestur og fyndnastur.“

Hvert er átrúnaðargoðið þitt?

„Ég á fyrirmyndir út um allt og reyni að temja mér það góða sem ég sé hjá fólkinu í kringum mig. Þolinmæði mömmu, jákvæðni pabba og skvísulæti Lizzo t.d.“

Hef­ur þú þóst vera veik til að sleppa við að mæta í vinnu eða skóla?

„Já ég hef gert það en eins og annað sem kemur með aldrinum hef ég reynt að vera meira hreinskilin með hvernig mér líður.“

Hvaða kvik­mynd eða sjón­varps­efni hef­ur haft mest áhrif á þig?

„Juno er uppáhaldsmyndin mín og það er mjög margt í henni sem hefur haft áhrif á mig.“

Hvaða skó­stærð not­ar þú?

„38, mig vantar einmitt nýja skó svo þetta er góð áminning fyrir fólkið mitt.“

Hvaða setn­ing hef­ur haft mestu áhrif­in á líf þitt?

„Enginn veit neitt og allir eru bara að gera sitt besta.

Þessi setning byrjaði sem hughreysting til vinkonu árið 2016 sem ég notaði svo í listinni minni og var að miklum sannleika í covid og á sér líf á fjölmörgum stöðum í dag. Þetta er einhversskonar æðruleysisbæn nútímans.“

Hvaða Hollywood-stjörnu ertu skot­in í?

„Kannski ekki Hollywood-stjörnur en parið James Blake og Jameela Jamil eru flottust.“

Hvert er uppáhaldsblómið þitt?

„Síðustu mánuði hef ég bara málað fresíur sem eru uppáhaldsblómin hennar mömmu. Annars er ég alltaf að skoða blóm og pæla í blómum til að mála og svo uppáhaldsblómin mín eru mjög breytileg.“

Að hverju vilt þú spyrja næsta viðmælanda?

„-Hefur einhver kennari haft mikil áhrif á þig?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda